Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 13:51:26 (4142)

1999-02-26 13:51:26# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Enn einu sinni er ástæða til að segja að hér sé stórmál á ferðinni sem verðskuldi ítarlega umfjöllun og tíma til þeirra starfa. Í þetta sinn er það hins vegar þingið sjálft en ekki ríkisstjórnin sem kemur með slíkt stórmál inn í þingið á síðustu dögum samkvæmt starfsáætlun.

Það sýnir kannski betur en mörg orð hversu fáir eru viðstaddir umræðuna að hv. þm. eru þessa dagana með fullar hendur af verkefnum sem bæði varða þingið að ógleymdum önnum þeirra sem eru þegar farnir að undirbúa kosningarnar.

Ég hlýt því að segja að ég sé ekki flöt á því að málið verði afgreitt á þessu þingi, því miður, því vissulega er um ýmsar úrbætur að ræða og þetta er auðvitað mál sem varðar okkur þingmenn og störf okkar á Alþingi mjög miklu. Það er mjög miður að málið skyldi ekki koma fyrr inn í þingið. Það hefur verið til undirbúnings og umfjöllunar mjög lengi, nánast allt þetta kjörtímabil og ég hlýt að harma að það skyldi þurfa að koma svona seint til umfjöllunar í þinginu sjálfu.

Ég tel að málið sé allt of lítið rætt innan þingflokkanna, það hefði þurft að koma fyrr til þeirra. Þó upplýsist það hér með að þingflokkar stjórnarandstöðu tóku sig saman og höfðu sérstakan fund um málið og þar urðu mjög góðar umræður og menn reyndu að átta sig á því hvað fælist í tillögunum. Þar komu líka fram mjög margar og veigamiklar athugasemdir og vangaveltur og skoðanir voru skiptar. Ég held að talsvert mikið skorti á að þingmenn hafi almennt vanist þeim hugmyndum sem hér koma fram og tekið afstöðu. Það eru ýmis álitamál sem eiga eftir að ræðast miklu betur.

Ég ætla að gera aðeins örfáar athugasemdir, herra forseti. Fyrst vil ég nefna að ég lagði fram í upphafi þings frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem er endurflutt frv. frá síðasta löggjafarþingi. Það var lagt fram nokkuð snemma og er 66. mál þingsins. Ég hafði tvívegis fengið boð um að ég gæti mælt fyrir því en í seinna skiptið var mér sagt að ætlunin væri að taka það fyrir um leið og þetta frv. yrði rætt sem var þá reyndar ekki enn komið á þingskjal. Ég sætti mig vel við það og reiknaði ekki með að þurfa að hlutast til um það meira. En það er ekki á dagskrá þessa fundar og ég tók hreinlega ekki eftir því fyrr en eftir að þingfundur hófst. En ég vil gera athugasemd við þetta, eðlilegt hefði verið að setja þetta frv. á dagskrá næst á eftir þessu þannig að það væri rætt og jafnvel samhliða.

Ég hygg að hv. þm. kannist við þetta frv., það er mjög fáort og auðvelt að skýra það. Það mundi varða 20. gr. þessa frv. þar sem lagt er til að nýr málsliður bætist við 30. gr. laganna um að nefndarálitum fylgi mat á stöðu kynjanna á viðkomandi sviði og hvaða áhrif ný lög eða ályktun hafi á þá stöðu. Þetta er raunar frv. sem ástæða er til að fái umfjöllun, þetta er fyrsta íslenska lagafrv. sem tekur á svokallaðri samþættingu eða ,,mainstreaming`` eins og það heitir á erlendu máli. En það gerir ráð fyrir því að slík samþætting verði sjálfsagður hluti þingstarfa og ætla ég nú ekki að hafa fleiri orð um það þar sem þetta frv. er því miður ekki á dagskrá en ég reikna með að það fái að fljóta með inn í þá þingnefnd sem á að fjalla um málið.

Ég vil hefja athugasemdir við frv. sjálft með því að taka aðeins fyrir 11. gr. frv. sem fjallar um breytingu á skipan fastanefnda þingsins. Það er eitt af þessum stóru málum sem ég tel að eigi eftir að fá miklu ítarlegri umfjöllun og er þar margt að athuga.

Ég nefni sérstaklega þá nefnd sem samkvæmt frv. er skýrð atvinnumálanefnd. Hún á greinilega að fá stór og mikil verkefni í sinn hlut og enda þótt sum þeirra mála sem eiga að falla undir þessa nefnd séu oft og tíðum ekki mikið til umfjöllunar hér, ég nefni sérstaklega landbúnaðarmál. Við höfum oft orðið vör við að hv. landbn. hefur mjög misjafnlega mikið að gera. Það er náttúrlega með þá nefnd eins og aðrar nefndir þingsins að verkefni þeirra koma í skorpum en þá tel ég að þessi nefnd yrði ákaflega önnum kafin ef hún á að taka öll þessi verkefni til sín.

