Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:53:29 (4148)

1999-02-26 14:53:29# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., Flm. ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Flm. (Ólafur G. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum, held ég, sammála um það ef þessi skipan verður á fjármálanefndinni að skipta verði þessum meginstörfum á fyrri hluta árs og síðari hluta árs. En hv. þm. spyr hvernig megi tryggja þetta.

Ég held að þar komi fyrst og fremst til kasta nefndarinnar sjálfrar hvernig hún ákveður að skipa sínum málum. Ég bendi á að sem fylgiskjal með frv. fylgja drög að starfsreglum fyrir fastanefndir, starfsreglum sem forsn. mundi á sínum tíma setja. Hér er aðeins lögð fram tillaga og þar má auðvitað koma fyrir ákvæðum sem ættu að tryggja að nefndir gætu sinnt starfi sínu eins og best mundi þá tryggja framgöngu mála, þar á meðal á hvaða tíma, í þessu tilviki fjármálanefndin, mundi sinna þessu tvíþætta hlutverki sínu. Ég sé ekki aðra leið en gera það í starfsreglum og með samþykkt nefndarinnar sjálfrar.