Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:55:02 (4149)

1999-02-26 14:55:02# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um stöðu minni hlutans og rétt hans eða réttindi. Auðvitað erum við sammála um það, ég og hæstv. forseti, að það gengur ekki að minni hluti komi að lokum í veg fyrir að meiri hlutinn fái pólitískan vilja sinn staðfestan eða lögfestan hér. En samt er það þannig og fram hjá því komumst við ekki að rétt eins hér inni og mjög víða annars staðar snýst þetta samt um að tryggja minni hlutanum tiltekna stöðu. Í því er lýðræðið eða málfrelsið í raun fólgið, eða hvað það er sem við erum að tala um, á sinn hátt vegna þess að meiri hlutinn hefur sitt fram og hann hefur sitt vald. Það liggur þannig.

Alveg eins er þetta hér í þinginu og kannski óvenjulega mikilvægt að menn komi sér niður á sanngjarnar leikreglur og að þarna finnist hæfilegt jafnvægi milli þess réttar og þeirrar stöðu sem minni hluta eða stjórnarandstöðu er tryggt annars vegar og svo hins að menn gangi ekki gegn hinum lýðræðislega vilja sem birtist í alþingiskosningum og tilteknum valdahlutföllum í landinu, meiri hluta og minni hluta. Að sjálfsögðu ekki.

Í öðru lagi um forsn. Ég nefndi sem eina hugmynd af nokkrum sem ég tel koma til greina til að tryggja þar einnig farsælt samstarf og jafnvægi, að t.d. fjórir stærstu þingflokkar ættu alltaf tryggan rétt á fulltrúum í forsn. og svo gætu menn eftir atvikum samið um afganginn eða haft einhverja skipan mála varðandi afganginn ef þingflokkarnir væru fleiri, þeir gætu t.d. skipst á um að eiga þarna áheyrnaraðild eða eitthvað því líkt. Alla vega er ljóst að það er ekki gott fyrirkomulag að hafa þetta í ósamkomulagi. Það sýnir reynslan. Ég minni hæstv. forseta á veturinn 1991--1992 eða 1992--1993 þegar stjórnarandstaðan tók ekki þátt í störfum forsn. og það var hörmuleg reynsla af því.

Í þriðja lagi veit ég, herra forseti, að það er ekki tilgangurinn með þessu frv. að veikja stjórnarandstöðuna, það er mér ljóst, en ekki verður fram hjá því horft að þessar breytingar ganga í þá átt að takmarka verulega helsta tæki hennar, sem er málfrelsið, án þess að annað nægjanlega gilt komi í staðinn að mínu mati til að hægt sé að segja að sú tillögugerð sé í jafnvægi.