Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:33:55 (4092)

1999-02-25 17:33:55# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með að hvorki skuli vera meiningin að hefja einhverjar samningaviðræður um að herinn fari héðan eða að starfsmannahald muni raskast verulega á næstu mánuðum og árum. Ég veit að fólk suður með sjó var farið að hafa áhyggjur vegna umræðunnar um samskipti okkar við varnarliðið. Það er kannski ekki að ástæðulausu eins og farið er að keyra þetta mál upp af stjórnarandstöðunni og við sjáum fyrir okkur á næstu mánuðum harða samninga sem setja samstarf þessara tveggja aðila í uppnám.

Herra forseti. Ég vona að okkar ágæta utanrrh. lánist að ná samningum við Norðmenn út af Smuguveiðunum. Norðmenn leggjast hart gegn vinaþjóð, einni þeirra þjóða sem þátt tóku í veiðunum en að það voru ekki bara Íslendingar sem stunduðu Smuguveiðar, það gerðu fjöldamargar aðrar þjóðir en þessi framkoma hlýtur að vekja viðbrögð Norðmanna sjálfra. Ég á ekki von á því að Norðmenn, sem hafa alltaf haft miklar og sterkar taugar til Íslendinga, séu í sjálfu sér sáttir við svona vinnubrögð gagnvart bræðrum sínum í vestri. Ég efast ekki um ef farið yrði að vinna að þessu á norskri grundu og skýra málstað Íslendinga ætti norsk ríkisstjórn erfitt að verja málstað sinn.