Störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1998

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 18:03:57 (4098)

1999-02-25 18:03:57# 123. lþ. 72.3 fundur 481. mál: #A störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1998# skýrsl, 534. mál: #A norrænt samstarf 1998# skýrsl, 477. mál: #A Vestnorræna ráðið 1998# skýrsl, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[18:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar sem liggur frammi. Íslendingar tóku við formennsku í nefndinni af Svíum um síðustu áramót og er því skýrslan í ár nokkru viðameiri en undanfarin ár. Fyrsti kaflinn er hefðbundin skýrsla samstarfsráðherra sem samin er á grundvelli upplýsinga frá ráðuneytunum. Annar kaflinn er starfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar og meginþættir norrænu fjárlaganna fyrir árið 1999, sá þriðji er formennskuáætlun Íslendinga og sá fjórði þverfagleg áætlun sem kallast ,,Fólk og haf í norðri`` þar sem lýst er helstu markmiðum okkar Íslendinga í málefnum Vestur-Norðurlanda og annarra norðlægra svæða.

Norræn fjárlög ársins 1999 voru samþykkt að lokinni umfjöllun Norðurlandaráðs í nóvember sl. og eru 717 milljónir danskra króna. Þau hafa nú verið óbreytt að heita má síðan 1997 og svo verður einnig fyrir árið 2000. Æskilegt hefði verið að hækka fjárlögin fyrir næsta ár, en um það náðist ekki samstaða. Augljóst er því að fjárlagagerðin verður erfið þar sem tillögur um ýmis forgangsverkefni, m.a. frá Norðurlandaráði, liggja fyrir. Ég vil í því sambandi minna á að þó fjárlögin virðist há, er kostnaður að mestu falinn í langtímaverkefnum og rekstri stofnana sem þjóna mikilvægu hlutverki á sviði vísinda, rannsókna og menningarmála, einnig á sviði fjármála og ekki síst þróunaraðstoðar. Til að gefa hugmynd um umfangið, starfa um 500 manns í fullu starfi við skrifstofu ráðherranefndarinnar og norrænu stofnanirnar rúmlega 30 að tölu.

Gott samstarf er nú komið á við Norðurlandaráð um norrænu fjárlögin og er það fagnaðarefni. Í kjölfar fundar með forseta Norðurlandaráðs í febrúar kemur Norðurlandaráð að fjárlagagerð ársins 2000 fyrr en verið hefur og ætlun mín er að eiga eins opið samstarf við Norðurlandaráð um fjárlögin og áherslur í samstarfinu og unnt er. Liður í því samstarfi er heimsókn forseta Norðurlandaráðs til Íslands í lok næsta mánaðar.

Svíar sinntu formennsku sinni í ráðherranefndinni með ágætum. Aðaláherslumál þeirra voru í upphafi atvinnu- og umhverfismál, sjálfbær þróun á Norðurlöndum og grannsvæðunum við Eystrasalt ásamt Norðvestur-Rússlandi. Áherslan á sjálfbæra þróun endurspeglaðist í yfirlýsingunni sem forsætisráðherrar landanna gáfu í nóvember sl. um sjálfbær Norðurlönd. Á grundvelli hennar er þegar hafinn víðtækur undirbúningur að samstarfsáætlun um sjálfbær Norðurlönd sem lögð verður fram árið 2000.

Síðari hluta formennskutímabilsins hafa Svíar lagt ríka áherslu á að ryðja úr vegi hindrunum fyrir fólks- og vöruflutningum og samruna fyrirtækja á Norðurlöndum. Þetta er starf sem við leggjum áherslu á að halda áfram.

Þjónustusíminn Halló Norðurlönd sem starfræktur hefur verið síðan um mitt ár 1998 til reynslu er einn þáttur þessa. Þar gefst almenningi kostur á að leita upplýsinga um réttindi sín endurgjaldslaust. Þegar er ljóst að þetta er mikilvæg þjónusta og því verður reynslutíminn framlengdur út þetta ár. Ég minni á í þessu sambandi að hátt í 16 þúsund Íslendingar eru búsettir á Norðurlöndum utan Íslands eða nálægt 6% þjóðarinnar. Þessir Íslendingar eiga rétt á aðstoð ef talið er að þeir njóti ekki sömu réttinda og heimamenn eða lögmætra réttinda samkvæmt norrænum samningum.

Þær áætlanir sem Svíar settu fram um störf ráðherranefndarinnar hafa verið mótandi um starfsemina á síðasta ári á sama hátt og við væntum þess að okkar áherslur geri á þessu ári. Langtímamarkmið samstarfsins eru þó sett fram af öllum löndunum sameiginlega í samráði við Norðurlandaráð og frumskylda formennskulandsins er að fylgja þeim eftir.

Hvað varðar störf ráðherranefndarinnar að öðru leyti á liðnu ári, vil ég nefna að ellefu ráðherranefndartillögur sem allar hlutu samþykki, voru lagðar fyrir Norðurlandaráðsþingið í Ósló í nóvember sl. Þar á meðal var norræna stefnumótunin um rannsóknir og vísindi, stefnumið í norrænu menningarsamstarfi við árþúsundamót, norræn tungumálastefna og áætlun um samstarf við félagasamtök á Norðurlöndum.

