Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:32:08 (4144)

1999-02-26 14:32:08# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um frv. Þær hafa verið málefnalegar. Ýmsar athugasemdir hafa komið fram, en svo sem engar beinar spurningar. En nokkur atriði sem hafa komið fram í máli manna vil ég gera örlítið að umtalsefni og tek það svona nokkurn veginn eftir röð eftir því hvað hver og einn hv. þm. sem hér hefur talað nefndi í máli sínu.

Hv. þm. Jón Kristjánsson gerði nokkuð að umtalsefni tillögur um nefndaskipanina og taldi þar eitt og annað til bóta en hafði efasemdir um tillöguna um fjármálanefndina og fleiri hv. þm. sem hér hafa talað hafa einnig nefnt þá tillögu.

Hv. þm. Jóni Kristjánssyni þótti ekki miklu plássi varið til að fjalla um ríkisstjórnina og það má rétt vera. En einhvern veginn sé ég ekki að það sé staðurinn til að fjalla sérstaklega um hvernig ríkisstjórn á að haga sér í sambandi við fjármálanefndina. Auðvitað hefur þingið síðasta orðið þegar kemur að afgreiðslu fjárlaganna, það er alveg ljóst og ræðst kannski ekkert við það þótt ríkisstjórn komi á einhverjum tíma eins og hv. þm. Jón Kristjánsson orðaði það, með milljarða tillögur á síðustu metrunum. Slíkt getur auðvitað orðið en það er þingsins að taka afstöðu til þess.

Aðeins nokkur orð varðandi nefndina. Í máli manna hafa komið fram efasemdir um að rétt sé að slá saman ákveðnum viðfangsefnum efh.- og viðskn., þ.e. skattamálunum og málefnum fjárln. og fjármálanefndarinnar eins og hún yrði. Það er deginum ljósara eins og hefur líka komið fram í máli nokkurra þingmanna að laga verður starfshætti nefndarinnar ef hún á að taka þessi viðfangsefni að sér. Það verður að laga starfshætti nefndarinnar eftir því, þ.e. umfjöllun hennar um skattamál yrði að fara fram á fyrri hluta almanaksársins, síðari hluta þings og síðan kæmu hin eiginlegu útgjaldamál til umfjöllunar á haustþingi. Þetta nefndi reyndar hv. þm. Jón Kristjánsson.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi að það væri mjög miður hversu seint frv. væri fram komið og svo hafa fleiri gert. Ég skil vel þá gagnrýni og mér þykir satt að segja vont hversu seint við erum með málið á ferðinni. Við þingmenn höfum verið að gagnrýna ríkisstjórn á hverjum tíma fyrir að koma seint fram með frv. sín. En ég bendi á að mér þykir þetta ekki vera alveg sambærilegt. Frv. sem flutt er af forsn. Alþingis hefur verið í undirbúningi á þriðja ár, hefur verið rætt, ekki innan stjórnarflokkanna heldur milli flokkanna í þinginu, fyrst og fremst í forsn. og við þingflokksformenn en eins og ég sagði í framsöguræðu minni hefði mér þótt betra að geta haft meira samráð við einstaka þingmenn en tókst.

