Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:01:46 (4047)

1999-02-25 15:01:46# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið mjög fróðleg umræða eins og utanríkisumræðan oftast er. Ég tek undir það að umræðan í dag hefur um margt verið ólík því sem áður hefur verið. Ég get líka skrifað upp á mjög margt af því sem fram kom í ræðu utanrrh. í dag.

Ég mun hins vegar ekki, þrátt fyrir orð hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar áðan, fara lið fyrir lið yfir ræðuna og greina frá því sem ég er sammála eða ósammála. Ég vildi fremur stikla á stóru og fyrst og fremst fara inn á þá þætti utanríkismála sem mér eru hugstæðir, í framhaldi af því sem talsmenn Samfylkingarinnar hafa þegar komið inn á í ræðum sínum.

Í upphafi vil ég þó taka fram að get ekki tekið undir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og þar með stefnu utanrrh. varðandi Kyoto. Ég minni, herra forseti, á að utanrrh. boðar í dag í ræðu sinni að hann vilji hafa samráð við utanrmn. um varnarmálastefnu. Mér finnst mjög farsælt að leita eftir samráði og að virða Alþingi í öllu sem víkur að stóru málum þjóðarinnar. Varnarmálin og Kyoto eru slík mál og þess vegna hefði verið mjög mikilvægt að hafa samráð við utanrmn. um Kyoto-bókunina, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að undirrita ekki.

Ég tel það pólitísk skilaboð að skrifa undir Kyoto-bókunina. Það eru skilaboð um að Ísland ætli markvisst að taka þátt í verkefninu og af ábyrgð. Verkefni ríkisstjórnarinnar væri síðan að útfæra og kynna hvernig hún ætlaði sér að ná þeim markmiðum sem lögð væru til grundvallar. Það að skrifa undir gæti þýtt að Íslendingar trúi að skilningur sé á sérstöðu þeirra og treysti því að staða Íslands í orkumálum og það sem Ísland hefur sett fram verði viðurkennt. Að skrifa undir er sterkara en að biðja um 0,5--2% sem menn vilja fá í viðbót við 10%, sem er það mesta sem þjóð hefur fengið. Það er því umhugsunarefni fyrir okkur að fara þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið, að vera eina landið innan OECD sem ekki skrifar undir bókunina. Að öðru leyti vísa ég til ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í dag og tek undir orð hans.

Þó er eitt atriði sem ég vildi nefna, herra forseti. Í morgunþætti útvarpsins í morgun var virtur lögmaður var að ræða sjálfstæðisumræðuna í Færeyjum. Hann kom inn á að hann hefði hlustað á útvarpsþátt í Færeyjum þegar hann var staddur þar fyrir nokkrum árum. Þar stilltu menn því þannig upp að fyrir Færeyinga mundi þetta snúast um annaðhvort sjálfstæði eða velferð. Í umræðuþættinum í morgun voru menn að hafna þessu sjónarmiði, að það væri mikil einföldun og málin snerust ekki um annaðhvort velferð eða eitthvað annað. Á sama hátt vil ég afgreiða það sem ráðherrann sagði, að við stöðvuðum uppbyggingu, skertum velferð þjóðarinnar í framtíðinni ef við skrifuðum undir. Ég er ósammála því.

Herra forseti. Menn hafa staldrað við fjölmargt úr skýrslunni í umræðunni í dag. Ísland hefur formennsku á fjölmörgum sviðum í erlendum samskiptum á þessu ári. Ég vænti mikils af Íslandi sem formennskulandi. Mér finnst Ísland hafa lagt upp með mjög góða stefnu þar sem þeir hafa gegnt formennsku. Hér kemur fram að Ísland ætli að leggja áherslu á að móta samnorræna stefnu varðandi norðlægu víddina, sem er hin finnska tillaga innan Evrópusambandsins, og vilji efla umhverfis- og atvinnu- og efnahagsmál á norðurslóðum. Mig langar að spyrja ráðherrann um hvernig hann sjái að norræna víddin komi okkur til góða, sú ágæta stefna. Á Norðurlandavettvangi er mikið rætt um orkusvið og samgöngusvið. Ég hef áður reynt að kalla eftir upplýsingum um hvert hlutverk okkar verði.

