Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:22:31 (4073)

1999-02-25 16:22:31# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Stundum hrín það á mér sem hæstv. utanrrh. segir og ég hef frá því að hann flutti ræðu sína fyrr í morgun kynnt mér stefnu Samfylkingarinnar á Austurlandi. Að því er varðar a.m.k. stóriðju á Austurlandi er hún samrýmanleg því sem ég var í orðaskiptum mínum að segja við hæstv. ráðherra. Þetta mundi ég útskýra fyrir honum ef ég væri ekki búinn með andsvararétt minn. En ég mun ábyggilega geta gert við síðara tækifæri.

Skoðun mín á því hvort samningamarkmiðið hjá hæstv. ráðherra sé rétt er aukaatriði í umræðu minni við hann núna. Ég er að ræða um samningatækni. Samningatæknin hefði einfaldlega átt að vera þessi: Ef við fylgjum anda þessarar bókunar hefði hæstv. ráðherra getað gert eins og Bandaríkin, hafnað því að staðfesta þegar stundin rennur upp og leggja samninginn þá ekki fyrir þingið. Þetta hefði ég gert og væntanlega Samfylkingin ef hún hefði farið með umboð til þess. Þetta er spurning um samningatækni. En ég tel að þetta hefði verið farsælla. Þetta hefði haft á sér miklu jákvæðari blæ og það hefði ekki verið hægt að segja við Íslendinga með nokkrum móti að þeir væru á ferð sem úlfur í sauðargæru eða sauður í úlfsgæru.