Þróun norræns sjávarútvegssamstarfs undanfarin ár hefur verið jákvæð. Megináhersla er lögð á stuðning við rannsóknir til að styrkja innviði sjávarútvegs í löndunum. Það sem þó setti mestan svip á samstarfið á síðasta ári var umræðan um umhverfismerkingar í víðum skilningi. Þá var árs hafsins minnst með myndarlegum hætti, m.a. með gerð vefsíðu fyrir ungmenni og sýningu á sjávarútvegsverkefnum úr skólum á Norðurlöndum í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Ósló. Við ætlum að auka kynningu á málefnum hafsins enn frekar og setja ,,heilbrigði sjávar sem forsendu fyrir heilbrigðu sjávarlífi`` í fyrirrúm. Það starf verður unnið í samstarfi við umhverfisyfirvöld og samtök, en aukið þverfaglegt starf ráðherranefndarinnar einkennir störf hennar um þessar mundir.

Þá hafa umhverfismál og sjálfbær þróun mikinn forgang í samstarfinu. Það fellur í hlut okkar Íslendinga á formennskuárinu að leiða undirbúning að nýrri umhverfisáætlun, en núverandi lýkur árið 2000.

Vægi orkumálasamstarfsins hefur aukist undanfarið. Markmið þess er sjálfbær, örugg og samkeppnishæf orkuöflun. Eitt helsta verkefnið á því sviði er norræna orkurannsóknaráætlunin sem kostuð er með beinum árlegum framlögum, utan norrænu fjárlaganna, að upphæð 25 millj. danskra króna. Nú stendur til að setja norræna stofnun um orkurannsóknir á laggirnar án þess þó að kostnaður ráðherranefndarinnar aukist.

Á liðnu ári var haldið áfram því umbótastarfi sem hófst árið 1997 til að auka skilvirkni í störfum skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar. Í lok árs 1998 fór fram mat á þessum umbótum sem sýndi að góður árangur hefur náðst á flestum sviðum. Einnig var á árinu hafinn undirbúningur að sameiningu upplýsingaskrifstofa ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Ráðherranefndin hefur fyrir sitt leyti samþykkt að skrifstofurnar verði sameinaðar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Á árinu voru samþykktar viðamiðunarreglur um kynjaskiptingu í norrænu samstarfi. Markmiðið er að hlutfall beggja kynja verði minnst 40% í öllum embættismannanefndum og stjórnum á vegum ráðherranefndarinnar. Ég kynnti þessar reglur á ríkisstjórnarfundi snemma á árinu til að þeim verði fylgt við tilnefningar af hálfu Íslands.

Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að nýta norræna samstarfið sem best til að hafa áhrif á ákvarðanir ESB. Á þessu og næstu árum gefur formennska okkar og annarra norrænna ríkja á alþjóðavettvangi betra tækifæri en oft áður til að auka tengsl okkar við ESB og aðra samstarfsaðila. Við leggjum höfuðáherslu á að samhæfa Evrópumálin og önnur alþjóðamál í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar. Aukið upplýsingaflæði um Evrópumál og önnur alþjóðamál milli sendiráða Norðurlandanna í Brussel, ráðuneytanna og ráðherranefndarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn er afar mikilvægt. Sendiráð Íslands í Brussel leggur ríka áherslu á að styrkja þessi tengsl og hefur verið þar í fararbroddi norrænu sendiráðanna. Við munum á formennskuári okkar halda áfram að stuðla að auknu upplýsingaflæði bæði til og frá Brussel. Þetta skiptir okkur miklu því oft eigum við góða möguleika í norrænu ráðherra- og embættismannanefndunum á að hafa áhrif á mótun gerða Evrópusambandsins snemma í ferlinu. Norrænu samstarfsráðherrarnir halda nú árlega fundi með sendiherrum Norðurlandanna í Brussel þar sem rædd eru þau mál sem hæst ber í Evrópusamstarfinu.

Það er sérstakt fagnaðarefni að frumkvæði Finna í Evrópusamstarfinu, norðlæga víddin, skuli á leiðtogafundinum í Vínarborg hafa orðið hluti af stefnu ESB. Ekki síður er mikilvægt að hafinn skuli undirbúningur að því að breikka svið norðlægu víddarinnar í vesturátt því þannig skapast tenging við störf Norðurskautssráðsins.

