Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:20:05 (4030)

1999-02-25 14:20:05# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ræðan sem hæstv. utanrrh. flutti í morgun og dreift var til okkar þingmanna í gær er fyrir margra hluta sakir merkileg. Hún er ekki síst merkileg fyrir það að minna ber á gömlum áherslum frá tímum kalda stríðsins en oft áður. Í stað þeirra leggur hæstv. ráðherra áherslu á þær breytingar sem orðið hafa í heiminum að undanförnu og breytta stöðu okkar í ljósi þeirra.

Hæstv. ráðherra lagði í máli sínu áherslu á að hugmyndafræðilegar forsendur kalda stríðsins væru brostnar og nú ætti sér stað uppstokkun í öryggis- og varnarmálum. Á sama hátt og aðrar þjóðir taldi hann að Íslendingar að ættu að endurmeta stöðu sína í þessu breytta umhverfi. Með ræðu hæstv. ráðherra er fylgiskjal, skýrsla sem heitir Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót. Í henni er einmitt lögð mikil áhersla á að við búum við breytt umhverfi. Í umræðu á Alþingi hefur oft áður verið bent á nauðsyn þess að fram fari ítarleg úttekt á stöðu Íslands meðal þjóðanna í öryggis- og varnarmálum, með tilliti til þeirra breyttu aðstæðna sem við búum við. Oft hefur verið kallað eftir stöðumati og ég fagna því, virðulegi forseti, að í fyrsta sinn frá því að ég tók sæti á þingi fyrir um 12 árum, höfum við fengið slíkt skjal í hendur. Þar er gerð tilraun til að leggja mat á stöðuna eins og hún er í dag. Síðan eru tillögur um hvernig okkur beri að vinna í breyttu umhverfi. Í skýrslunni segir m.a., á bls. 23 í kafla sem heitir Aðlögun að breyttu umhverfi öryggismála, með leyfi forseta:

,,Þróunin í alþjóðamálum hefur fært Íslendingum meira öryggi en þeir hafa nokkru sinni búið við frá stríðslokum. Bein hernaðarógnun við landið er ekki lengur fyrir hendi og íslensk stjórnvöld hafa gerst virkari þátttakendur í samstarfi hins alþjóðlega samfélags í öryggismálum, einkum á Evró-Atlantshafssvæðinu.``

Út frá þessari staðreynd hljótum við að vinna. Í umræðum fyrr í vetur köllu þingmenn eftir því frá utanrrn. og frá hæstv. utanrrh. að úttekt eins og sú sem hér liggur fyrir yrði gerð og að málin yrðu rædd út frá breyttum viðhorfum en ekki út frá ástandinu fyrir 10--15 árum. Því miður höfum við allt of oft verið föst í þeirri umræðu, ekki komist út úr henni.

Ég ætla ekki að segja að þau atriði sem í þessari skýrslu eru séu eitthvað sem ég geti umhugsunarlaust fallist á, alls ekki. Engu að síður finnst mér að í fyrsta sinn í langan tíma hafi hv. þingmenn í höndum plögg sem beina muni umræðunni inn á nýjar brautir. Jafnframt hafa ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi okkar og þátttöku í varnarsamstarfinu orðið til þess að rödd Íslands og sjónarmið eiga mun greiðari aðgang inn í þetta samstarf en áður. Mér finnst það af hinu góða og skýrsla utanrrh., fylgiskjalið með ræðunni, jákvætt skref í þá átt að breyta umræðunni.