Þá er staldrað talsvert við Evrópumálin og Evrópuráðið þar sem Ísland er líka að taka við formennsku. Tekið er fram að framkvæmdastjóri Evrópuráðsins hafi verið gestur hér fyrir nokkru og talið að tækifærin á þessu ári væru einstök, einkum varðaði samstarf milli Evrópuráðsins og ÖSE og varðandi mannréttindi, flóttamenn og málefni minnihlutahópa. Það eru kannski helst þau mál sem ég ætla að koma að hér á eftir.

Einnig kemur fram að Evrópuráðið hafi ákveðið að koma á fót embætti mannréttindafulltrúa sem ætlað sé að fylgjast með þróun mannréttinda og lýðræðismála í aðildarríkjunum. Þetta finnst mér mjög mikilvægt. Varðandi Sameinuðu þjóðirnar er rætt um að Ísland muni hugsanlega sækjast eftir sæti í mannréttindaráðinu og leggja þannig meira af mörkum í alþjóðlegri mannréttindabaráttu. Þetta væri mjög sterkt og þetta mundi ég styðja að Ísland gerði. Ég hvet ráðherrann til að fylgja þessu eftir og láta verða af þessu.

Ég hef áður spurt utanrrh. út í alþjóðlegan sakadómstól. Í ræðu hans í dag kemur fram að síðar á þessu ári hyggist Ísland fullgilda þann samning. Undir hann skrifuðu 74 lönd og Ísland var með þeim fyrstu. Nú er komið að því að staðfesta samninginn. Ég fagna því en ég spyr ráðherrann: Hvað er þetta stórt mál? Liggur fyrir hvaða lögum þurfi að breyta? Hve stórt í sniðum er málið fyrir okkur? Af því að þessu kjörtímabili er að ljúka er ólíklegt að það takist að ná fram þeim lagabreytingum sem æskilegt og spennandi hefði verið fyrir okkur til að vera með allra fyrstu löndum til að fullgilda samninginn um alþjóðlegan sakadómstól.

Það þarf 60 ríki til að dómstóllinn verði virkur. Mannréttindasamtök og fórnarlömb mannréttindabrota um allan heim hafa barist fyrir stofnun þessa alþjóðlega sakadómstóls. Alltaf ber einhver ábyrgðina og því alltaf hægt að sækja einhvern til saka fyrir þau hörmulegu mannréttindabrot sem eiga sér stað í kringum okkur og í fjarlægari löndum. Ég hef hvatt til að við fullgiltum þennan samning og mér fyndist að við ættum að gera það strax. En skammt lifir þings og því verð ég að láta mér nægja að fagna því að fullgilda eigi þennan samning, en mundi gjarnan vilja heyra nánar um það frá ráðherra.

Ég er ánægð með að Ísland sækist eftir sæti í mannréttindaráðinu. Hins vegar spyr ég ráðherrann hvort Ísland muni taka þátt í fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Hann hefst í kringum 20. mars, ef ég man rétt. Þar munu gerðar ýmsar tillögur til úrbóta. Mannréttindaráðið er hið virka tæki Sameinuðu þjóðanna og staðreyndin er sú að brotleg ríki taka mark á tillögum sem samþykktar eru á fundum þess. Ef tillögur sem varða brotleg ríki komast í gegnum fundinn þá skiptir það máli af því að ríkin taka mark á því. Því spyr ég: Hvaða mál lætur Ísland sig varða á þessum fundi? Sækir Ísland fundinn og mun það láta sig ákveðin mál varða?

Erfiðasta tillagan fyrir fundinum er um dauðarefsingar í Bandaríkjunum. Við erum gjarnan að tala um fjarlægari lönd og mannréttindabrot í þeim löndum. Við tölum hins vegar ekki oft um að í þessu vestræna ríki séu framin mannréttindabrot eða að þar séu þjóðfélagshættir sem við getum ekki fallist á. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið mjög sterkt á um það sem snýr að börnum og unglingum. Í Bandaríkjunum er fólk sem fremur glæpi undir 18 ára aldri tekið af lífi í fyllingu tímans, líka andlega vanheilt fólk. Um þetta er nýlegt dæmi frá 4. febrúar.