Norræna grannsvæðasamstarfið nær nú, auk samstarfsins við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland, einnig til hluta samstarfsins um málefni norðurskautssvæðanna. Vægi grannsvæðasamstarfsins hefur aukist til muna undanfarin ár. Í ár verður varið um það bil 19% af norrænu fjárlögunum til þess eða tæplega 140 millj. danskra króna. Reglubundið pólitískt samráð á sér stað milli norrænu samstarfsráðherranna og samstarfsráðherra Eystrasaltsríkjanna um samstarfið en jafnframt er tekið tillit til sjónarmiða Norðurlandaráðs þegar ákvarðanir eru teknar. Hjá samstarfsráðherrum Eystrasaltsríkjanna er aðstoð norrænu ríkjanna við undirbúning aðildar þeirra að ESB helsta forgangsmál samstarfsins. Þeir leggja einnig áherslu á að samstarfið eigi sér stað víðar en í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna og að fleiri útibú frá norrænu upplýsingaskrifstofunum verði stofnuð, en þau eru nú þrjú. Auk þessa er lögð áhersla á starfskipti, þróun lýðræðis, velferðarmál, umhverfismál, fyrirbyggjandi heilbrigðisaðgerðir auk aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Samtímis því sem grannsvæðasamstarfinu hefur vaxið fiskur um hrygg hefur hlutur hins hefðbundna norræna samstarfs minnkað í 72% af heildarfjárlögum. Því hafa verið uppi raddir um að dregið skuli úr grannsvæðasamstarfinu. Sú verður þó ekki raunin í fjárlögum ársins 2000 enda eru verkefnin á grannsvæðunum bæði mörg og brýn.

[18:15]

Snemma á síðasta ári hófst undirbúningur í öllum ráðuneytum að formennsku Íslendinga í norrænu ráðherranefndinni og sá Norðurlandaskrifstofa forsætisráðuneytisins um samræmingu starfsins. Á grundvelli þessa undirbúnings var sú heildaráætlun samin, sem hér er lögð fram. Hún hefur verið kynnt á fundum í norrænu ráðherranefndinni og hvarvetna verið vel tekið; sérstaklega þeirri ætlan okkar að auka hlut nágranna okkar á Færeyjum og Grænlandi í samstarfinu og beina sjónum að hagsmunum norð- og vestlægra svæða. Við stefnum að því að gera vestnorræna svæðið sýnilegra alls staðar í samstarfinu og fá Færeyinga og Grænlendinga í auknum mæli inn í samstarfið á ýmsum sviðum. Með markvissri notkun í upplýsingatækni opnast miklir möguleikar á samstarfi innan þessa svæðis og kynningu á sérstöðu þess.

Blása þarf lífi í upplýsingatæknisamstarfið, sem hófst að frumkvæði Norðmanna árið 1997 en hefur því miður ekki náð nægilegri fótfestu. Eins verður hugað sérstaklega að norrænu samráði um hinn svokallaða 2000-vanda og höfum við þegar átt frumkvæði að fyrstu aðgerðum í þá veru.

Þegar er hafinn undirbúningur fyrir samnorrænar aðgerðir í tilefni árþúsundamótanna. Þar minni ég á hina veglegu farandsýningu sem efnt verður til í samstarfi við Smithsonian-stofnunina í Washington þar sem víkingaferðirnar og vesturferðir Norðurlandabúa um eða fyrir aldamót verða sérstaklega kynntar. Fleiri verkefni eru í undirbúningi, og við höfum boðið Norðurlandaráði að eiga aðild að því starfi.

Hvað neytendamál varðar setjum við norræna stefnumótun á sviði löggjafar um neytendavernd í fyrirrúm. Markmiðið er m.a. að tryggja að norrænar lágmarkskröfur verði hafðar að leiðarljósi við stefnumótun bæði á vettvangi ESB og einnig hjá öðrum stofnunum eins og OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Umræður á þingi Norðurlandaráðs í nóvember sl. í Ósló sýndu að þessi mál eru jafnframt í brennidepli þar.

Eins og ég hef áður nefnt beinum við á formennskuárinu sjónum að Norðurskautssvæðinu og vestnorræna svæðinu. Í þverfaglegu áætluninni ,,Fólk og haf í norðri`` sem tekur til þátta á flestum sviðum samstarfsins eru markmið okkar sett fram. Sífellt þarf að minna á að afkoma íbúa þessara svæða er að mörgu leyti ólík afkomu þeirra sem sunnar búa. Hún byggir að mestu á náttúrunni, auðlindum hafsins og landgæðum. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og sjálfbærni á sem flestum öðrum sviðum er því mikilvægari en ella. Þetta er því ein af megináherslum áætlunarinnar, ásamt hreinu umhverfi, náttúruvernd, auknum samskiptum innan svæðisins og aukinni þekkingu á lífi, kjörum og menningu þessara strjálbýlu svæða.

Herra forseti. Ég hef aðeins gert grein fyrir nokkrum þáttum í störfum norrænu ráðherranefndarinnar og formennskuáætlun okkar Íslendinga fyrir árið 1999. Ég vísa að öðru leyti til hinnar umfangsmiklu skýrslu sem hér liggur frammi. Hún er yfirgripsmikil og fróðleg og gefur greinagóða lýsingu á öllum sviðum samstarfs norrænu ríkisstjórnanna. Ég vil að lokum þakka gott samstarf við Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Við áttum mjög gott samstarf við Íslandsdeildina á síðasta ári og leggjum áherslu á að framhald geti orðið á því.