Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 13:30:10 (4022)

1999-02-25 13:30:10# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[13:30]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinargóða og ítarlega skýrslu. Utanríkis- og alþjóðamál eru fyrirferðarmikil sem aldrei fyrr, nú um aldahvörf. Á næstu mánuðum fögnum við 50 ára afmæli, bæði Atlantshafsbandalagsins og Evrópuráðsins og á undanförnum árum höfum við jafnframt fagnað 50 ára afmælum Vestur-Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Veröldin hefur tekið algerum stakkaskiptum á einum áratug, svo ekki sé meira sagt, og við okkur blasir sá möguleiki að friður, öryggi og stöðugleiki geti ríkt um álfuna alla sem ekki er lengur klofin í tvær andstæðar fylkingar. En því miður hefur sá draumur enn ekki orðið að veruleika og ber þar helst að nefna hörmungarnar á Balkanskaga. Sú grimmd og sú örbirgð sem þar er að finna er engu lík. Það hef ég fundið sjálf í heimsóknum mínum á þessar slóðir. Við getum einungis vonað að Vesturlönd með Atlantshafsbandalagið í fararbroddi nái að stilla til friðar og standa vörð um hann í Kosovo, Albaníu, Bosníu-Hersegóvínu og víðar.

Virðulegur forseti. Ísland hefur, þótt lítið sé, hlutverki að gegna í þessu sambandi. Ég vil sérstaklega fagna þeim tímamótum sem orðið hafa á undanförnum árum með þátttöku Íslands í átakavörnum, friðargæslu og uppbyggingu stríðshrjáðra svæða í álfunni. Hið sama gildir um aukin framlög okkar til þróunaraðstoðar í heiminum. Við höfum það einfaldlega of gott til að láta hjá líða að axla okkar ábyrgð á alþjóðavettvangi.

Við Íslendingar höfum enn fremur okkar hlutverki að gegna í öryggismálum álfunnar. Um þessar mundir sækist fjöldi ríkja í Mið- og Austur-Evrópu eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu og enn fleiri horfa til bandalagsins til að koma á friði og standa um hann vörð. Okkar helsta framlag til friðar og stöðugleika í álfunni eru því annars vegar aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar sú aðstaða sem herir aðildarríkjanna hafa á Íslandi. Það er því með algerum ólíkindum að enn sé verið að leggja til að herinn hverfi héðan og að við segjum okkur úr Atlantshafsbandalaginu.

Um leið og við leggjum höfuðáherslu á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins og þátttöku Bandaríkjamanna í öryggismálum álfunnar er mikilvægt að við fylgjumst vel með þróun Evrópusamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála. Aukaaðild okkar að Vestur-Evrópusambandinu gerir okkur kleift að leggja þar áherslu á mikilvægi Atlantshafstengslanna og að aukið og bætt Evrópusamstarf á þessu sviði falli ekki undir Evrópusambandið heldur fari sú þróun fram á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Því miður, virðulegur forseti, hefur reynst nauðsynlegt að grípa til hernaðaraðgerða eða hótana um slíkt til að stöðva átök stríðandi fylkinga. Fyrirbyggjandi aðgerðir og stuðningur við þróun lýðræðislegra stofnana eru hins vegar ekki síður mikilvægir þættir öryggiskerfis okkar og óskandi væri að slíkar aðgerðir dygðu ávallt einar og sér. Þannig stuðlar Evrópuráðið að eflingu réttarsamfélags í aðildarríkjum sínum og styður við bak þróunar lýðræðislegra stofnana í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.

