Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:41:45 (4123)

1999-02-26 11:41:45# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu. En eitt atriði sem kom fram í umræðunni vildi ég undirstrika, þ.e. að grundvöllur heimilda Rafmagnsveitna ríkisins til virkjunar er auðvitað að lækka orkukostnað á landsbyggðinni. Það er tilgangurinn með þessu virkjunarleyfi. Það er tilgangurinn með því að veita leyfi til hagkvæmrar virkjunar vegna þess að Rafmagnsveitur ríkisins starfa á landsbyggðinni og þær þjóna ákveðnum landshlutum. Innkaupsverð á orku til þeirra hefur verið of hátt og fyrirtækið hefur átt í erfiðleikum með að veita þá þjónustu sem því er gert að veita. Því hefur þar að auki verið gert að greiða arð í ríkissjóð en það er vafamál að sé það réttlætanlegt út frá afkomu fyrirtækisins og í rauninni ekki réttlætanlegt.

Virkjunarleyfið er einn þátturinn í því að leiðrétta þann aðstöðumun sem fyrirtækið býr við og er alveg óviðunandi. Það verður að taka á því máli.

Ég vil taka þátt í umræðu til að undirstrika alveg sérstaklega nauðsynin þessa. Ef hv. þingmenn hafa ekki lesið út úr þessu að ætlunin væri að lækka orkukostnað á landsbyggðinni með virkjunarleyfinu þá veit ég nú ekki hvar þeir eru staddir. Ég vildi aðeins undirstrika þetta.