Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:42:41 (4105)

1999-02-26 10:42:41# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:42]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, á þskj. 868. Það er 543. mál þingsins.

Tilgangur frv. er tvíþættur. Annars vegar að afla lagaheimildar fyrir Rafmagnsveitur ríkisins til að stofna og eignast hlut í félögum með það að markmiði að gera fyrirtækinu kleift að taka þátt í samstarfi við aðra aðila á sviði orkumála og hins vegar að afla fyrirtækinu lagaheimildar til að stofna eða eiga hlut í félögum til að nýta þá þekkingu og búnað sem Rafmagnsveiturnar búa yfir til eflingar útflutningi á sérþekkingu í þágu fyrirtækisins.

Varðandi fyrra atriðið eiga Rafmagnsveitur ríkisins nú í formlegu samstarfi við nokkra aðila. Má þar nefna Stykkishólmsbæ vegna hitaveituframkvæmda í Stykkishólmi, Norðlenska orku ehf. um Villinganesvirkjun, Sunnlenska orku ehf. um virkjun í Grensdal og allmarga aðila vegna rannsókna á háhitasvæðinu í Öxarfirði. Öll þessi verkefni falla beint undir tilgang og verksvið Rafmagnsveitna ríkisins eins og þau eru skilgreind í orkulögum. Nú er hins vegar komið að því að stofna þarf til formlegs félagsskapar vegna framangreindra verkefna og því mikilvægt að Rafmagnsveiturnar hafi skýra heimild til þátttöku í þeim félögum sem til stendur að stofna.

Varðandi seinna atriðið hafa Rafmagnsveiturnar bæði einar sér og í samstarfi við aðra staðið að markaðssetningu á íslenskri sérþekkingu tengdri orkumálum erlendis. Ástæða er til að Rafmagnsveiturnar geti einnig stofnað félög eða tekið þátt í félögum sem starfa að tilteknum verkefnum, bæði til samstarfs við aðra og ekki síður til takmörkunar á áhættu þar sem það á við. Þá er einnig mikilvægt að Rafmagnsveiturnar geti á sama hátt staðið að og tekið þátt í rannsóknar- og þróunarverkefnum. Breytingin heimilar Rafmagnsveitunum hins vegar ekki að taka að sér ráðgjöf eða verktöku hér á landi í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði.

Gert er ráð fyrir að verkefni sem fyrirtækið ræðst í á grundvelli lagaheimildarinnar stuðli að hagkvæmari rekstri fyrirtækisins og skili því arði. Í því sambandi er einnig rétt að nefna að samkvæmt samningi ríkissjóðs og Rafmagnsveitnanna frá 9. janúar 1995 er gert ráð fyrir að hluta af arðgreiðslum þess verði varið til rannsóknar- og þróunarverkefna. Er gert ráð fyrir að sú heimild sem fyrirtækinu er veitt með þessari grein nýtist því meðal annars í slíkum verkefnum. Þar sem Rafmagnsveiturnar eru ríkisfyrirtæki og undir yfirstjórn ráðherra samkvæmt orkulögum er talið rétt að leita þurfi hverju sinni heimildar hans til að stofna félög eða kaupa hlut í félögum. Jafnframt þykir rétt, til að stuðla að samræmi, að leitað sé álits fjármálaráðherra hverju sinni.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn.