Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:07:26 (4085)

1999-02-25 17:07:26# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:07]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um fyrstu orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í ræðustólnum því að ég veit að hann er miklu betri í dýrafræði en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson.

Mér þykir líka ánægjulegt að heyra að þau skyldu hafa sent Jóni Baldvini Hannibalssyni skeyti á afmælinu hans. Það er fallega gert og sýnir að þau búa þó yfir einhverri kurteisi.

Ég tók ekki svo glöggt eftir því hvenær utanrrh. gekk úr salnum en ég held að hann hafi reyndar gengið úr salnum meðan hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var enn þá í stólnum.

Varðandi það sem við vorum að ræða, undirskrift Bandaríkjanna og það að leggja bókunina fyrir þingið, þá er það auðvitað siðferðisleg skuldbinding að gera það. En að undirrita bókunina vitandi að hún verður ekki samþykkt á þinginu hefur ekkert gildi. Það skiptir ekki neinu máli. Það er ekkert hægt að vísa í að það bendi til þess að samningataktík hæstv. utanrrh. sé ekki í lagi, vegna þess að Bandaríkjaforseti, sem hefur meiri hluta þingsins á móti sér, hegðar sér einhvern veginn öðruvísi. Það eru engin rök í málinu, einfaldlega engin rök í málinu.

Ég tel að hæstv. utanrrh. fari nákvæmlega rétt að varðandi Kyoto-bókunina.