Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:50:04 (4127)

1999-02-26 11:50:04# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárréttur skilningur hjá hv. þm. og ég er sannfærður um að þetta sé skref í átt til breytinga við að innleiða samkeppni í orkugeirann.

Staðreyndin er hins vegar sú að það mun taka dálítið langan tíma og Alþingi hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um það. Hins vegar var tiltölulega víðtæk pólitísk samstaða í þeirri nefnd sem hér var vitnað til áðan að ætla í áföngum að innleiða samkeppni á þetta svið atvinnulífsins og til þess að menn geti talað um samkeppni, þá þurfa þeir að vera með tiltölulega jafnstór fyrirtæki til að taka þátt í samkeppninni. Því er þetta skref stigið nú, til að heimila Rarik að taka þátt í að vinna orku með heimamönnum á þeim svæðum þar sem það er hagkvæmt. Þessa heimild hafa nokkur fyrirtæki í dag.

Megintilgangurinn er síðan sá að menn nái fram auknu hagræði í orkugeiranum í heild sinni þegar samkeppnin er komin á sem leiða mun til lægra orkuverðs þegar fram líða stundir. Þetta er megintilgangurinn.