Störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1998

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 18:19:37 (4099)

1999-02-25 18:19:37# 123. lþ. 72.3 fundur 481. mál: #A störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1998# skýrsl, 534. mál: #A norrænt samstarf 1998# skýrsl, 477. mál: #A Vestnorræna ráðið 1998# skýrsl, VS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[18:19]

Frsm. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrir fundinum liggur skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir árið 1998 á þskj. 858. Ég mun sem formaður gera stuttlega grein fyrir innihaldi hennar og rekja störf Íslandsdeildarinnar og fagnefnda Norðurlandaráðs á síðasta ári.

Á síðasta ári vann Norðurlandaráð áfram að því að laga starf sitt að hinu nýja skipulagi ráðsins. Sem kunnugt er var á fundi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 ákveðið að breyta samstarfinu og gera það hagkvæmara og markvissara, m.a. í ljósi nýrra aðstæðna sem sköpuðust í kjölfar umsóknar Noregs, Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Evrópusambandinu og inngöngu síðartöldu ríkjanna í Evrópusambandið.

Skipulagsbreytingarnar, sem lagðar voru til í skýrslunni ,,Nýir tímar í norrænni samvinnu`` fólu í sér að nú er norrænu samstarfi framtíðarinnar beint að þremur meginsviðum: samvinnu innan Norðurlanda, milli Norðurlanda og Evrópu, og samvinnu Norðurlanda og nærsvæða þeirra.

Þó vissulega sé of snemmt að meta hver árangurinn hefur verið af þessum skipulagsbreytingum má fullyrða að þær hafi að mörgu leyti verið til góðs. Aukið skipulag einkennir nú allt samstarfið, skýrari verkaskipting er greinileg sem og markvissari forgangsröðun verkefna. Eins og alltaf má víða gera betur en ég met það svo að í grófum dráttum hafi skipulagsbreytingarnar skilað tilætluðum árangri.

Sem fyrr hefur starfið á árinu einkennst í auknum mæli af pólitísku starfi þar sem flokkahópar ráðsins gegna veigamiklu hlutverki. Fagnefndirnar vinna sjálfstætt að verkefnum sínum og færst hefur í vöxt að nefndirnar setji á stofn sérstaka vinnuhópa til að starfa að ákveðnum málefnum. Forsætisnefnd hefur í auknum mæli einbeitt sér að undirbúningi norrænu fjárlaganna og fjallað um ýmis pólitísk málefni, einkum öryggis- og varnarmál. Það er nýmæli enda hafa öryggis- og varnarmálin nýlega brotist úr klakaböndum kalda stríðsins inn á vettvang norrænnar samvinnu. Má segja að sú utanríkismálaumræða hafi verið ferskur andblær í umræðum síðasta árs.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt sex fundi á árinu og fjallaði um komandi þing og stærri þemaráðstefnur. Einnig var rætt um starfsemi nefnda ráðsins og skipulag almennt. Þá var fjallað um fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 1999 þar sem m.a. náðist fram fjáraukning til reksturs og viðhalds á Norræna húsinu.

Íslandsdeildin lagði sig í líma við að eiga gott samstarf við aðra þátttakendur í norrænni samvinnu og hélt upplýsingafundi með Halldór Ásgrímssyni, samstarfsráðherra Norðurlandanna, Kristínu Kvaran, formanni Norræna félagsins, og Berglindi Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Þá stóð Íslandsdeildin fyrir ráðstefnu um áhrif stækkunar Evrópusambandsins á norræna samvinnu og stöðu Íslands í því ljósi. Ráðstefnan fór fram í marsmánuði og tóku um 150 manns þátt í henni, þar á meðal alþingismenn, embættismenn, blaðamenn, fræðimenn og fulltrúar atvinnulífs og verkalýðshreyfingar, auk erlendra gesta og fyrirlesara.

