Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:33:26 (4138)

1999-02-26 12:33:26# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:33]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis horfir að flestu leyti til bóta. Ég er samþykkur því í meginatriðum en hef eigi að síður haft fyrirvara um tiltekin atriði sem ég vildi gera grein fyrir og beina því til þeirrar nefndar sem kjörin verður að athuga sérstaklega. Þeir fyrirvarar varða 11. gr. og 17. gr. þar sem fjallað er um þau veigamiklu atriði að sameina þingnefndir og stofna eina nýja nefnd til að fjalla um tiltekin málefni.

Ég vík fyrst að e-lið 11. gr. þar sem gert er ráð fyrir að stofna stjórnlaganefnd sem fjallar um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, Stjórnarráðsins í heild, og önnur mál er varða æðstu stjórn ríkisins, svo og skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Ég tel þetta atriði vera mjög til bóta og þetta hefur verið rætt margsinnis í þingsölum að þinglegan vettvang fyrir þetta vantaði, það vantaði að ganga frá umfjöllun um þær skýrslur á þinglegan hátt. Ég fagna því að þetta er komið inn.

Síðan er gert ráð fyrir að fara í mjög róttæka uppstokkun á nefndakerfinu innan Alþingis. Meðal annars er í b-lið gert ráð fyrir að sett verði á fót fjármálanefnd sem fjalli um mál er varða tekjur og gjöld ríkissjóðs, svo sem fjárlög, fjáraukalög og skattamál, efnahagsmál almennt, lífeyrismál og hagsýslugerð. Nánar er kveðið á um starf fjármálanefndar í 17. gr. þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Fjármálanefnd vísar til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarps og fjáraukalagafrumvarps sem taka til málefnasviðs þeirra. Nefndirnar skila fjármálanefnd tillögum innan þess tímafrests sem hún tiltekur og skulu þær prentaðar með áliti nefndarinnar. Breytingartillögur nefndanna skulu vera innan þess fjárhagsramma sem fjármálanefnd ákveður. 2. umræða um fjárlagafrumvarp skal hefjast í fyrstu viku desember og 3. umræða eigi síðar en 15. desember.``

Hér er um mjög róttæka breytingu að ræða sem ég tel að þurfi miklu nánari skoðunar við og vil beina því til nefndarinnar sem fjallar um þetta að farið verði mjög vel ofan í það vinnuferli hvað varðar þessi mál. Ég sakna þess í greinargerð með frv. að ekki virðist miklu plássi vera varið til að fjalla um þá stofnun sem heitir ríkisstjórn Íslands í þessu sambandi en auðvitað má bæta úr því í vinnu nefndarinnar. Þingið er mjög upptekið af því að vinna mál frá ríkisstjórninni. Hér segir að fjármálanefnd eigi að senda mál til fastanefnda til meðferðar og réttilega er tekið fram að það hafi verið gert og reynst vel, en hins vegar er í greinargerðinni nokkuð mikil fullyrðing vegna þess að aðeins örlítill hluti af fjárlagadæminu hefur verið sendur til fastanefnda til raunverulegrar afgreiðslu, nokkrir safnliðir sem skipta ekki sköpum í þessu sambandi. En gert er ráð fyrir að fjármálanefnd ákveði fjárhagsramma og setji fastanefndunum fyrir að gera tillögur innan ákveðins ramma.

Þá verður manni fyrst fyrir að spyrja: Hver er aðstaða fjármálanefndar til að setja fastanefndunum ramma til að vinna eftir? Síðan kemur ríkisstjórnin á síðustu metrum fjárlagaumræðunnar með brtt. upp á kannski 2--3 milljarða kr. þegar nefndirnar eru búnar að fjalla um sinn ramma. Ég sé ekki að neitt sé fjallað um þetta í frv. eða þeirri greinargerð sem því fylgir. Í stuttu máli sagt, ef þessar breytingar eiga að ganga fram verða að vera breytingar á starfsháttum ríkisstjórnarinnar. Það er bara mergurinn málsins. Ég held að ekki þýði fyrir okkur í hv. Alþingi, þó að ég sé ekki að gera lítið úr sjálfstæði þess, að ætla að fara fram með svona róttækar breytingar án þess að ríkisstjórnin sé tilbúin að breyta starfsháttum sínum í samræmi við þessar breytingar. Ef fjármálanefnd á að taka yfir umfjöllun um skattamál verður að leggja fram frumvörp um skattamál á fyrri hluta ársins, þá verða þau að liggja fyrir í upphafi árs. Annars er engin leið að eiga við þetta. Þetta verður sú nefnd sem tekur þetta til meðferðar að fjalla um og reyna að tryggja þessu framgang í samræmi við raunveruleikann ef þessar breytingar eiga að ganga fram.

Ég ætla ekkert að segja af eða á um það hvort þessar breytingar eiga að ganga fram á nefndakerfinu. Ég er tilbúinn að skoða það en ég hef stífan fyrirvara um þetta. Það verður að taka upp kerfi í þessum efnum sem gengur upp í raunveruleikanum. Ég hef miklar efasemdir um að það gangi upp að fjármálanefnd setji fagnefndum ramma til að vinna eftir ef starfshættir ríkisstjórnarinnar breytast ekki að þessu leyti.

Í sænska þinginu hefur nýlega verið tekið upp nýtt fjárlagakerfi og þar er hreinlega bannað að leggja fram brtt. við fjárlagafrumvarpið eftir að það kemur fram en þingmenn hafa frest til að leggja fram brtt. þannig að fjármálanefndin hefur allt dæmið í höndunum í lokaumfjölluninni. Þetta var það sem ég vildi koma til skila.

Á bls. 28 í frv. í skýringum við 17. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Breytingar þessar á meðferð fjárlagafrumvarps byggjast ekki á þeim hugmyndum um rammafjárlög sem nú ryðja sér til rúms á Norðurlöndum (t.d. í Svíþjóð og Noregi) en með orðalagi greinarinnar er stigið visst skref í þá átt og auðvelt á að vera að taka slíkt kerfi upp, ef vilji stendur til þess, með litlum breytingum á þingsköpum og öðrum lögum.``

Ég held að þarna sé visst vanmat að auðvelt verði að stíga skref í þessu efni og breyta svo síðar. Ég held að hv. þingmenn verði að sjá hvar menn koma niður í því stóra skrefi sem stigið er með þessum breytingum.

Ég ætla ekki að hrópa niður þessar breytingar á nefndakerfinu. Það getur verið margt skynsamlegt í því en ég vildi vara mjög við að flana að hlutunum varðandi sameiningu þessara tveggja stærstu þingnefnda þingsins.