Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:11:33 (4026)

1999-02-25 14:11:33# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að ríkisstjórnin vill nýta íslenska orku, m.a. til málmbræðslu. En ég veit ekki betur en hv. þm. hafi verið áhugamaður um það líka og látið setja undirstöður undir slíka málmbræðslu á Austurlandi þannig að ríkisstjórnin er ekkert ein um það að hafa áhuga á því að byggja upp íslenskt atvinnulíf.

Það er hins vegar algjörlega rangt að við séum eitthvað að útiloka okkur frá þessu samstarfi eða tapa okkar trúverðugleika. Aðalatriðið er að hv. þm. vill ekki berjast fyrir þeim málstað sem við erum að berjast fyrir. Hann vill ekki berjast fyrir sérstöðu Íslands. Hann vill taka við því sem aðrir rétta honum í þessu sambandi. Og það er undarlegur tvískinnungur hjá honum að vilja annars vegar taka það sem menn rétta að honum í umhverfismálum en neita síðan samvinnu í fíkniefnamálum. Hann neitar að viðurkenna að samvinna yfir landamæri í sambandi við fíkniefnamál skiptir máli. Þar á ekki að vera neitt yfirþjóðlegt vald. Þar eiga menn að forðast yfirþjóðlegt vald. En á sviði umhverfismála eiga menn að beygja sig og hafa ekki einu sinni fyrir því að halda uppi íslenskum málstað. Það er þetta sem skiptir máli. Það er þetta sem hv. þm. vill. Síðan vill hann taka okkur í skóla um það hvernig eigi að standa að því að vinna málstað Íslands fylgi og talar hér eins og hann einn hafi vit á því. Auðvitað er hægt að hafa ýmsar skoðanir í þeim efnum og það eru rök með og á móti í því máli eins og öllum öðrum. Við skulum fara yfir þau rök. En niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú að hagsmunum Íslands sé best borgið með þessum hætti.