Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:30:00 (4090)

1999-02-25 17:30:00# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:30]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. utanrrh. þar sem hann segir að tillögurnar séu til að treysta samskipti okkar við varnarliðið og Bandaríkjamenn og það samstarf sem hér ríkir, tvíhliða samningur um varnir landsins. Auðvitað er aðalatriðið að ekki sé neinn misskilningur á ferðinni um þetta mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu að með þeim hugmyndum sem koma þarna á blað sé ekki verið að gera því skóna að það eigi að fyrra bragði að taka upp samninga við varnarliðið og Bandaríkjamenn um brottför hersins héðan af landinu.

Við vitum að samstarfið og varnirnar hafa breyst mjög á undanförnum árum. Það höfum við best séð sem búum suður með sjó. Bæði hefur flugvélunum fækkað verulega og þeim sem starfa þar einnig en eigi að síður hefur þetta allt saman þróast þannig að við höfum ráðið mjög vel við það. Mjög mikilvægt er að því trausti sem hefur verið milli þessara aðila sé ekki stefnt í neina hættu. Þess vegna bið ég hæstv. utanrrh. um að svara í seinna svari sínu hvort hann sjái fyrir sér einhverjar breytingar hvað starfsmannahaldið varðar en það er náttúrlega nátengt öðru. Einnig bið ég hann að svara hvernig samstarf Norðmanna verður við okkur á næstu mánuðum.