Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:51:09 (4147)

1999-02-26 14:51:09# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta fer að verða heimilislegt spjall eða orðaskipti á milli hæstv. forseta og þingflokks óháðra og kann ég ekki skýringar á hvers vegna mál hafa skipast þannig.

Ég fjallaði nokkuð í máli mínu um stöðu fjármálanefndar sem hér er lögð til í 11. gr. og sagði það sem skoðun mína að öll þau verkefni gætu því aðeins verið á forræði þeirrar nefndar að því væri þannig fyrir komið að nefndin fengi skattamál og efnahagsmál almennt fyrri hluta ársins, þ.e. síðari hluta hvers þings en fjallaði síðan um fjárlög á haustþingi.

Mér skilst að hið sama hafi komið fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni, sem er formaður fjárln., og hæstv. forseti, hv. 1. flm. þessa máls mun hafa tekið undir það í sínu máli en þá spyr ég líka: Hvernig í ósköpunum á að tryggja það að umfjöllun um skattamál verði á fyrri hluta árs? Hvernig á að hafa hemil á hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn að þeir komi ekki með skattamál á haustþingi á síðustu dögum fyrir jól eins og iðulega hefur gerst?

Vegna þess að hv. þm. Ólafur G. Einarsson nefndi það í máli sínu að hann héldi að einhverjir þingmenn hefðu meira að segja setið í báðum þessum nefndum og það getað gengið, þá veit ég ekki til þess að svo hafi verið. Það vill hins vegar svo til að sú sem hér stendur hefur haft stöðu áheyrnarfulltrúa í efh.- og viðskn. og ég get upplýst að það var nánast ekki gerlegt að sinna því starfi á fyrri hluta þessa þings.