Þar kemur einnig fram að einhver markverðasta breytingin sem átt hafi sér stað í alþjóðamálum að loknu kalda stríðinu sé endurskilgreining á hugtakinu ,,öryggi og varnir``. Áður hafði öryggishugtakið fyrst og fremst hernaðarlega merkingu en breytingarnar í alþjóðamálum hafa dregið úr mikilvægi beinna hervarna undanfarin ár. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Jafnframt hefur öryggi fengið dýpri og margþættari merkingu. Aðgerðir til verndar öryggi ríkja eru nú í vaxandi mæli samslungnar almennum utanríkismálum þátttökuríkja hins alþjóðlega samfélags. Samstarf til eflingar friði og stöðugleika verður ekki með góðu móti skilið frá tilraunum til að komast fyrir rætur ófriðar. Efnahagsmál og viðskipti, stjórnmál, mannréttindi, tæknisamstarf og afvopnun snerta nú öryggismál að meira eða minna leyti. Jafnframt hefur virk þátttaka ríkja í störfum fjölþjóðlegra og alþjóðlegra stofnana fengið meira vægi en áður.``

Virðulegi forseti. Boðskapurinn í ræðu hæstv. utanrrh. er nýr. Áður hefur ekki verið fjallað um það svo skýrt í sölum þingsins að okkur beri í ljósi breyttra aðstæðna að endurskilgreina þau hugtök sem við fjöllum svo gjarnan um í andateppustíl hér í ræðustól. Ég fagna því skýrslunni þó ég sé ekki í öllum tilvikum sammála því sem þar kemur fram.

Hæstv. ráðherra mætti hjá utanrmn. í gær til að fara yfir fylgiskjalið með okkur ásamt þeim sem sömdu þessa skýrslu. Hann nefndi að hér væri aðeins um fyrsta skrefið að ræða og enn ætti eftir fara ítarlega yfir þær tillögur sem lagðar eru fram í skýrslunni og hugsanlega mætti útvíkka nefndarsamstarfið. Það er jákvætt og ég tel að í framhaldinu, þar sem eftir á að fara yfir stjórnsýsluþáttinn og betur í þær tillögur sem fyrir liggja í skýrslunni, væri eðlilegt að þátttaka þingmanna kæmi til, þá a.m.k. fulltrúa frá utanrmn. Ég tek undir orð úr bréfi sem fylgir inngangi skýrslunnar, þar sem segir að ýmsar niðurstöður hópsins þarfnist augljóslega frekari umræðu og samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld, enda æskilegt að víðtæk samstaða ríki um meginþætti öryggis- og varnarmála þjóðarinnar.

Samstaðan þarf ekki einungis að vera meðal stjórnvalda. Hún þarf að vera mjög víðtæk meðal þjóðarinnar og meðal þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á hv. Alþingi. Þess vegna hvet ég eindregið til þess að í framhaldinu verði tekin upp þau vinnubrögð að þingmenn og fulltrúar úr utanrmn. komi að vinnunni. Ég held að það muni bæta verulega umræðuna um þennan mikilvæga málaflokk í framtíðinni.

Í ræðu hæstv. ráðherra voru ýmis atriði sem ég vildi koma inn á. Ég tek undir það sem kemur fram í upphafi máls hans þar sem hann greinir frá því sem áður var vitað, að fram undan er mikilvæg formennska Íslands í Evrópuráðinu sem verður virkt framlag okkar til eflingar mannréttinda og lýðræðis í Evrópu. Ég held að þarna sé einstakt tækifæri, þar sem við gegnum formennsku í fyrsta sinn, til að hafa frumkvæði á sviði mannréttinda- og lýðræðismála. Við höfum möguleika á að leggja fram afgerandi tillögur og það er þörf á að þingmenn, þeir sem eru t.d. í Evrópuráðinu, fái að taka þátt í að móta tillögur sem lagðar verða fram af hálfu Íslands. Það er einnig möguleiki á að hafa afgerandi áhrif á innra skipulag Evrópuráðsins. Fyrir dyrum stendur að stokka það allt saman upp og ég tel nauðsynlegt að þar liggi fyrir skýrar tillögur af okkar hálfu.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á EES-samninginn sem átti fimm ára afmæli fyrir stuttu. Hann sagði að hann hefði haft mjög jákvæð áhrif hér og það er vissulega rétt að í mörgu tilliti hefur EES-samningurinn og framkvæmd hans haft mjög jákvæð áhrif. Hins vegar hafa fylgt honum skuldbindingar sem lagt hafa á okkur þungar kvaðir, fjárhagslegar skyldur bæði á ríki og sveitarfélög. Ég tel að of lítið hafi verið gert til að taka saman öll atriði og skila um það heildstæðri skýrslu, upplýsingum til almennings. Í ræðu hæstv. ráðherra kom hins vegar fram að ákveðið hafi verið að stofna stöðu upplýsingafulltrúa fyrir EES-málefni í ráðuneytinu.

