Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:09:43 (4133)

1999-02-26 12:09:43# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:09]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að við lagasetningu er snerta orkufyrirtæki eins og önnur þá þurfi neytendavernd að vera mönnum ofarlega í huga. Ég er sammála því sjónarmiði. En þá kviknar spurningin: Erum við að ræða um hvernig við skilgreinum hagsmuni neytenda, skammtímahagsmuni og langtímahagsmuni, og tengist það hugtakinu framfarir innan fyrirtækja og í þjóðfélaginu almennt?

Við þurfum að hafa í huga að innan fyrirtækja eins og Rafmagnsveitna ríkisins eins og reyndar allra íslenskra orkufyrirtækja hefur safnast gríðarlega mikil þekking og starfsfólk þessara fyrirtækja, vísindamenn, tæknimenn og aðrir eru í rauninni á heimsvísu og hafa verið að flytja út þann mannauð sem þar hefur safnast upp.

Það er líka mjög mikilvægt, með hagsmuni fyrirtækjanna og þá neytenda eða þjóðarinnar í huga, að nýta þá þekkingu og þann mannauð sem safnast upp í fyrirtækjunum. Oft og tíðum getur það gerst innan fyrirtækjanna, en í öðrum tilvikum þarf það að gerast í öðrum fyrirtækjum sem eru sérstaklega stofnuð um slík verkefni í samstarfi við aðra aðila. Ég tek sem mjög nýlegt dæmi, sem hv. þm. er kunnugt um, nýstofnað vetnisfélag þar sem nokkrar íslenskar stofnanir vildu koma að því fyrirtæki en gátu ekki vegna lagahindrana. Þar eru fyrirtæki í rauninni að missa af möguleika til þess að vera með í miklu framfaramáli og það eru ekki langtímahagsmunir, hvorki fyrirtækisins né neytenda, þar sem um er að ræða nýjan markað jafnvel fyrir þessi fyrirtæki. Þess vegna er það ákvæði sem er til umfjöllunar afskaplega mikilvægt fyrir fyrirtæki á borð við Rafmagnsveitur ríkisins.