Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:45:48 (4106)

1999-02-26 10:45:48# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega lítið frv. að vöxtum, aðeins ein grein auk gildistökugreinar, og eins og kom fram í orðum ráðherrans fjallar það um tvennt, annars vegar um heimild til Rafmagnsveitna ríkisins til að stofna og eiga hlut í félögum sem framleiða, flytja, dreifa eða selja orku og hins vegar eiga hlut í félögum til að hagnýta þekkingu og búnað til rannsóknar- og þróunarstarfa.

Eins og ég segi er þetta ekki stórt frv. en ég átta mig ekki á því hvort þarna er verið að leggja til miklar grundvallarbreytingar á þessum málum.

Ég tek það fram, herra forseti, að frumvörp hafa verið að streyma inn í þingið þessa síðustu daga til 1. umr. og væntanlega með það veganesti að ráðherrarnir voni að þessi frv. komist til nefnda og verði afgreidd héðan sem lög sem ég set mjög stórt spurningarmerki við þar sem mál eru svo seint fram komin. Þar sem mál koma svona seint fram og eru næstum samstundis komin á dagskrá gefst ekki rúmur tími til þess fyrir þingmenn að afla sér upplýsinga um hvað hugsanlega felist í þeirri lagabreytingu sem lögð er til og það gildir um þá sem hér stendur. Ég hef ekki haft tækifæri til að ræða við þá aðila utan þings sem ég hefði kosið og því verð ég að spyrja ráðherrann núna spurninga og vísa til þess að málinu verði fylgt eftir í nefnd og þar verði skoðað hvort verið sé að gera grundvallarbreytingar með þessari lagabreytingu eða skapa grundvöll fyrir eðlilegri þróun ríkisfyrirtækis.

Í greinargerðinni er það nefnt varðandi fyrra atriðið, að Rafmagnsveitum ríkisins sé heimilt að stofna eða eiga hlut í félögum með þeim megintilgangi að framleiða, flytja, dreifa og selja orku, að þarna sé t.d. um að ræða Stykkishólmsbæ vegna hitaveituframkvæmda í Stykkishólmi, Norðlenska orku um Villinganesvirkjun, Sunnlenska orku um virkjun í Grensdal og allmarga aðila vegna rannsókna á háhitasvæðinu á Öxarfirði og að þetta falli allt undir tilgang og verksvið Rafmagnsveitna ríkisins eins og það er skilgreint í orkulögum.

Ég mundi gjarnan vilja heyra það hjá ráðherranum að hvaða leyti þessi lög gera Rafmagnsveiturnar sambærilegar við t.d. Landsvirkjun sem er öðruvísi orkufyrirtæki eða hvort þarna er munur á. Ég minnist þess að til þess að minni orkufyrirtæki gætu átt möguleika á því að fá leyfi til virkjunar þá þurfti samning við Landsvirkjun og minnist í því sambandi t.d. utandagskrárumræðu um Hitaveitu Suðurnesja. Við erum nýbúin að fá hér inn raforkulög. Þar er verið að leita heimilda til virkjunar. Þar tók ég eftir því að ekki er óskað eftir lagaákvæði um Hitaveitu Suðurnesja þannig að það er alveg greinilegt að varðandi Landsvirkjun þykir nægilegt að henni sé gert kleift að gera samninga við önnur smærri orkufyrirtæki. En hér þykir mikilvægt að Rafmagnsveiturnar geti stofnað eða átt hlut í félögum eins og þau sem ég hef bent á. Þá hlýtur að vakna spurning: Hvers vegna ekki eingöngu samninga eins og í því tilfelli sem ég hef þegar nefnt eða eru það tilsvarandi lög, sem ég þekki ekki?

Það kemur líka fram í greinargerðinni að gert er ráð fyrir því að verkefni sem fyrirtækið ræðst í á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem hér er verið að sækja stuðli að hagkvæmari rekstri fyrirtækisins og skili því arði. Bent er á að samkvæmt samningi ríkissjóðs og Rafmagnsveitnanna frá 1995 sé gert ráð fyrir því að hluta af arðgreiðslum verði varið til rannsóknar- og þróunarverkefna þannig að ég lít svo á að með þessari lagasetningu sé verið að stuðla að því að Rarik geti orðið meðeigandi eða átt hin ýmsu félög á orkusviði og að þau ýmsu félög á orkusvið geti skapað arð fyrir Rarik og þann arð geti Rarik m.a. notað til rannsóknar- og þróunarverkefna. Þannig reyni ég að skilja það frv. sem hér liggur fyrir.

Sumt af þessu finnst mér jákvætt svo sem eins og það að slíkt fyrirtæki í almannaeigu sem hljóti arð skili þeim arði til mikilvægra rannsóknar- og þróunarverkefna sem eru undirstaða þess að við getum tekist á við ný og ný viðfangsesfni á nýju og nýju sviði. Hins vegar vil ég taka fram að ekki væri eðlilegt að reyna að búa til lagaheimild og skapa eignaraðild fyrir slíkt ríkisfyrirtæki til þess beinlínis að búa til arðinn. Ég væri ekki sammála því sjónarmiði og skal þá enginn túlka orð mín svo að arður hjá ríkisfyrirtæki sé af hinu vonda.

Sú spurning hlýtur líka að vakna hvort að með því að sækja beina og afdráttarlausa lagaheimild fyrir Rarik til þess að stofna til og eiga hlut í félögum sé e.t.v. verið að opna --- og eingöngu þörf á því varðandi þessa lagaheimild að ríkisfyrirtækið sæki heimildina til viðkomandi tveggja ráðherra, þ.e. iðnrh. og fjmrh. --- er Alþingi þá e.t.v. með þessu að búa til fyrstu lagaheimild til þess að hér geti orðið til ofboðslega ráðandi og öflugt fyrirtæki, nú í ríkiseigu, seinna e.t.v. á markaði, sem verði risi á landsvísu og sölsi hugsanlega undir sig smærri orkufyrirtæki heima í héraði og verði síðan í fyllingu tímans sett á markað og allt markaðsvætt, líka það sem menn á sínum tíma töldu e.t.v. að væri almannahagur að hafa í eigu heima í héraði?

Ég er að spyrja ráðherrann um þetta litla frv. með þessari einföldu lagaheimild sem á að opna. Er hún upphaf að einhverju mjög stóru sem við sjáum ekki fyrir?