Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:33:44 (4100)

1999-02-26 10:33:44# 123. lþ. 73.92 fundur 292#B svör við fyrirspurnum#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:33]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti taka eftirfarandi fram:

Föstudaginn 19. febrúar óskaði hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, eftir því við forseta og forsn. að nefndin tæki til umfjöllunar svar fjmrh. á þskj. 851 við fyrirspurn hans um verkefni VSÓ-verkfræðistofu, 274. mál þingsins.

Það ber alloft við að alþingismenn kvarta um þau svör sem þeir fá frá hæstv. ráðherrum og hafa þá stundum kallað eftir viðbrögðum forseta eða forsn. Forsetar hafa að jafnaði sagt að þeir séu ekki dómarar um svör ráðherra. Á þeim hljóta ráðherrar sjálfir að bera fulla ábyrgð og sæta aðfinnslum ef tilefni eru til.

Í svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar er hins vegar að finna umfjöllun um grundvallarreglur í samskiptum Alþingis og framkvæmdarvaldsins eins og hæstv. fjmrh. raunar vék að í ræðu sinni við upphaf þingfundarins, þ.e. rétt alþingismanna til að fá svör við fyrirspurnum um opinber málefni. Forsætisnefnd tók því málið til umfjöllunar á fundi sínum í gær. Þá hafði hæstv. fjmrh. þegar haft samband við forseta og skýrt frá því að málið væri til frekari athugunar í ráðuneytinu og að hann hygðist gera þinginu grein fyrir niðurstöðu sinni við upphaf þingfundar í dag.