Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:02:29 (4152)

1999-02-26 15:02:29# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., Flm. ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Flm. (Ólafur G. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get lýst þeirri skoðun minni að mér þykir eðlilegra að forsn. sé kosin hlutfallskosningu í þinginu. Ég bendi bara á í sambandi við þetta frv. að við erum að ganga lengra en áður í áhrifum þingflokka. Það er gert ráð fyrir meira samráði við þingflokka þar sem þeir koma að málum burt séð frá stærð þeirra. Það er eitt sem er áhersluatriði í frv. og þingflokkar yfirleitt frá aukið hlutverk. Það held ég að sé af hinu góða og við erum áreiðanlega sammála um það.

Það hafa orðið breytingar á undangengnum árum í þessum efnum. Ég er það gamall að ég man þá tíð að stjórnarandstæðingar áttu alls enga aðild að forsn. þingsins sem hét að vísu ekki forsætisnefnd meðan þingið var deildaskipt. Þá voru aðalforsetar og tveir varaforsetar í hvorri deildinni fyrir sig og í sameinuðu þingi og þeir komu allir og ævinlega frá stjórnarmeirihlutanum hverju sinni. Það var ekki fyrr en 1971 sem það breyttist og þá bauð þáv. ríkisstjórn af rausn sinni þáv. stjórnarandstöðu að þiggja allra náðarsamlegast fyrri varaforsetana í deildum og sameinuðu þingi. (SJS: Vinstri stjórn?) Jú, það var vinstri stjórn. Það er alveg rétt. Það var stjórn Ólafs Jóhannessonar sem bauð þetta og það boð var þegið. Síðan hefur það verið í gildi, en tók svo aftur breytingum við breytinguna 1991. En það er rétt hjá hv. þm. að þáv. stjórnarandstaða, 1991, þáði ekki að eiga aðild að forsn. þingsins. Og það var ekki gott. Við erum áreiðanlega sammála um það. En ég held að þingforseti verði að vera kjörinn í atkvæðagreiðslu. Það gæti vel svo farið eins og hefur gerst í öðrum þingum að hann komi þá frá stjórnarandstöðu. Ég minni þar á breska þingið og danska þingið núna.