Ég spyr, herra forseti, utanrrh. Íslands: Þorum við að hafa skoðun á þessu máli? Þorum við að hafa þá skoðun að afnema eigi dauðarefsingar og ekki sé til sóma að vestrænt ríki, sem oft er litið upp til, noti dauðarefsingar? Þetta er eitt af stóru málunum á fundi mannréttindaráðsins.

Evrópuráðið, sem við munum innan skamms veita formennsku, tekur skýra afstöðu gegn dauðarefsingum og vill að öll aðildarríki afnemi dauðarefsingar. Eftir því sem ég best veit þá eru aðeins Úkraína og Albanía eftir og þau ætla sér að afnema dauðarefsingar. Þetta gerist um alla Evrópu. Alls staðar í löndum Evrópu er fólk að taka á þessum málum. Evrópa er að verða dauðarefsingalaust svæði meðan slíkar refsingar aukast í samstarfslandi okkar, Bandaríkjunum. Þess vegna spyr ég: Mun Ísland taka afstöðu í Genf gegn dauðarefsingum Bandaríkjamanna?

Þarna er fjallað um fleiri mál, t.d. um börn í hernaði, ástandið í Alsír og Tyrklandi og stöðu Kúrda eins og komið hefur verið inn á hér.

Ég vil geta þess, herra forseti, að tvö lönd eru ekki aðilar að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þau eru Sómalía, sem kemur kannski engum á óvart, og Bandaríkin --- Bandaríki Norður-Ameríku. Þetta er alvarlegt. Við erum alltaf að tala um hvernig við þurfum að halda á málum gagnvart fjarlægum löndum o.s.frv. en við beinum sjaldan spjótum að þessu landi sem við eigum að öðru leyti góð samskipti við. Við eigum að láta okkur varða, þótt okkar land sé herlaust, börn í hernaði. Við eigum að láta okkur varða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hvaða lönd virða hann.

Ég hef haldið því fram, herra forseti, að Íslendingar með sína djúpu lýðræðishefð og herlausa þjóð eigi að vera rödd mannréttinda á alþjóðavettvangi, ekkert minna. Rödd mannréttinda á alþjóðavettvangi. Ísland getur það. Íslendingar eru virt þjóð og íslenskir stjórnmálamenn í forustuhlutverkum í erlendu samstarfi, hafa alls staðar áunnið sér virðingu fyrir vinnubrögð sín.

Ég vil hrósa utanrrh. fyrir að hafa í auknum mæli orðið slík rödd mannréttinda, bæði í málflutningi sínum hér á Alþingi og líka með því að leggja áherslu á stóru málin í erlendum samskiptum, eins og varðandi Evrópuráðið. Ég hef trú á því að þetta sé rétt stefna.

[15:15]

Á öðru sviði, herra forseti, hef ég látið mig varða mannréttindamál, en það eru mál flóttamanna. Af því að við erum sammála um að utanríkismálin eru vítt svið, ætla ég enn á ný að brýna fyrir utanrrh. að frv. um flóttamenn, sem reyndar er á verksviði dómsmrh., er ekki enn þá komið fyrir þingið. Ég er búin að koma með fyrirspurnir og ábendingar varðandi réttarstöðu flóttamanna allt þetta kjörtímabil. Ég hef kallað eftir því að lögin yrðu endurskoðuð og að gengið yrði í þessi mál á kjörtímabilinu. Lög skortir um réttarstöðu flóttamanna. Í okkar lögum er eingöngu ákvæði um pólitíska flóttamenn. Við eigum að tryggja ráðgjöf, við eigum að tryggja túlk, við eigum að tryggja réttaraðstoð og að bann við brottvísun og endursendingum verði í takt við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1951 sem við erum aðilar að.

Herra forseti. Ég veit að þetta mál er á forræði dómsmrh. Ég veit líka að forgangsmál og forgangsröðun eru rædd á vettvangi ríkisstjórnar. Ég þarf ekki að vænta þess að lög um flóttamenn náist í gegnum þingið, jafnvel þó að þau komi inn á næstu dögum eins og stefnir e.t.v. í. En þetta er alltaf spurning um forgangsröðun. Forgangsröðun er oft umhugsunarefni og þess vegna minni ég á þetta hér.

Að öðru leyti þakka ég fyrir margt það góða sem er að finna í þessari ræðu.