Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 13:56:11 (4025)

1999-02-25 13:56:11# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[13:56]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Margt ber á góma þegar utanríkismál eru rædd á hv. Alþingi og væri tilefni til að víkja að mörgu því sem fram hefur komið í skýrslu hæstv. utanrrh. Ég ætla þó að einskorða mig við fáein atriði í sambandi við skýrsluna sem ég tel að ástæða sé til að gefa sérstakan gaum. Fyrst ætla ég aðeins að víkja að fáeinum þáttum sem snúa að samskiptum okkar við Evrópusambandið en síðan ræða um umhverfismálin og þau tíðindi sem hefur borið við í umræðunni um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að undirrita ekki Kyoto-bókunina við loftslagssamninginn.

Það má heyra á hæstv. utanrrh., og það kemur einnig fram hjá fleiri hv. talsmönnum Framsfl., m.a. hjá síðasta ræðumanni, að verulegur áhugi sé hjá hæstv. ráðherra á því að halda opnum dyrum fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Áherslan í þessum efnum hefur verið að þyngjast af hálfu hæstv. ráðherra á undanförnum árum. Ég er ekki að segja að kaflaskil séu í þessari ræðu en þó er ljóst að áherslan er vaxandi á að halda þessum dyrum opnum og leita að leiðum til þess að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu.

Það er mjög athyglisvert að af hálfu hæstv. utanrrh. og af hálfu þingmanna Framsfl., eins og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, er engin grundvallarandstaða gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það verður að meta afstöðu þessara hv. þm. og hæstv. ráðherra á þann veg að í raun sé á virkan hátt verið að leita leiða til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það þýðir auðvitað í reynd að viðkomandi ætlar sér inn ef sótt verður um aðild. Tilraunaumsóknir eru af öllum sem þekkja til slíkra mála afskrifaðar. Nægir þar að vísa til þess sem gerðist á Norðurlöndunum þegar umsókn Noregs, Svíþjóðar og Finnlands var á dagskrá og stjórnvöld þar vísuðu því frá að um nokkra slíka tilraunastarfsemi gæti verið að ræða. Það liggur einfaldlega í því að menn fá ekki marktæk svör ef ekki er raunverulegur áhugi á því að komast í höfn. Og eins og slíkt samningaferli gengur fyrir sig þá er erfitt fyrir menn að stöðva sig af, þó að auðvitað geti dregið til þeirra tíðinda. Ég útiloka þó ekki að þeir þröskuldar reynist vera að aðild yrði hafnað, m.a. í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef málið yrði lagt fyrir atkvæðisbæra Íslendinga.

[14:00]

Ég er alveg andvígur þeirri nálgun sem þarna er uppi. Ég vil hins vegar að við treystum góð samskipti við Evrópusambandið, eigum góð samskipti við það. Það er ekki nokkur spurning að það er Íslandi mjög mikilvægt, og við hljótum að leggja á það áherslu, en hugmyndin um það að ætla sér inn í þetta væntanlega stórríki sem er á öruggu spori í þá átt hugnast mér ekki. Allt sem hér er framreitt og allt sem við þekkjum til lýtur að því að Evrópusambandið þróist í þá átt og niðurstaðan verði sú. Utanríkismálastefnan, öryggismálastefna sambandsins, allt ber þetta að sama brunni og þeir samningar sem gerðir hafa verið og breytingar á Rómarsamningnum.

Það vekur athygli, eins m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minnst á, að áherslur Framsfl. eru um margt að líkjast þeim áherslum sem fram koma hjá Samfylkingunni svokölluðu þar sem menn halda öllum dyrum greinilega opnum fyrir hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu. Það er mjög athyglisvert að þessar áherslur eru ekki bundnar við alþýðuflokksmenn heldur koma fram hjá þeim sem enn kalla sig alþýðubandalagsmenn, þó að lítið sjáist nú orðið eftir af þeim flokki, þ.e. þeim sem tala alveg tæpitungulaust, þar á meðal nánum ráðgjafa formanns Alþb. eins og Ara Skúlasyni sem, eins og menn hafa heyrt í fréttum núna síðustu daga, liggur ekkert á því að hugur hans stefni að aðild að Evrópusambandinu.

