Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:14:04 (4088)

1999-02-25 17:14:04# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:14]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann flutti þinginu og er árlegur viðburður.

Utanríkismál okkar hafa, eins og þingheimur hefur tekið eftir og þjóðin öll, vaxið mjög að umfangi undir stjórn núv. hæstv. utanrrh. og við erum farin að teygja anga okkar út um allan heim. Það sjáum við á vaxandi samstarfi okkar við önnur ríki og sendiráðum sem verið er að opna sem víðast um heiminn til að gæta hagsmuna þjóðarinnar og auka velgengni okkar eftir því sem kostur er.

[17:15]

Sú umræða sem farið hefur fram af hálfu stjórnarandstöðunnar á þessum degi hefur að mestu leyti snúist um einn þátt í ræðu utanrrh. og ekki hvað síst skýrsluna sem fylgdi með. Samfylkingin hefur fagnað ákveðnum atriðum en eins og allir vita hefur Samfylkingin á stefnuskrá sinni, og lýsti því yfir strax og tekist hafði að berja saman hóp sem ætlaði sér að bjóða fram til næstu kosninga og var þá ekki kölluð samfylking heldur þunnildi, að gengið yrði til samninga við varnarliðið og Bandaríkjamenn um að stytta veru varnarliðsins og það færi héðan sem fyrst. Stefnt var að því að þeir samningar hæfust eigi síðar en árið 2000 og að gengið yrði til samninga um að ganga úr NATO síðar.

Þessari stefnu var fylgt eftir með fréttamannafundum fylkingarinnar. Þar kom náttúrlega strax í ljós að mikill ágreiningur var um þetta mál innan þeirra raða og hefur hver reynt að bjarga því sem bjarga má varðandi veru hersins á Íslandi og veru okkar í NATO.

Í fylgiskjalinu með ræðu sinni hefur hæstv. utanrrh. þó hreyft máli sem Samfylkingin hefur tekið mjög fagnandi. Hún hefur litið svo á sem þar sé tekið undir málflutning þeirra um að hugsanlega eigi að minnka umsvif hersins hér og Íslendingar að yfirtaka eitthvað af þeim störfum. Samfylkingarmenn hafa túlkað það svo að störf okkar að varnarmálum, löggæslu og björgunarmálum yrðu öðruvísi en þau hafa verið á undanförnum áratugum í samstarfi við varnarliðið.

Ég verð að segja, herra forseti, að tillagan vekur spurningar hjá mér. Ég velti því náttúrlega fyrir mér hvað svona tillaga eigi að leiða af sér og hvort ætlunin sé að halda áfram með þær hugmyndir sem þarna koma fram. Ég er einn þeirra sem vilja hafa frið í heiminum og verja það ástand að hér séu menn sáttir. Spurningin er alltaf um leiðirnar sem menn vilja fara í þeim málum. Ég hef sjálfur stutt tvíhliða samning við Bandaríkjamenn, um að þeir haldi uppi vörnum fyrir landið og ég hef ekki séð að nein ástæða sé til að breyta því, né því að við höldum stöðu okkar innan NATO.

Í þessari megintillögu sem kemur fram í skýrslu starfshóps utanrrn. segir: ,, Kannaðar verði leiðir til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk, einir eða í samstarfi við önnur ríki, í vörnum landsins ...`` Ég velti ýmsu fyrir mér þegar ég sé svona setningu í skýrslu frá utanrrn. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. hvað þetta þýðir, að Íslendingar, einir eða í samstarfi við önnur ríki, axli stærra hlutverk í vörnum landsins. Við erum að sjálfsögðu með tvíhliða samning við Bandaríkjamenn í dag um varnir landsins. Er um það að ræða að aðrar þjóðir taki þátt í vörnum landsins eða eigum við að taka þetta að okkur einir?

Ég hef að sjálfsögðu áhyggjur af öllum hugmyndum um breytingar á þessum samningum okkar við varnarliðið sem þingmaður Suðurnesja. Í því felst ekki kaldastríðsáróður eins og samfylkingarmenn hafa hamrað á heldur ræði ég bara staðreyndir málsins.