Ég harma líka hversu seint við erum á ferðinni og ég geri mér alveg grein fyrir að málinu er stefnt í nokkra hættu miðað við starfsáætlun þingsins. Það verður þá að ráðast af viðtökum í nefndinni sem kjörin verður til þess að fara yfir þetta hvort þingið getur tekið afstöðu til málsins á þeim stutta tíma sem eftir lifir.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi einnig ræðutíma sem mér skildist að hún væri út af fyrir sig sammála að þyrfti að takmarka en þótti fimm mínúturnar í síðari ræðu kannski of skammur tími. Það er að sjálfsögðu til athugunar í þingnefndinni hvort því eigi að breyta.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa allir mikinn fyrirvara á tillögunum um ræðutímann og út af fyrir sig skil ég það vel. Ég undirstrika aðeins að verið er að takmarka ræðulengdina sem er ekki takmörkuð í gildandi þingsköpum við 2. og 3. umr. eða síðari umr. um þingsályktanir en þar er hins vegar takmarkaður ræðufjöldinn, í þessu frv. ekki. Menn kunna að hafa mismunandi skoðanir á því hvort kunni að vera betra ef við erum á annað borð að breyta þessu. Út af fyrir sig get ég verið nokkuð sammála því sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að betra væri að geta samið um þetta og vera ekki með þvingunarákvæði í þingskapalögum. Ég get alveg tekið undir að mér þætti það betra. Okkur hefur tekist þetta í einstaka tilvikum á fundum forseta og þingflokksformanna að semja um ræðutíma og það er nokkuð nýtt á síðari árum að það hafi tekist. Okkur hefur hins vegar ekki tekist að semja einhverjar heildarreglur eins og þekkist að ég hygg í sumum öðrum þingum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi finnska þingið og það er rétt. Þar hafa menn komist að samkomulagi sem er mjög sjaldan rofið. Ef ég veit rétt var síðast það sem þeir kölluðu málþóf þegar finnska þingið var að ræða aðildina að ESB. Þá tók sú umræða einhverja daga, ég man ekki hve marga, hvort það voru tveir, þrír eða fjórir. Það var samt ekki meira. (SJS: Samkomulag um málþóf.) Já, það var samkomulag um að fara í málþóf, það má kannski orða það þannig. Okkur hefur ekki lánast þetta. Við höfum þurft að lengja þinghald frá því sem ætlað var allt upp í þrjár, fjórar vikur vegna þess að menn hafa haft svo mikið um að tala.

En þetta er eitt af því sem ég geri mér alveg grein fyrir að er viðkvæmasti hlutinn í þessu og verður að taka mjög til umfjöllunar í þingnefndinni.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi ýmis mál sem hefðu verið mikil deilumál í þinginu og tekið langan tíma. Þetta munum við öll. En öll þessi mál eiga það þó sameiginlegt að þau voru samþykkt í þinginu af meiri hluta þingmanna en þau tóku miklu lengri tíma en menn kannski höfðu ætlað. (Gripið fram í.) Það ættu þingmenn líka að athuga að þingmál sem flutt hafa verið af einstökum ráðherrum eða ríkisstjórn hafa oft og tíðum tekið grundvallarbreytingum í meðförum þingsins án þess að það hafi þurft langar ræður til. Það þekkja þingmenn mætavel. En ég legg aðeins áherslu á að mér þykir ekki eðlilegt að minni hluti þings geti beinlínis stöðvað mál vegna þess að hann sé óánægður með það og leiðin sem kann að vera til þess sé að halda ræður svo að dögum skiptir. Það þykir mér ákveðin ranghverfa á lýðræðinu. En nóg um ræðutímann. Mér er alveg ljóst að um þetta eru skiptar skoðanir og ég ítreka og legg áherslu á að nefndin reyni að finna þarna einhvern flöt sem gæti orðið meira samkomulag um en er einmitt um þá tillögu sem við setjum fram í frv. Fimm mínútur er ekki heilög tala í mínum huga, alls ekki. En að einhverri niðurstöðu þurfum við að komast.

Hv. þm. Hjálmar Árnason kom inn á ýmsa athyglisverða þætti í málflutningi sínum. Ýmislegt af því á svo sem ekki beint heima í þingskapalögum. Hann ræddi töluvert um starfskjör og launakjör þingmanna sem á heima annars staðar en eru allt gagnlegar ábendingar. Vel má athuga þá hugmynd sem kom fram í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar að þingmál verði afgreidd innan einhvers tiltekins tíma. Þetta eru hugmyndir sem hafa áður komið upp og er sjálfsagt að athuga þær frekar.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir kom töluvert inn á nefndatillögurnar. Ég ætla aðeins að minnast á það mál sem hv. þm. flutti, 66. mál þingsins. Það er rétt sem hv. þm. sagði að við höfðum rætt um að bíða með umræðuna þar til þessi umræða færi fram og mér þykir leitt að málið skyldi ekki hafa verið tekið á dagskrá. Það eru mistök sem ég get tekið á mig.

