Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:42:23 (4054)

1999-02-25 15:42:23# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir jákvæðar undirtektir við þeirri tillögu minni að Alþingi kjósi sérstaka nefnd sem hafi m.a. Evrópusamskipti til meðferðar. Ég vil jafnframt lýsa ánægju minni með átakið sem utanrrn. hefur gert til að kynna EES-samninginn, það er mikið og þarft verk.

Ég býst jafnframt við að hæstv. ráðherra hafi t.d. séð bækling sem Iðja gaf út, um réttindi verkafólks samkvæmt EES-samningnum. Ég vona að hann sé mér sammála um að þær upplýsingar og það mat sem þar kemur fram á miklum og jákvæðum áhrifum samningsins á réttindi launafólks séu tíðindi sem vert er að koma á framfæri. Því það er annað mál og mikilvægt, ef utanrrn. vill beita sér fyrir því í samvinnu við hagsmunaaðila, að þetta mat um kost og löst EES-samningsins komi frá þeim sem annars vegar hafa atvinnuhagsmuna að gæta, aðilum atvinnulífsins, og hins vegar þeim sem eru að berjast fyrir réttindum alþýðu og launafólks.