Eftir seinni heimsstyrjöldina tóku Íslendingar við rekstri vallarins. Við rekstrinum tók verktaki sem leit eftir húsum og mannvirkjum, hélt flugvöllum opnum, sem voru tveir í þá daga, og í kringum reksturinn, sem þá var allt annar, störfuðu um 400 manns, við eftirlit, viðhald og aðra vinnu sem til féll. Í dag starfa tæplega 2.000 manns hjá varnarliðinu, verktökum og undirverktökum sem vinna fyrir varnarliðið og í kringum starfsemina þar. Ég skynja þetta sem svo að hér sé rætt um þetta í alvöru. Er hæstv. utanrrh. að tala um yfirtöku okkar á störfum sem Bandaríkjamenn muni skilja eftir eða mun störfum á Suðurnesjum fækka, getum við búist við því á næstu árum?

Ég vil að sjálfsögðu ekki að þessi mál verði sett í uppnám né samskipti okkar. Ég veit að samskipti hæstv. utanrrh. og utanrrn. við Bandaríkjamenn hafa verið góð og byggð á gagnkvæmu trausti. Ég veit líka að samskipti verkalýðs- og sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum við Bandaríkjamenn hafa verið traust. Það hlýtur því að vera okkur mikið kappsmál að viðhalda því trausti. Allar stefnubreytingar í samskiptum við Bandaríkin eru því mjög viðkvæmar í okkar huga. Ég efast ekkert um að svo sé einnig hjá hæstv. utanrrh. Þess vegna vil ég fá fram svör við þessum spurningum, þ.e. hvort virkilega sé um einhverjar breytingar að ræða að því leyti.

Varðandi þetta sérstaka mál og varnir og hlutleysi landsins vil ég segja, eins og fram kemur í þessari ágætu skýrslu sem tekur til fleiri þátta en ég hef talað um, að árið 1918 lýstum við yfir ævarandi hlutleysi og vildum ekki hafa neinn gunnfána. Það gagnaði okkur ekki neitt árið 1940 þegar við vorum hertekin af Bretum, enda höfum þegar upp er staðið mjög vanmáttugar varnir ef á reynir. Af þessum ástæðum, herra forseti, lýsi ég áhyggjum mínum og vænti svara frá hæstv. ráðherra.

Mig langaði, herra forseti, að minnast á eitt annað mál, þ.e. samskipti okkar við Norðmenn. Nýverið kom fram í fréttum að Norðmenn hafa sýnt ótrúlega hörku í samskiptum sínum við okkur. Þeir hafa sett öll skip, allan togaraflota landsmanna, á svartan lista. Skipin mega því ekki lengur, eftir því sem fréttir herma, koma í norskar hafnir né mega norsk fyrirtæki eiga samskipti við íslensk útgerðarfyrirtæki með slík skip í rekstri. Að sjálfsögðu er það mjög alvarlegt hvernig þetta hefur þróast. Norðmenn hafa komist upp með að eyðileggja samninga sem íslenskir útgerðarmenn hafa gert við Rússa, t.d. um rækjuveiðar í Barentshafi. Það horfir til stórskaða ef ekki fer að leysast úr þessu leiðindamáli.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Íslendingar voru í fullum rétti við veiðar sínar í Smugunni. Meðan þar var eitthvað að hafa höfðu þeir jafnmikið leyfi til veiða þar og aðrir. Raunar er merkilegt að friðelskandi þjóð eins og Norðmönnum skuli detta í hug að beita okkur þessum ráðum. Með hliðsjón af samskiptum okkar í Norðurlandaráði og víðar er það enn furðulegra að sjá aðgerðir þeirra gagnvart okkur Íslendingum. Ljóst er að þetta getur haft veruleg áhrif á sölumöguleika, t.d. íslenskra útgerðarmanna á skipum sínum. Þar eru verulegir viðskiptahagsmunir í húfi og því er þetta alvörumál fyrir Íslendinga í heild sinni en þó sérstaklega útgerðarmenn.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann gæti í stuttu máli látið eitthvað uppi um viðbrögð utanrrn. við aðgerðum Norðmanna og hvort hann sjái einhverja lausn á þessu alvarlega máli.