Ég hef fyrir löngu í rauninni séð fram á að þeir flokkar sem þarna eru að mótast, þessi krataflokkur sem hér er í uppsiglingu ásamt miðjuflokknum, Framsfl., muni reyna að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Það er barátta sem á eftir að fara fram á næstu árum. En við hljótum að staldra við þegar svo augljós merki eru um það að þessir flokkar eru að safna liði með þetta að markmiði.

Viðhorfið til Schengen-aðildar Íslands eiga rót í sama viðhorfi. Það liggur fyrir að það skiptir ekki nokkru máli fyrir Íslendinga hvort þeir þurfa að hafa vegabréf meðferðis þegar þeir ferðast til Evrópu og ákafi hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar --- það er stutt af Alþfl. eins og ég þekki hans afstöðu --- við að gerast aðili að Schengen-samstarfinu sem nú er orðið þéttbundið inn í Evrópusáttmálana, er af pólitískum rótum runninn eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir reyndar vék að í ræðu sinni, borinn uppi af þeirri hugsun að komast sem næst aðild að Evrópusambandinu til að tengjast þessum þáttum í starfi þess þó að það sé undir þeim afarkostum sem þarna er um að ræða í þessu samstarfi. Það minnir auðvitað á EES-samninginn en gengur jafnvel enn þá lengra að því er varðar ósjálfstæði Íslands með aðild að þessum fyrirhugaða samstarfssamningi sem enn hefur ekki verið lagður fyrir Alþingi í alvöru, aðeins sýndur hér eftir dúk og disk, samningurinn frá 1996.

Á einum þætti þessa máls hef ég ítrekað vakið athygli og geri það enn hér. Hann lýtur að máli sem hæstv. utanrrh. nefndi í lok ræðu sinnar, þ.e. innflutningi fíkniefna til landsins og þeirri miklu vá sem þar blasir við. Ég hef flutt tillögu um að gerð verði úttekt á því máli og ég held að það væri fróðlegt fyrir hv. þingmenn að kynna sér þær umsagnir sem liggja fyrir í allshn. þingsins varðandi þá tillögu, umsagnir m.a. frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík og frá rannsóknarlögreglunni sem lýsa áhyggjum sínum yfir því sem verða kann ef Ísland gengur inn í þennan svonefnda Schengen-samning.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið vakin athygli á afstöðu ríkisstjórnarinnar í sambandi við Kyoto-bókunina. Við hljótum að skoða það mál í tengslum við áherslur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og samstarfi á alþjóðavettvangi. Breyting hefur verið að eiga sér stað í þessum efnum innan Stjórnarráðsins og það er hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., sem hefur staðið fyrir því að taka verulega þætti varðandi stefnumótun umhverfismála frá umhvrn. inn í sitt ráðuneyti með stofnun svonefndrar auðlindaskrifstofu og ráðningu sérstaks sendiherra yfir henni. Skýringarnar á þessu eru m.a. samningar sem varða auðlindir Íslendinga á sjávarútvegssviði, það þekki ég, en einnig á umhverfissviði. Til myndunar þessarar skrifstofu kom einmitt í tengslum við eða um það leyti sem Kyoto-bókunin var á dagskrá. Hér er um það að ræða að verið er að draga úr áhrifum og möguleikum umhvrn. til virkrar stefnumótunar þó að hitt liggi auðvitað í augum uppi að utanrrn. þarf að koma að því máli að formi til. Menn ættu að kynna sér meðferð slíkra mála í nágrannalöndum okkar. Ég fullyrði að viðlíka lítillækkun á ráðuneyti umhverfismála eins og hér hefur orðið í krafti forustu Framsfl. yfir utanríkismálunum og þeirrar veiku stöðu sem hæstv. umhvrh. hefur haft í þessu samhengi lýsir því ekki að farsæl þróun sé þar á ferðinni. Eitt af því sem þar hefur verið að gerast og er afleiðing þessarar pólitísku stöðu innan ríkisstjórnarinnar er sú dæmalausa niðurstaða sem hefur verið gagnrýnd á þessum fundi, að íslenska ríkisstjórnin ætlar ekki að undirrita Kyoto-bókunina en standa eins og þvara, ein meðal OECD-ríkja sem þannig heldur á máli.

