Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:32:02 (4091)

1999-02-25 17:32:02# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki fyrir mér neinar meiri háttar breytingar að því er varðar starfsemina á Keflavíkurflugvelli eða í starfsmannafjölda þar. Auðvitað eru alltaf einhverjar breytingar og hafa verið verulegar breytingar á undanförnum árum en ég sé ekki fyrir mér að fram undan séu neinar þær breytingar sem kalla á sérstök viðbrögð í því sambandi.

Eins og hv. þm. veit höfum við átt í deilum við Norðmenn um margra ára skeið og átt líka í viðræðum við þá um margra ára skeið. Því miður hefur ekki þokast nægilega vel í þeim málum og deilan verður sífellt alvarlegri, m.a. af þeim ástæðum sem hv. þm. rakti. Á þessu stigi get ég ekkert sagt fyrir um það hvort og hvenær þessi mál leysast en við höfum átt allítarlegar viðræður við Norðmenn um þessi mál og mótmælt því hvernig þeir hafa komið fram gagnvart þessum skipum. Staða skipanna er vissulega alvarleg og ég er mjög vel meðvitaður um það og við munum halda áfram að gera okkar ýtrasta til að finna lausn á þeim vandamálum sem blasa þarna við.