Gerð er tillaga um nýja nefnd sem heiti dóms- og menntmn. sem eigi að fjalla um dómsmál, kirkjumál og menntamál. Ég sé ekki alveg samhengið í því samkrulli og hefði talið að dómsmál ættu frekar heima í einhverri annarri af þeim nefndum sem gerð er tillaga um, t.d. þá stjórnlaganefndina. Mér finnst það vera skyldara og ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta séu mjög samrýmanleg málefni sem hér eru lögð til. Það má kannski segja um kirkjumál og menntamál en dómsmál finnst mér ekki eiga þarna heima.

Þá vil ég nefna að verið er að steypa saman umhverfismálum og samgöngumálum og það hlýtur að vekja nokkrar spurningar. A.m.k. er reynsla mín af starfi í umhvn. sú að hún sé mjög önnum kafin og hefur verið það þau ár sem ég hef fylgst með starfi hennar. Maður spyr sig hvort þetta geti allt saman farið saman. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að vinnutilhögun muni breytast nokkuð og verða rýmri tími fyrir hverja nefnd fyrir sig en þetta þarf ítarlegrar umfjöllunar við.

[14:00]

Þá vil ég sérstaklega nefna d-liðinn, fjármálanefnd, sem fjallar um mál er varða tekjur og gjöld ríkissjóðs, svo sem fjárlög, fjáraukalög og skattamál, efnahagsmál almennt, lífeyrismál og hagskýrslugerð. Og er nú ekki neitt lítið undir og satt að segja furðu lítið fjallað um þessa tilhögun í grg. með frv. Hér eru engin smáverkefni sem einni nefnd eru ætluð. Ég hef reyndar sagt það á fundi um frv. að þetta gæti út af fyrir sig gengið ef hægt væri að skylda hæstv. ráðherra og þingið til að fjalla um, við skulum segja fjáröflunarhluta þessa dæmis á vorþingi, en útgjöldin á haustþingi, þ.e. að til algerra undantekninga heyrði beinlínis ef skattafrv. væru til umfjöllunar á haustþingi. Þetta væri vissulega ágætisvinnufyrirkomulag ef hægt væri að koma því svona fyrir. Það væri þá ljóst fyrir haustþingið áður en farið er að fjalla um fjárveitingar hvaða tekjur eru líklegar í samræmi við þau skattafrv. sem þegar hefðu verið gerð að lögum.

Ég vildi í öðru lagi víkja að 48. gr. þar sem reiknað er með því að til að eiga aðild að þingflokki þyrfti til þess a.m.k. þrjá þingmenn. Um þetta er fjallað í alllöngu máli á bls. 46 og ég get sagt það sem skoðun mína að mér finnst það út af fyrir sig ekki óeðlilegt að það sé skilyrði að þingmenn séu þrír til að mynda þingflokk og raunar má búast við að það verði ekki færri en þrír frá hverjum stjórnmálasamtökum í samræmi við reynslu í kosningum liðinna ára, þ.e. í upphafi kjörtímabils. En eins og við vitum getur ýmislegt gerst á langri leið og einn og einn þingmaður tínst úr þingflokki og gengið í annan o.s.frv. Mér finnst ósanngjarnt að tapist einn maður fyrir borð í þriggja manna þingflokki sé hann þar með leystur upp. Ég geri því athugasemd við þetta atriði og finnst að þar sem svo háttar til að þingmaður yfirgefi þingflokk verði hann ekki sjálfkrafa lagður niður. Ég get ekki skilið annað samkvæmt grg. eða athugasemdum um einstakar greinar en að svo kynni að fara, enda stendur það hérna: Sama væri ef þingflokkur klofnaði og eftir sætu aðeins tveir þingmenn.

Ég vil mótmæla þessu. Ég tel að öðru máli gegni ef menn ætla að stofna nýjan þingflokk. Mér finnst ekki að hegna eigi þeim sem eftir sitja með því að þeirra þingflokkur sé leystur upp.