Loks vil ég sérstaklega geta þess að íslenskt verkefni hlaut að þessu sinni umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs og heiðraði Íslandsdeildin verðlaunahafann, dr. Ólaf Arnalds, og samstarfsfólk hans með móttöku í Norræna húsinu í byrjun nóvember.

Í byrjun árs 1998 tók Berit Brørby Larsen frá Noregi við forsetastóli af Olaf Salmén frá Álandseyjum. Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum flokkahópanna sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Eins og fyrr segir stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins á milli þinga, og annast einnig erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, auk þess að fjalla um hin norrænu fjárlög. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar tók fjárlagavinnuna sérstaklega að sér árið 1998. Forsætisnefnd fjallar einnig um tillögur sem til hennar er beint. Hún hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum. Nokkur umræða hefur verið í nefndinni um að beita þessu valdi í meira mæli til að koma í veg fyrir að of mörg mál liggi fyrir á Norðurlandaráðsþingum.

Á starfsárinu 1998 hafa af hálfu Íslands setið í forsætisnefnd Rannveig Guðmundsdóttir frá flokkahópi jafnaðarmanna og Geir H. Haarde frá flokkahópi hægri manna, en Sigríður A. Þórðardóttir tók sæti hans í maímánuði þegar Geir H. Haarde varð fjármálaráðherra. Auk þess hefur undirrituð setið í nefndinni fyrir hönd miðjumanna.

Forsætisnefnd ræddi á fundum sínum skipulagsmál ráðsins, fjallaði um þær tillögur sem til hennar var beint og um fjárframlög til norrænnar samvinnu.

Fjárlagatillögur ráðherranefndarinnar fyrir árið 1999 voru lagðar fram í byrjun júnímánaðar. Um þær var fjallað í ráðinu eftir að fagnefndir höfðu rætt um þær. Lokaumfjöllun og afgreiðsla fór fram á Norðurlandaráðsþinginu, eins og áður segir. Fullt tillit var tekið til óska fjárlagahóps forsætisnefndar um breytingar á fjárlagatillögunum, svo sem um að auka útgjöld til Norræna menningarmálasjóðsins, til norrænnar íþróttasamvinnu, til baráttu gegn fíkniefnamisnotkun, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er góðs viti að mínu mati þar sem þetta sýnir að alþingismenn í Norðurlandaráði geta haft áhrif á fjárframlög til einstakra verkefna og hlúð að hagsmunum með beinum hætti.

Forsætisnefndin fjallaði einnig talsvert um utanríkismál á fundum sínum, ekki síst um hið útvíkkaða öryggismálahugtak sem tengir saman hefðbundin öryggismál og umhverfis- og félagsmál. Til marks um þessa áherslu fundaði hún með utanríkisráðherrum Norðurlandanna í tengslum við 50. þing Norðurlandaráðs í Ósló. Þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúar ráðsins hafa fundað með utanríkisráðherrunum. Á þessum fundi voru ræddir möguleikarnir á auknu utanríkismálasamstarfi Norðurlandanna, m.a. með tilliti til fyrirbyggjandi friðargæslustarfs og þróunaraðstoðar svo fátt eitt sé nefnt. Nefndin fjallað einnig ítarlega um MAI-samkomulagið og sendi frá sér yfirlýsingar um norrænu víddina í ESB, um umhverfismál og um alþjóðlegar friðargæsluaðgerðir eftir upplýsingafund með Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Júgóslavíustríðinu.

Loks samþykkti forsætisnefnd á fundi sínum 9. desember að styrkja endurbyggingu Brattahlíðar á Grænlandi með framlagi að upphæð 1 milljón danskra króna.

Fulltrúar Íslands í Norðurlandanefnd á starfsárinu voru Sigríður A. Þórðardóttir en Arnbjörg Sveinsdóttir tók sæti hennar í nefndinni þegar Sigríður tók sæti í forsætisnefnd í maímánuði. Þá var Steingrímur J. Sigfússon kjörinn í nefndina á 50. þingi Norðurlandaráðs í Ósló.

