Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:18:45 (4115)

1999-02-26 11:18:45# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:18]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Vegna þessa litla frv. sem er til umræðu um breytingu á orkulögum vildi ég taka undir þau varnaðarorð sem sett voru fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að það verði að skoða þetta mál mjög vandlega í hv. iðnn. Hér virðist um mjög lítið frv. að ræða en í raun er um afar víðtækar heimildir að ræða til Rafmagnsveitna ríkisins. Frv. er mjög seint fram komið og því enn þá meiri þörf á að það verði skoðað mjög vandlega.

Frv. er athyglisvert í framhaldi af frv. sem hér var til umræðu fyrr í vikunni um raforkuver þar sem heimila á Rafmagnsveitum ríkisins í félagi við aðila í Skagafirði að taka að sér virkjunarheimild frá Landsvirkjun. Það er alveg ljóst að fram undan eru mjög miklar breytingar í orkugeiranum samanber fyrirliggjandi nál., en að því áliti stóðu allir stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi. Ég held að það sé nokkuð einróma álit að hægt sé að gera þennan geira hagkvæmari og það eru breytingar fram undan.

En ég held að ljóst sé að þær breytingar munu verða í þá átt að fleiri aðilar munu koma að virkjunum, fleiri aðilar munu koma að framleiðslu, flutningi, dreifingu og sölu á raforku. En hvernig þetta gerist nákvæmlega er mjög mikilvægt. Hv. þm. Pétur Blöndal talar um sovétkerfi í þessum málum, en svo hefur verið um fleiri mál í samfélagi okkar og við höfum smátt og smátt verið að fikra okkur út úr því ástandi, m.a. má nefna þar bankakerfið. Því er mjög mikilvægt, held ég, að eining sé um aðferðir við þessar breytingar. Mér finnst einboðið að um þessi mál verði að ríkja sátt og að vanda verði hvert skref. Við þekkjum vel söguna frá Rússlandi þar sem eignum ríkisins var dreift til einkaaðila undir yfirskini nauðsynlegrar hagræðingar. En það voru oft flokksgæðingar sem græddu í leiðinni, ekki almenningur sem átti eignirnar.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að íhuga þau skref sem við stígum varðandi orkugeirann mjög vandlega. Þetta gerist þannig að þeir sem eiga orkuna núna, þ.e. íslenska þjóðin eða Landsvirkjun, og hafa staðið að þeim kostnaði sem þessu hefur fylgt, njóti réttlátlega í eðlilegum hlutföllum hver og einn, hvort sem það eru einstaklingar eða sveitarfélög, þess arðs eða þess sem í hlut fólksins kemur.

Mér finnst þessi lagaheimild sem um er að ræða mjög víðtæk. Ég vil ekki taka afstöðu beint gegn þessu núna, en ég tel að þetta þurfi að athuga mjög vandlega. Að mínu mati er dálítið óvænt skref stigið með svona lagaheimild. Ég vil bíða með að taka afstöðu til þessa en vara við að málið fái flýtimeðferð.