[14:30]

Fyrir þinginu liggur þáltill. sem ég flyt ásamt nokkrum hv. þm. þar sem einmitt er fjallað um aukna fræðslu og upplýsingar fyrir almenning um Evrópumálefni og milliríkjasamninga. Ég gat skilið hv. þm. Hjörleif Guttormsson, fyrrum félaga minn sem talaði hér áðan, að með málflutningi okkar og m.a. slíkum tillöguflutningi væri verið að opna á aðild eða umsókn um aðild að Evrópusambandinu og öll jákvæð umræða eða öll umræða yfir höfuð um Evrópusambandið þýddi að verið væri að opna þar einhverjar glufur. Ég tel nauðsynlegt fyrir okkur í samstarfi þjóðanna að hér eigi sér stað opin og lýðræðisleg umræða um stöðu Íslands meðal Evrópuþjóðanna. Ég tel það mjög nauðsynlegt. Og ég tel það mjög nauðsynlegt að öflug upplýsingagjöf eigi sér stað til alls almennings í landinu. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá koma um 80% af þeirri löggjöf sem samþykkt er hér á landi frá Brussel og ég tel mjög mikilvægt, hvort sem um er að ræða löggjöf eða tilskipanir í hvaða formi sem er, að almenningur í landinu sé mjög vel upplýstur um það sem þarna fer fram. Við þurfum að auka hlut okkar í samstarfi þjóðanna og það gerum við ekki öðruvísi en staðið sé fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þessi málefni. Sem betur fer vinn ég þannig sem stjórnmálamaður, hv. þm., að í ráðgjafasveit minni eru menn með mismunandi sjónarmið vegna þess að ég tel það mjög þroskandi fyrir hvern stjórnmálamann að skoða alla þætti máls (Gripið fram í.) og tel því að ég sé mjög heppin að hafa með mér fólk sem kemur inn með mismunandi sjónarmið og hjálpar þannig til við þau verkefni sem ég hef tekið að mér sem stjórnmálamaður.

Það er auðvitað mjög sérstakt að standa hér og svara fyrrverandi félaga en þannig gerast nú kaupin á eyrinni og ef hv. þingmenn kasta fram einhverju í ræðustól hljóta þeir að búast við að fá svör.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað fara aðeins yfir umhverfismálin og get í sjálfu sér stytt þá umfjöllun og tekið undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í þeim efnum. Ég vil þó gjarnan fagna því sem jákvætt er í þeim kafla í ræðu ráðherra en það er að hæstv. ráðherra skyldi lýsa því yfir að hann teldi rétt að Ísland gerðist aðili að CITES-samningnum, sem er samningur um viðskipti með dýr og plöntur sem eru í útrýmingarhættu. Ég tek undir þau rök hans að með aðild styrkist verulega þátttaka okkar í alþjóðlegri samvinnu um vernd, nýtingu og viðskipti með lifandi náttúruauðlindir. Það er hins vegar með öllu óskiljanlegt hvers vegna sömu rök ættu ekki að gilda um aðild okkar að Kyoto-bókuninni og ég vil svo, virðulegi forseti, af því tími minn er að renna út, taka undir það sem hefur komið fram áður að nauðsynlegt er að taka undirritun Kyoto-bókunarinnar til umræðu á Alþingi og ég tel reyndar að nauðsynlegt sé að við förum í umræðu um framkvæmd Ríó-samningsins. Hver er staðan og hvert stefnum við? Ræða hæstv. ráðherra svaraði því ekki.