Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:47:30 (4046)

1999-02-25 14:47:30# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla og góða skýrslu um utanríkismál. Í máli mínu í dag mun ég fjalla fyrst og fremst um málefni Vestnorræna ráðsins, enda er mér málið skylt og samstarf þessara grannþjóða er okkur mjög mikilvægt.

Á þskj. 782, sem er 477. mál þingsins, er skýrsla Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 1998. Fulltrúar þjóðþinga Færeyja, Grænlands og Íslands stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985. Samstarf þessara þjóða hefur þróast á mjög jákvæðan hátt á þessu tímabili og ekki síst á síðustu árum eftir að við fengum sérstakan starfsmann fyrir ráðið. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var gerð nafnbreyting á ráðinu. Nú heitir ráðið Vestnorræna ráðið í stað Vestnorræna þingmannaráðið eins og það hét áður. Þá var samþykktur nýr stofnsamningur og nýjar vinnureglur og ný markmið voru sett fyrir ráðið.

Markmið ráðsins eru helst þau að starfa að hagsmunum er lúta að auðlindum og menningu þessara þjóða, að fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og Vestnorræna ráðið er einnig þingræðislegur tengiliður landanna þriggja.

Í Vestnorræna ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Ársfundur er æðsta áskorunarvald ráðsins en á milli ársfunda starfar þriggja manna forsætisnefnd og í henni sitja Lisbeth Petersen frá Færeyjum og Anders Andreasen frá Grænlandi auk mín. Við erum einnig með ákveðnar vinnunefndir um einstök mál. Þingmenn leitast við að ná markmiðum sínum með ályktunum sem kynntar eru á hverjum ársfundi. Við fylgjum þeim eftir með tilmælum til lands- og ríkisstjórna. Við erum með ýmiss konar samstarf við aðra aðila innan vestnorræns samstarfs og samstarf við norðurheimskautastofnanir. Við skipuleggjum einnig ráðstefnur og ýmsa fundi um málefni okkar.

Í byrjun árs 1998 sátu eftirtaldir fulltrúar í Vestnorræna ráðinu: Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Guðný Guðbjörnsdóttir, Ólafur G. Einarsson og Svavar Gestsson. Varamenn voru þá Gísli S. Einarsson, Stefán Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Einar Oddur Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson og Kristín Ástgeirsdóttir.

Þann 5. júní voru kosnir sömu sex fulltrúar, en sú breyting varð á hópi varafulltrúa að Svanfríður Jónasdóttir var kjörin í stað Gísla S. Einarssonar. Þann 9. júní 1998 kaus Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins á fundi sínum Ísólf Gylfa Pálmason sem formann og Ástu R. Jóhannesdóttur sem varaformann Íslandsdeildar fyrir starfsárið.

Ef ég kem þá aðeins inn á störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, en við héldum alls fimm fundi á árinu, fjölluðum m.a. um undirbúning æskulýðsráðstefnu sem haldin var í Reykjavík 10.--12. júlí sl. Við undirbjuggum framkvæmd lífsgildakönnunar sem ráðið hefur falið Félagsvísindastofnun Íslands að vinna að og mun ég koma betur að því síðar í ræðu minni. Við erum að vinna að því að setja á fót vestnorrænan menningarsjóð og koma vestnorrænu samstarfi betur á framfæri í húsum Norðurlandanna í Nuuk á Grænlandi, Þórshöfn í Færeyjum og hér í Reykjavík.

Það er stefna okkar að efla samskipti Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og annarra fjölþjóðastofnana. Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur var gestur á fundi Íslandsdeildar í desember sl. og greindi hann í máli og myndum frá ferðum sínum um vestnorræna svæðið. Svavar Gestson var fulltrúi Vestnorræna ráðsins á ráðstefnu Norðurlandaráðs um umhverfismál sem haldin var í Gautaborg 26.--27. febrúar 1998 og einnig á ráðstefnu þingmannanefndar Norðurheimskautsráðsins í Rússlandi 22.--24. apríl. Formaður Vestnorræna ráðsins sat 50. þing Norðurlandaráðs í Ósló 9.--12. nóvember sl. Auk þess hefur framkvæmdstjóri ráðsins, Páll Brynjólfsson, og sá sem hér stendur fundað með ýmsum aðilum, svo sem fulltrúum Norrænu upplýsingaskrifstofunnar á Akureyri og forstöðumanni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, auk fulltrúa CAFF-skrifstofunnar á Akureyri, fulltrúum Háskólans á Akureyri og Akureyrarbæjar um samninga sem gerðir hafa verið um vestnorræna samvinnu. Í haust funduðum við í Kaupmannahöfn með fulltrúum frá Norrænu ráðherranefndinni, þeim Bjarna Daníelssyni og Ragnheiði Þórarinsdóttur þar sem m.a. var verið að fara yfir á hvern hátt við gætum stofnað hinn svokallaða Vestnorræna menningarsjóð fyrir árið 2000. Í september hittum við Jógvan Durhuus og Lisbeth Petersen úr landsdeildinni í Færeyjum, og Ingu Ellingsgård, formann undirbúningsnefndar fyrirhugaðrar kvennaráðstefnu sem haldin verður í Færeyjum á sumri komanda. Við höfum einnig sótt ráðstefnu um jafnréttismál á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Við fórum einnig á ráðstefnu um byggðamál sem haldin var í Mo i Rana í Noregi og hittum m.a. Svein Ludvigssen, sem er varaformaður Norðurlandanefndar Norðurlandaráðs. Loks má geta þess að framkvæmdastjóri, formaður og ritari Íslandsdeildar hittu stjórn Norræna félagsins á Íslandi og ræddu um samstarfsmöguleika þessara tveggja stofnana, þ.e. félagsins og ráðsins.

