Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:38:50 (4103)

1999-02-26 10:38:50# 123. lþ. 73.91 fundur 291#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta voru afar athyglisverð viðbrögð hjá hæstv. fjmrh. og jákvætt hér á morgni föstudags að hæstv. fjmrh. skuli flytja ræðu af þessu tagi á Alþingi. Hann er að segja okkur að þegar réttur Alþingis og réttur einkaaðila stangast á, þá eigi Alþingi að njóta vafans. Ég er fullkomlega sammála þessu sjónarmiði ráðherrans og ég fagna því. Mér finnst lofsvert að ráðherrann sé tilbúinn að breyta þeirri afstöðu sinni og ráðuneytis hans til þeirrar fyrirspurnar sem hér hefur verið rætt um á Alþingi.

Mér finnst hins vegar, herra forseti, umhugsunarvert að þetta viðhorf að Alþingi skuli njóta vafans skuli ekki vera hin almenna regla, lítandi til þess hversu mörg ágreiningsmál hafa verið uppi á liðnum missirum þegar við alþingismenn höfum beðið um upplýsingar en ekki fengið þær, þær hafa verið takmarkaðar eða svo óljósar að við höfum túlkað þær sem jafnvel rangar. Mér finnst að þær kringumstæður hefðu ekki skapast ef það væri almenna reglan að Alþingi nyti vafans.

Ég hef tekið þátt í því sem formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs á sínum tíma að fara yfir upplýsingaskyldu á Norðurlöndum samanborið við Evrópusambandið á stórri og mikilli ráðstefnu í Brussel. Það er enginn vafi á því að á Norðurlöndum er gífurleg upplýsingaskylda við almenning, hvað þá heldur þingmenn. Ég lít á það sem eitt helsta verkefni nýs þings að fara yfir það hvernig upplýsingaskylda er í nágrannalöndunum og í hverju henni er ábótavant í samskiptum framkvæmdarvalds og Alþingis þannig að vafamál í þessum efnum heyri sögunni til.