Málefni Norðurlandanefndar eru fyrst og fremst sígild norræn samstarfsmálefni. Norðurlandanefnd gerði auk þess sérstaka vinnuáætlun fyrir starfsárið 1998 og ákvað að sérstaklega yrði unnið m.a. að menningarmálum. Þar var lögð áhersla á að styðja Norræna menningarsjóðinn og menningarstarf frjálsra félaga og hópa, málefni barna og unglinga á Norðurlöndunum og nærsvæðunum; baráttu gegn útlendingahatri; tungumálasamstarf og vestnorrænt samstarf.

Auk funda sinna á árinu stóð nefndin fyrir málþingum um menningarmál, um stöðu velferðarríkisins og vinnuhópur um málefni barna og unglinga var settur á fót. Arnbjörg Sveinsdóttir tekur þátt í starfi þess hóps fyrir hönd flokkahóps hægri manna.

Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon og gegndu þau bæði stöðum varaformanna nefndarinnar, hvort fyrir sinn flokkahóp. Eins og nafnið gefur til kynna er hlutverk nefndarinnar að sinna samstarfi Norðurlanda og ESB/EES/EFTA og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Í því sambandi hefur nefndin einkum beint sjónum að atvinnumálum, hagstjórnarmálum, neytendamálum og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndunum. Meðal forgangsverkefna nefndarinnar á árinu 1998 var umfjöllun um áhrif Myntbandalags Evrópu, umræða um áhrif stækkunar Evrópusambandsins, atvinnumál og neytendamál.

Meðal sérstakra funda Evrópunefndar á síðasta ári má nefna fund með atvinnumálaráðherrum Norðurlanda, þar sem óskað var eftir skýrari framsetningu í atvinnumálastefnu ríkjanna, fjölsóttar ráðstefnur um stækkun Evrópusambandsins og ráðstefnu um áhrif Efnahags- og Myntbandalags Evrópu á Norðurlöndin.

Fulltrúi Íslands í nærsvæðanefndinni á starfsárinu var hv. þm. Sturla Böðvarsson. Í vinnuáætlun sinni fyrir starfsárið ákvað nærsvæðanefndin að einbeita sér að samskiptum og samvinnu við Eystrasaltslöndin og heimskautssvæðin en einnig var ákveðið að efla samstarf við nærsvæði Rússlands og þau ríki sem eiga land að Eystrasalti. Önnur viðamikil verkefni nefndarinnar á árinu voru umhverfis- og orkumál þar sem umfjöllun um aðgerðir til að tryggja öryggi kjarnorkuvera í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi var fyrirferðarmikil, enda verkefnið ærið. Sérstakt forgangsverkefni nefndarinnar var barátta gegn skipulögðum glæpum á nærsvæðunum. Ákveðið var að halda sérstakan fund Norðurlandaráðs og Eystrasaltsráðsins í upphafi árs 1999 um málefnið. Sá fundur fór fram í byrjun þessa mánaðar eins og kunnugt er.

[18:30]

Loks vil ég stuttlega geta eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs þar sem fulltrúi Íslands var hv. þm. Sturla Böðvarsson. Í nefndinni situr einn fulltrúi frá hverju landi og aðalverkefni hennar er að fylgjast með og endurskoða starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Nefndin ber einnig ábyrgð á stjórnskipulegum málefnum og tekur til umfjöllunar endurskoðaða reikninga Norræna menningarsjóðsins.

Á árinu heimsótti nefndin nokkrar norrænar stofnanir og á vegum hennar var gerð sérstök úttekt á samræmingu aðstoðar Norðurlandanna við Eystrasaltsríkin. Þá fjallaði nefndin um samræmingu á endurskoðun norrænna stofnana, sem er þarft verk.

