Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:56:54 (4065)

1999-02-25 15:56:54# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson dekraði mikið við Evrópusambandið eins og hans er von og vísa í ræðu sinni um utanríkismál. Hann flutti mjög einhliða lofgjörð um markaðssáttmála Evrópusambandsins, nokkuð sem kemur mér alltaf á óvart úr munni manna sem vilja kenna sig við félagshyggju en dekra síðan við þennan markaðssáttmála algerlega gagnrýnislaust. Hv. þm. sagði að aðild að Evrópusambandinu ætti að vera á dagskrá og væri á dagskrá. Nú er það svo að í stjórnmálum er notað ákveðið táknmál. Þannig vita allir að þegar talað er um að Evrópusambandið sé á dagskrá, þá eiga menn í raun við að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Hv. þm. sló hins vegar úr og í í ræðu sinni og sagði að þetta ætti fyrst og fremst og einvörðungu að snúast um að segja kost og löst á Evrópusambandinu, en ekki um að sækja um aðild. Nú vil ég spyrja hv. þm. Hvað vill hann? Vill hann að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu? Hver er stefna hans? Hver er stefna kratanna í þessu efni?