Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:33:08 (4117)

1999-02-26 11:33:08# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Spurningar mínar til ráðherra sem voru réttmætar --- það heyri ég betur og betur --- og varnaðarorð mín vegna hinnar opnu lagaheimildar sem hér er beðið um eiga fullkomlega við það að þessi opna lagaheimild gæti nákvæmlega gengið þvert á alla jafnaðarstefnu eftir því hvernig lagaheimildin verður nýtt. Ég gerði í orðum mínum grundvallarmun á lagagreininni sjálfri --- þetta er ein lagagrein í fimm línum --- og greinargerðinni. Herra forseti. Það er ekkert í lagagreininni sem tryggir sérstaklega að hún verði nýtt fyrir dreifbýlið. Ræða þess þingmanns sem hér hefur talað var gjörsamlega út í loftið. Hún dæmir sig sjálf og ég mun í engu fara í þá umræðu sem hann reyndi að opna hér.

Það að túlka orð mín svo að ég, Samfylkingin, jafnaðarmenn eða jafnaðarstefna, horfin eða verandi, sé á móti dreifbýlinu er gjörsamlega út í loftið. Ég veit ekki betur en að ég hafi á Alþingi og í störfum mínum yfirleitt stutt aðgerðir í almannaþágu. Ég er að benda á lagagreinina. Ég er ekki að gagnrýna greinargerðina. Ég ætlast til að þeir sem sitja í þingsal og hlusta á ræðu mína fari rétt með úr ræðu minni en ekki eitthvað annað sem þeir segja að hún hafi verið um.