Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:39:09 (4037)

1999-02-25 14:39:09# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem einungis hérna upp til að taka undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, talsmanni Samfylkingarinnar, um að þetta plagg sem við höfum rætt hér lítillega, sem er fylgiskjal með ræðu utanrrh., er mjög merkilegt. Það er nýtt og ferskt framlag inn í umræðu um öryggismál og má segja að það rífi hana upp úr því hjólfari kaldastríðshjals og vaðals sem þingmenn Sjálfstfl. hafa til að mynda gert allt sitt besta til að halda umræðunni niðri í. Ég er sammála hv. þm. um að hér er kominn ákveðinn grundvöllur til að þróa, eigum við að segja skipulag ákveðinna hluta varnarmála okkar áfram. Ég bendi sérstaklega á að gert er ráð fyrir að kanna þurfi leiðir til að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk einir eða í samstarfi með öðrum ríkjum í vörnum landsins. Og hvers vegna? Það er rökstutt á eftirfarandi hátt vegna þess, eins og segir á bls. 35: ,,síðast en ekki síst gefur dvínandi hernaðarógn við landið Íslendingum færi á að takast á hendur stærra hlutverk í vörnum landsins en áður.`` Ég er algjörlega sammála þessu en þetta er eitthvað sem þarf að útfæra frekar og ég fagna því að það hefur komið fram í umræðum, í orðaskiptum hv. þm. og hæstv. utanrrh., að vilji er til að þingið komi að þessu. Ég held þetta skapi grundvöll fyrir miklu frjórri umræðu en Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir um þessi mál, en hann er að einangrast í þessari umræðu sem fulltrúi kalda stríðsins sem er löngu liðið.