Í þriðja lagi er það ræðutíminn sem ég held að talsvert skiptar skoðanir séu um. Ég skil ákaflega vel tilhneigingu til að taka á því máli. Ég minnist þess þegar ég kom hingað inn sem nýr þingmaður fyrir margt löngu, þá eftir fyrsta veturinn hér á þingi var ég uppfull af gerræðislegum hugmyndum um hvernig ætti að hemja hv. þingmenn en smám saman lærist manni að lýðræðið leiðir ekki alltaf til ástands sem allir eru jafnsáttir við eða hentar hverjum og einum. Mér finnst mjög mikilvægt að tryggja rétt manna til málfrelsis svo sem frekast er unnt og ég tel að hér sé um of mikla þrengingu að ræða. Ég held að skoðanir á þessu máli skiptist nokkuð eftir stjórn og stjórnarandstöðu og það er að mörgu leyti skiljanlegt. Ég varð vör við það í þeim hópi sem fjallaði um þessar tillögur. Þá voru allir þingmenn stjórnarflokkanna eindregið þeirrar skoðunar að takmarka ætti ræðutímann en fulltrúar stjórnarandstöðunnar ekki og vildu halda þeirri stöðu sinni að geta haft áhrif á umfjöllun mála, hversu lengi þau stæðu.

Hv. síðasti ræðumaður fjallaði nokkuð um hlutverk stjórnarandstöðu og misjöfn hlutverk stjórnarandstöðu og stjórnarliða. Ég deili þeirri skoðun með honum að hlutverk stjórnarandstöðu sé afskaplega mikilvægt. Það er ekki síður mikilvægt lýðræðinu en hlutverk stjórnarflokka og jafnvel mikilvægara að mínu mati en skiptar skoðanir geta verið um það. Það er röng niðurstaða sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns að stjórnarandstaðan sé alltaf á móti því sem stjórnarliðar leggja til. Ég hugsa að ef farið væri yfir úrslit þingmála og niðurstöður þingmála á Alþingi kæmust menn að raun um að það er oftar en ekki sem mál eru afgreidd í samkomulagi. Fjölmörg frv. verða að lögum á hverju einasta þingi þar sem allir standa saman að afgreiðslunni en að sjálfsögðu leiðir það af skiptum skoðunum sem skipta mönnum í flokka að deildar meiningar verða við afgreiðslu stórra og mikilvægra mála. Skárra væri það nú. En það er kannski ekki síður umhugsunarvert hvernig hv. stjórnarliðar taka oft afstöðu í mikilvægum málum og án þess ég ætli að fara að halda því fram að þeir greiði atkvæði gegn samvisku sinni þá getur það alveg verið jafnumhugsunarvert að þeir skuli standa saman að öllum málum. Það ekki síður umhugsunarvert en að stjórnarandstaðan hafi þá svipaða afstöðu gegn slíkum málum.

Varðandi ræðutímann og reglur um ræðutíma sem hér eru settar upp hljótum við að þurfa að fara mjög vel yfir það og ná einhverri niðurstöðu um hvað væri eðlilegt í því dæmi. Ég held t.d. að þessi ást á fimm mínútum sé ekki af hinu góða. Það gæti verið til bóta t.d. að fjölga þeim upp í sjö í einhverjum tilvikum o.s.frv. Ég er a.m.k. með miklar efasemdir um að þetta fyrirkomulag geti eitthvað bætt úr varðandi miklar umræður og tek í einu og öllu undir það sem kom fram hjá hv. 17. þm. Reykv. þegar hann fór yfir þetta mál áðan.

Að lokum vil ég aðeins segja að ég er sammála því að gera þarf breytingar á þingsköpum og slíkar breytingar þurfa að verða í sátt. Útgangspunkturinn við samningu þessa frv. virðist hafa verið að styrkja stöðu Alþingis og Alþingi samanstendur að sjálfsögðu bæði af stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum. Mér finnst mikilvægt að útkoman verði ekki sú að staða stjórnarandstöðunnar veikist og því miður virðist mér að hún muni e.t.v. veikjast. Ég hefði því talið að skoða þyrfti miklu betur ýmsar leiðir til að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar og legg enn og aftur áherslu á að hlutverk stjórnarandstöðunnar er afar mikilvægt og mikilvægt lýðræðinu, bæði á hv. Alþingi sem og annars staðar. Þess vegna tel ég að ástæða hefði verið til að skoða fleiri leiðir til að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar, t.d. við stjórnun þingsins. Hv. síðasti ræðumaður minntist á það hvort ástæða væri til að setja reglur um t.d. formennsku í nefndum og ég tel stöðu stjórnarandstöðunnar við stjórnun þingsins almennt allt of veika þar sem einstakir þingflokkar eru útilokaðir frá forsn. og spurning hvort ekki væri t.d. hægt að setja reglur um það sem mér skilst að sé sums staðar á öðrum þjóðþingum, að forseti þingsins, aðalforseti þingsins komi frá stjórnarandstöðunni.