Svipaða sögu má segja um Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, sem vinnur mjög mikilvægt starf á sviði átakavarna og hættuástandsstjórnunar. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega fagna áherslu utanríkisráðherrafundar Norðurlandanna í síðustu viku á aukna samvinnu hinna ýmsu fjölþjóðastofnana álfunnar, einkum á nánara samstarfi Evrópuráðsins og ÖSE á sviði mannréttinda og lýðræðis. Það er mér jafnframt sérstök ánægja að fagna formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins á síðari hluta þessa árs sem og stofnun og eflingu fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu og væntanlegri stofnun fastanefndar hjá ÖSE. Með virkri þátttöku í starfi þessara stofnana leggjum við okkar af mörkum til eflingar friði og stöðugleika í álfunni og öðlumst um leið tækifæri til að kynna okkar sjónarmið á alþjóðavettvangi. Með formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins samfara formennsku Finnlands í ráðherraráði ESB og formennsku Noregs í ráðherraráði ÖSE vinnst Norðurlöndunum öllum einstakt tækifæri til að beina athygli að málefnum sem Norðurlöndin hafa lagt sérstaka áherslu á á alþjóðavettvangi.

Virðulegi forseti. Stækkun rótgróinna fjölþjóðastofnana er ein áskorun áranna eftir kalda stríðið. Ekkert af ríkjum Mið- og Austur-Evrópu hefur enn sem komið er hlotið aðild að Evrópusambandinu. Flest hafa umrædd ríki hins vegar hlotið aðild að Evrópuráðinu sem þannig hefur boðið þau velkomin í hóp stöðugra evrópskra lýðræðis- og réttarríkja. Jafnframt hefur Atlantshafsbandalagið hafið stækkunarferli sitt og innan tveggja mánaða getum við fagnað formlegri aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands að bandalaginu. Stækkun Evrópusambandsins til austurs virðist þó ætla að eiga sér stað seinna en mörg þessara ríkja höfðu vonað, en stækkunarferli sambandsins er engu að síður hafið þótt enn séu nokkur ár í að einhver umræddra ríkja hljóti aðild að sambandinu.

Um leið og við fögnum aðild umræddra ríkja að Evrópusambandinu, aðild sem þau hafa sótt stíft um árum saman, þurfum við að tryggja okkar eigin efnahagslegu hagsmuni gagnvart sambandinu í tengslum við þessa stækkun því um leið og þessi ríki gerast aðilar að Evrópusambandinu gerast þau jafnframt aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Núverandi fríverslunarsamningar okkar hins vegar við mörg þessara ríkja veita okkur t.d. greiðari aðgang með sjávarafurðir en EES-samningurinn gerir og því er mikilvægt að standa vörð um þann samningsbundna markaðsaðgang við stækkun Evrópusambandsins.

Þó okkar langmikilvægustu markaði sé að finna á Evrópska efnahagssvæðinu þá höfum við ekki fremur en aðrir efni á að leggja öll okkar egg í eina körfu. Auk Bandaríkjamarkaðar hafa markaðir í Asíu farið vaxandi og er rétt að hlúa að þeim þrátt fyrir efnahagsörðugleika á undanfarinna missira þar í álfu. Og eins og ég hef áður bent á úr þessum stól eru ýmis merki uppi um að Kyrrahafssvæðið þróist í auknum mæli yfir í sameiginlegt markaðssvæði NAFTA-ríkja, Suður-Ameríkuríkja og Asíuríkja. Því er nauðsynlegt að fylgjast vel með þeirri þróun og reyna eftir fremsta megni að tryggja sem bestan aðgang okkar að umræddum mörkuðum. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega fagna þeim opinberu heimsóknum og viðskiptatengdu heimsóknum sem íslenskir ráðherrar hafa á undanförnum árum farið til ríkja Asíu og Suður-Ameríku. Árangur slíkra ferða mælist e.t.v. ekki í hagtölum sama árs, en ég veit ýmis dæmi þess að Íslendingar í atvinnurekstri erlendis hafi haft mikið beint gagn af slíkum heimsóknum íslenskra ráðamanna fyrir utan þau óbeinu áhrif sem aukin samskipti ávallt hafa.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka sérstaklega ánægju mína með að Ísland skuli í maí taka við formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins í fyrsta sinn og ég vil leyfa mér að hvetja hæstv. utanrrh. til að nýta vel það gullna tækifæri að láta rödd Íslands heyrast á alþjóðavettvangi.