Sem fyrr stóð Norðurlandaráð fyrir þemaráðstefnu á árinu sem að þessu sinni var helguð umhverfismálum. Á ráðstefnunni var sjónum beint að skilyrðum sjálfbærs samfélags og hugsjóninni um að Norðurlöndin verði fyrsta sjálfbæra svæðið í veröldinni. Þátttakendur í ráðstefnunni voru þingmenn Norðurlandaráðs, ýmsir ráðherrar Norðurlanda og þingmenn og ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum, auk fulltrúa frá fjölþjóðastofnunum.

Á ráðstefnunni var lögð mikil áhersla á að auka rannsóknir í umhverfismálum og skiptast á upplýsingum með notkun upplýsingatækni. Umhverfisvænir orkureikningar voru ræddir sem og umhverfisskattar, auk tillagna um að nota vörumerkingar til að ná fram markmiðum í umhverfismálum.

Þá stóð Norðurlandaráð fyrir vel heppnaðri ráðstefnu um málefni barna og unglinga á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjunum og í Norðvestur-Rússlandi. Nærsvæðanefnd hafði veg og vanda af ráðstefnunni í samvinnu við UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og fór ráðstefnan fram í desember sl.

50. þing Norðurlandaráðs var haldið í Ósló dagana 9.--12. nóvember sl. Davíð Oddsson hæstv. forsrh. Íslands flutti inngangsræðu almennu stjórnmálaumræðunnar en Ísland fer með formennsku í norrænu ráðherranefndinni árið 1999. Í erindi sínu greindi Davíð Oddsson frá áætlunum ríkisstjórnar Íslands á næsta starfsári sem ber titilinn ,,Fólk og haf í norðri`` og gerði hæstv. utanrrh. ágætlega grein fyrir megindráttum þeirrar áætlunar í umfjöllun fyrr á fundinum.

Gun Hellsvik frá Svíþjóð var á fundinum kosin forseti Norðurlandaráðs og gegnir því embætti nú. Í ræðu sinni í lok þingsins sagðist hún vilja leggja áherslu á aukið samstarf Norðurlandanna við Eystrasaltsríkin og Rússland enda yrðu Norðurlöndin að gæta þess að efla samskipti við öll nærsvæðin svo ekki yrðu til nýjar aðskilnaðarlínur í álfunni. Hún sagðist enn fremur mundu vinna að því að gera starf ráðsins enn skilvirkara og gera öryggismál, mannréttindamál og menntamál að forgangsverkefnum ráðsins á komandi starfsári.

Segja má að þetta séu áhersluatriði hins nýja forseta á þessu starfsári sem nú er hafið, en eins og kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. þá ætlar forseti Norðurlandaráðs, Gun Hellsvik, að heimsækja okkur hér á Íslandi í næsta mánuði.

Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. vakti í ræðu sinni athygli á því að Ísland og hin Norðurlöndin muni á árinu hvert um sig gegna formennsku í mikilvægum fjölþjóðasamtökum svo sem í Evrópuráðinu, ÖSE, ESB og norrænu ráðherranefndinni. Við þessa upptalningu má bæta Norðurlandaráði því á næsta þingi ráðsins í Stokkhólmi í nóvember mun forsæti í Norðurlandaráði koma í hlut Íslands. Þetta embætti felur í sér umtalsverð sóknarfæri í alþjóðamálum því forseti Norðurlandaráðs hefur tækifæri til að hafa áhrif á áherslur Norðurlandaráðs og forgangsröðun verkefna í þingmannasamstarfi Norðurlandanna. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur þegar rætt óformlega í sínum hópi hvernig megi nýta þessa forsetatíð sem best. Ég vek máls á þessu nú því mikilvægt er að alþingismenn hafi þetta tækifæri í huga í umfjöllun sinni um utanríkismál og utanríkisstefnu Íslands.

Ég vil að síðustu þakka þeim hv. þm. sem hafa skipað Íslandsdeild Norðurlandaráðs ásamt mér á því starfsári sem nú er liðið fyrir ákaflega gott samstarf. Eins vil ég þakka starfsmönnum alþjóðasviðs Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir mjög góða þjónustu við okkur þingmenn.