Lífeyrissjóður bænda

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:12:07 (4155)

1999-02-26 15:12:07# 123. lþ. 73.4 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég stend að þeir breytingum sem hv. efh.- og viðskn. gerir á frv. en er með fyrirvara að því leyti að ég hyggst og hugðist flytja brtt. við frv. Því miður náðist það ekki fram fyrir þessa umræðu en ég hyggst flytja hana við 3. umr. Hún snýr að tveimur atriðum aðallega.

Það varðar í fyrsta lagi eign sjóðsins. Ég vil kveða skýrt á um að sjóðurinn sé eign sjóðfélaga, þ.e. bænda. Ég get ekki séð hver aðili annar eigi þennan sjóð, sérstaklega þegar haft er í huga að bændur greiða bæði iðgjald launagreiðenda og atvinnurekenda í sjóðinn. Þá felst í þessu að senda bændum yfirlit yfir eign sína einu sinni á ári.

Þá finnst mér líka skorta á að lýðræði sé í sjóðnum. Stjórn sjóðsins er skipuð fólki sem er í ósköp litlum tengslum við samtök bænda og í enn minni tengslum við bændur sjálfa. Ég treysti einstaklingum það vel til að fara með sín fjármál að ég vil að sjóðfélagar almennt kjósi stjórn sinna lífeyrissjóða.

Herra forseti. Aðalvandi lífeyriskerfisins sem ég verð að geta um í þessu sambandi er að það veitir ekki réttindi háð aldri og kyni. Þar af leiðandi eru sjóðir þar sem er gamalt fólk mjög illa settir eingöngu þess vegna, burt séð frá ávöxtun sjóðsins og kostnaði við rekstur hans. Þetta er vandi sem menn hafa ekki leyst en leiðir til þess að fólk sem er skyldað með lögum til að greiða í sjóði þar sem er mikið af ungu fólki fær í framtíðinni betri rétt en hinir sem skyldaðir eru til að borga í lífeyrissjóði þar sem eingöngu er eldra fólk. Þetta er ákaflega óréttlátt og gengur hreinlega ekki upp. Þennan vanda hafa menn ekki leyst enn þá. Það hefur ekki verið tekið á honum. Sumir sjóðirnir eru farnir að bæta réttindi sín á meðan aðrir munu þurfa að skerða þau. Þetta eru hlutir sem menn þurfa að hugleiða.

Annar vandi sem steðjar að lífeyriskerfinu er að markaðsvextir fara nú lækkandi. Þeir eru núna að nálgast þau 3,5% sem lífeyrissjóðirnir byggja á og menn þurfa virkilega að huga að því þegar þeir vextir fara niður fyrir 3,5% því að þá steðjar mikill vandi að lífeyrissjóðakerfinu.