Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:40:10 (4076)

1999-02-25 16:40:10# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:40]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki undrandi á því að samviskan hafi farið að naga hv. þm. Össur Skarphéðinsson örlítið þegar hann var minntur á hversu lúalega hann réðst á fyrrverandi utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson.

Það sem hefur átt sér stað undanfarin ár, frá 1995 og fram á þetta ár, er að sjálfsögðu beint áframhald af því aðlögunarstarfi sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og hæstv. utanrrh. á þeim tíma hafði unnið. Það er beint áframhald í þessu. (ÖS: Nákvæmlega.) Og Sjálfstfl. hefur stutt þessa aðlögun með opnum huga. Það vill bara svo til að minna þarf hv. þingmenn Alþfl. á það hversu málflutningur þeirra er sérkennilegur því að þeir sjást ekki fyrir í málflutningi sínum. Það er ekki þannig að sá sem hér stendur hafi deilt á hv. þm. fyrir það að vilja breytingar, það er ekki svo. (ÖS: Þú túlkaðir það svo.) Það var deilt á hann fyrir stefnuleysi og skoðanaleysi. Það sem er alvarlegasta málið í sambandi við stefnumótun Samfylkingarinnar er hið fullkomna stefnuleysi og skoðanaleysi sem þar kemur fram. Það er reynt að þóknast öllum.