14. ársfundur ráðsins var haldinn í bænum Ilullisat á Grænlandi dagana 9.--12. júní 1998. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Svavar Gestsson. Anders Andreasen frá Grænlandi flutti skýrslu forsætisnefndar og gerði grein fyrir störfum ráðsins. Gestir og fyrirlesarar ársfundarins voru Magnús Magnússon frá Háskóla Íslands en hann hélt fyrirlestur um mannlíf á Austur-Grænlandi og sýndi kvikmynd sem Sigrún Stefánsdóttir gerði ásamt öðrum um þetta rannsóknarverkefni. Þá flutti Ragnheiður Þórarinsdóttir, ráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, einnig erindi um starfsemi nefndarinnar og Karl Sigurðsson frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði grein fyrir þeirri lífsgildakönnun sem unnið er að á vegum Vestnorræna ráðsins. Svein Ludvigssen, sem er varaformaður Norðurlandanefndar Norðurlandaráðs, sat fundinn og flutti erindi um samstarf þessara stofnana.

Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum sem ég hef þegar gert grein fyrir hér í þingsölum og fylgt eftir hjá menntmrh. Þær voru um internetsamvinnu skóla, um samvinnu í íþróttasamstarfi og stofnun sérstaks menningarsjóðs.

Á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Ósló 11. nóvember var fjallað um málefni ráðsins og m.a. um það á hvern hátt við ættum að fylgja eftir ályktunum ráðsins. Ákvarðanir um innri mál voru samþykktar. Þema þessa árs er ákveðið að verði málefni kvenna og árið 2000 verður vestnorrænt menningarár. Á ársfundi ráðsins var einnig samþykkt fjárhagsáætlun fyrir ráðið. Fjárhagsáætlunin hljóðar upp á 600 þús. danskar kr. Ísland greiðir helming þeirrar upphæðar en Færeyingar og Grænlendingar einn fjórða hluta hvor.

Vestnorræna ráðið hélt myndarlega æskulýðsráðstefnu í Reykjavík dagana 10.--12. júlí sl. Markmiðið með ráðstefnunni var að skapa vettvang fyrir ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum til umræðu og skoðanaskipta um sameiginleg málefni til að öðlast þekkingu á högum hvers annars og til að veita því tækifæri til að kynnast og þannig renna styrkari stoðum undir vestnorrænt samstarf. Um 130 ungmenni á aldrinum 18--23 ára frá löndunum þremur tóku þátt í ráðstefnunni, auk þorra þingmanna Vestnorræna ráðsins. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti lýðveldisins, var meðal fyrirlesara og gaf ráðstefnunni aukið vægi, því við fengum talsverða fjölmiðlaumfjöllun. Hún fjallaði m.a. um dönskuna sem sameiginlegt samskiptatungumál þessara þriggja þjóða og vakti ræða fyrrverandi forseta mikla athygli.

Önnur verkefni sem fyrirhuguð eru er að dagana 5.--8. júní nk. verður jafnréttisráðstefna í Færeyjum en Hólmfríður Sveinsdóttir frá Kvenréttindafélagi Íslands er fulltrúi Íslands í undirbúningsnefnd að þeirri ráðstefnu, en gert er ráð fyrir að 75 manns taki þátt í þessari ráðstefnu, 25 frá hverju landi.

Vinna að svokallaðri lífsgildakönnun á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands stendur yfir og þar er verið að bera saman lífsgildi og áhugasvið ungs fólks í þessum þremur löndum. Úrvinnsla stendur yfir. Þegar hefur verið unnið úr gögnum frá Íslandi og Færeyjum en enn þá er ekki lokið úrvinnslu á gögnum frá Grænlandi.

Í undirbúningi er að byggja upp Þjóðhildarkirkju og bæ Eiríks rauða í Brattahlíð á Grænlandi. Reiknað er með að framkvæmdum verði lokið árið 2000, þegar landafunda í Vesturheimi verður minnst. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur þegar veitt 10 millj. kr. til verkefnisins og er Árni Johnsen formaður Brattahlíðarnefndar.

Sjávarútvegsráðherra Íslands stóð fyrir vestnorrænni ráðherraráðstefnu um sjávarútvegsmál 15. apríl til að fylgja eftir málum frá sjávarútvegsráðstefnu sem haldin var á Grænlandi á vegum Vestnorræna ráðsins sumarið 1997.

Í vinnslu er kynningarbæklingur um starfsemi ráðsins auk þess sem unnið er að gerð heimasíðu fyrir Vestnorræna ráðið. Nú hefur hæstv. forsrh. endurvakið samstarfsfundi lögmanns Færeyja og formanns landstjórnar Grænlands sem Steingrímur Hermannsson kom á á sínum tíma og ber að þakka það framtak.

Að lokum vil ég þakka samstarfsfólki mínu í Vestnorræna ráðinu fyrir gott samstarf. Brátt lætur Svavar Gestsson af störfum sem alþingismaður. Hann var formaður Íslandsdeildar á síðasta tímabili. Þar hefur Svavar Gestsson unnið gott starf og ber að þakka það sérstaklega. Ég vil einnig þakka framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Páli Brynjarssyni, fyrir mjög góð störf, einnig ritara ráðsins, Auðuni Atlasyni, og starfsmönnunum Elínu Flygenring, Kristínu Ólafsdóttur og Belindu Theriault.