Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:13:47 (4027)

1999-02-25 14:13:47# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, íslenskur málstaður. Það er væntanlega hæstv. utanrrh. sem hefur einkarétt á því að túlka hver hann sé. Ég hafna því að íslenskur málstaður sé í því fólginn að hverfa frá alþjóðlegri samstöðu í baráttu við gróðurhúsalofttegundir, að ætla sér sjálftöku í þeim efnum eins og íslenska ríkisstjórnin ætlar sér, að ætla sér að sleppa undan alþjóðlegum skuldbindingum og vera þar ekki samferða. Það er ríkisstjórnin er að gera.

Hæstv. ráðherra ætti að fara yfir málin að því er varðar íslenskar orkulindir áður en lengra er haldið í sambandi við málmbræðslur í landinu. Það skyldi nú vera að við höfum mikil efni á því að bæta þar við bara út frá almennri nýtingu orkulinda okkar ef við ætlum að virða náttúruna í landinu og sýna henni ákveðna hlífð.

Hæstv. ráðherra segir að ég vilji lúta alþjóðlegum skuldbindingum þegar um umhverfismál er að ræða en ekki í fíkniefnamálum. Hver er málstaður ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, varðandi Schengen-samstarfið? Jú, hann er að veikja landamæraeftirlit hér þannig að það verði frjálst streymi fólks án heimildar einu sinni til að taka stikkprufur meðal þeirra sem koma inn í landið frá Evrópska efnahagssvæðinu. Það er viðurkennt bæði af tollyfirvöldum og lögregluyfirvöldum að það muni stórlega veikja möguleika Íslands til eftirlits með straumi fíkniefna frá útlöndum. Það er þetta sem er mjög alvarlegt mál í sambandi við Schengen-samninginn sem hæstv. ráðherra hyggst leggja fyrir þingið ef hann hefur aðstöðu til á næsta kjörtímabili.