Rökin fyrir þessari ákvörðun, eins og þau hafa verið túlkuð af hæstv. utanrrh. við umræðuna og í blaðafregnum að undanförnu, eru afskaplega veik og að mörgu leyti illskiljanleg. Ég held að hverjum manni ætti að vera ljóst að vilji menn ná einhverju verulegu fram í alþjóðlegu samstarfi, þá gera þeir það ekki með því að útiloka sig í raun frá því og tapa trúverðugleikanum í samstarfinu eins og Íslendingar gera með þessari ákvörðun. Það verður ekki létt verk fyrir samningamenn Íslands, sem vissulega eiga aðgang að ársþingum loftslagssamningsins eftir sem áður, að sækja það mál sem ríkisstjórnin ber fram sem aðalröksemd af sinni hálfu, þ.e. að hafa opið hús fyrir mengun frá stóriðju á Íslandi, taka það út fyrir ramma Kyoto-bókunarinnar, þannig að okkur verði heimilt að losa ótakmarkað gróðurhúsalofttegundir frá stóriðjurekstri í landinu. Það verður ekki auðvelt fyrir ágæta embættismenn íslenska ríkisins að sækja það mál á þessum vettvangi. Það fullyrði ég. Enda er staðan auðvitað sú að umhvrn. og trúnaðarmenn hæstv. umhvrh. hafa varað mjög sterklega við því að sú ákvörðun verði tekin sem ríkisstjórnin er nú að gera og beinlínis hvatt til alls annars, þ.e. að Ísland gerist þarna aðili, þar sem þeir gera sér ljóst út í hvaða ófæru er verið að fara fyrir Ísland. Nú harma ég það ekki þó að þetta íslenska ákvæði fari út af borðinu, en ég óttast um stöðu Íslands í alþjóðasamningum og á mörgum sviðum í samskiptum við aðrar þjóðir þegar haldið er á máli eins og hér er gert.

Hæstv. ráðherra heldur því fram að Ísland geti eftir sem áður gerst stofnaðili að Kyoto-bókuninni. Hvað er það, hæstv. utanrrh., að gerast stofnaðili að bókuninni? Ég þekki ekki það hugtak og ef það hefur eitthvert inntak, þá er það fólgið í því að undirrita innan þess frests sem um er að ræða. Ísland hefur þann kost einan eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar, verði henni ekki breytt fyrir 15. mars næstkomandi, að staðfesta bókunina síðar. Það er engin undirritun og það eru ekki neinir fyrirvarar sem hægt er að gera við bókunina samkvæmt ákvæðum hennar sjálfrar þannig að möguleikar Íslands felast einfaldlega í því að staðfesta ef það gengur eftir sem ráðherrarnir eru að láta að liggja að að eftir sem áður ætli þeir að gerast aðilar. Þá er bara sá möguleiki að staðfesta. Hér er á mjög óljósan hátt látið að því liggja af hæstv. utanrrh. að við höfum jú áhuga á því að vera þarna með, en það sé eiginlega ófrávíkjanlegt skilyrði að fallist verði á þá kröfu Íslands að hafa opið hús fyrir stóriðjuna, mengun frá henni. Borin eru fram rök í því sambandi sem eru tóm rökleysa og þetta er sett í það samhengi að allt sé í rauninni undir og af því að við höfum vistvæna orku, þá séum við að þjóna heiminum með því að taka við málmbræðslum á málmbræðslur ofan og með því séum við að þjóna hinu alþjóðlega samhengi. Þannig gerast ekki hlutirnir, virðulegur forseti, og málflutningur hæstv. ríkisstjórnar eins og hann blasir við frá hæstv. ráðherra er satt að segja með miklum endemum.