Almennt um nefndirnar. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni stend ég eða við flutningsmennirnir ekki fast á þessari skipan mála sem við setjum fram í frv. Vel má hugsa sér aðrar leiðir. Hér hafa menn nefnt t.d. að dóms- og menntamál eigi illa saman í einni og sömu nefndinni. Ég veit ekki hvort það á svo illa saman. Án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega hef ég grun um að kannski séu einhverjir þingmenn sem eiga sæti í báðum þessum nefndum og út af fyrir sig er það ekki til þess að valda neinum sérstökum erfiðleikum og ég held að það eigi ekki að verða það þótt málaflokkunum verði skipað í eina og sömu nefndina. Hins vegar get ég vel viðurkennt að önnur skipan kann að vera heppilegri og hér hefur verið nefnt t.d., ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi nefnt að dómsmálin ættu betur heima með stjórnlaganefndinni og ég get tekið undir það. Ég held að það sé eðlilegra. Kannski ættu umhverfismál eins vel heima með menntamálum eins og með samgöngumálum. Allt þetta sýnist mér alveg sjálfsagt að athuga í nefndinnin. Einnig það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi að við erum ekki endilega að halda okkur við það að nefndum verði fækkað í sjö. Það sem ég legg þó mesta áherslu á er að ef við næðum því marki sitja flestir þingmenn aðeins í einni nefnd og það held ég að sé grundvallaratriði og mesta keppikeflið.

Við höfum reynt að gera þetta þannig að störfum sé jafnað sem mest á milli nefnda en ég ætla ekki að halda því fram að við höfum hitt þar á bestu leiðina. Við þekkjum það af því að hér hefur sérstaklega verið talað um atvinnumálanefndina að það er mjög breytilegt frá einu þingi til annars hversu einstakar nefndir hafa haft mikið að gera. Stundum hefur lítið sem ekkert verið að gera í landbn., stundum lítið sem ekkert í iðnn. Önnur þing hafa þessar nefndir haft mjög veruleg viðfangsefni. Ég held að það mundi jafna álagið að slá þessum nefndum saman.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti sig mjög ósáttan með skipan forsætisnefndarinnar. Hann nefndi að fjórir stærstu flokkarnir ættu að eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Þetta er alveg sjónarmið út af fyrir sig. Annaðhvort komum við okkur saman um þann fjölda sem eigi að vera í þingnefndum og þá ræðst það af niðurstöðum hinna almennu kosninga hversu margir fulltrúar koma fyrir hvert framboð eða hvern flokk á Alþingi. Við getum ekki búið til einhverja nýja reglu sem er í ósamræmi við niðurstöðu kosninganna. En þetta er önnur leið sem hv. þm. nefndi að fjórir stærstu flokkarnir ættu aðild að forsætisnefndinni. Ef ég veit rétt mun það þekkjast einhvers staðar. Ég hef samt ekki dæmið á takteinum.

Ég held að ég hafi komið við helstu þætti í þessu enda er tími minn svo sem búinn. Ég er hins vegar ekki alveg sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Mér fannst hann ekki leggja réttan skilning í málið og mér fannst hann segja að verið væri að veikja stjórnarandstöðuna. Það er ekki tilgangurinn. Ég bið hv. þm., af því að ég hef ekki tíma til að telja það upp, að líta á greinargerðina með frv. á bls. 16 og 17 þar sem ýmislegt er dregið fram sem er til þess að styrkja stöðu þingsins og þar með stjórnarandstöðunnar.

Ég ítreka svo þakkir mínar fyrir málefnalega og ágæta umræðu um frv.