Búnaðarfræðsla

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 16:15:27 (4162)

1999-02-26 16:15:27# 123. lþ. 73.9 fundur 546. mál: #A búnaðarfræðsla# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um búnaðarfræðslu. Þessi lagabálkur tekur á búnaðarfræðslunni í landinu og er saminn í nánu samráði við forsvarsmenn bændaskólanna og Garðyrkjuskólans.

Til greina kom að færa búnaðarfræðsluna undir menntmrn. en ekki varð það að ráði og ræður þar mestu að viðfangsefni menntastofnana landbúnaðarins er mun víðtækara en skólastofnana almennt og með því að halda áfram tengslum við landbrn. er tekið tillit til þeirrar sérstöðu. Þá var og talið auðveldara að skipuleggja námsframboð skólanna, bæði búnaðarnám og búvísindanám í samræmi við annað nám á sömu skólastigum, en að laga aðra starfsemi stofnananna að hinu almenna skólaumhverfi. Þá má einnig benda á að með núverandi skipulagi skapast náin samstaða milli skóla og atvinnuvegar og bein þátttaka atvinnuvegarins er á allan hátt auðveldari og sjálfsagðari.

Jafnframt er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra beri ábyrgð á því að gæði menntunar þeirrar sem skólarnir veita sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru um það efni til annarra sambærilegra skóla samkvæmt lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla.

Á síðustu árum hafa einnig komið fram ýmsar hugmyndir um að sameina búnaðarskólana í eina stofnun. Í frumvarpi þessu er hins vegar farin sú leið að starfrækja skólana áfram sem þrjár sjálfstæðar stofnanir undir samheitinu menntastofnanir landbúnaðarins. Um þá ákvörðun réðu mestu tengsl þessara stofnana, Bændaskólanna á Hólum og Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum, við þau byggðarlög sem þær starfa í og einnig tengsl þeirra við hinar dreifðu byggðir landsins. Skólarnir eru hver um sig stærstu vinnuveitendur í dreifbýli hver í sínu byggðarlagi og við þá starfar mikill fjöldi háskólamenntaðs fólks sem hefur kosið að starfa og búa í dreifbýli. Við alla skólana fer fram öflug starfsemi á sviði fræðslu, rannsókna og þjónustu en starfsemi þeirra skarast að öðru leyti ekki mikið þar sem þeir starfa ekki að sömu verkefnum nema að litlu leyti.

Til þess að tryggja samræmingu í skipulagningu náms og námsframboði, svo og annarri starfsemi þessara stofnana er hins vegar farin sú leið að stofna og starfrækja sérstakt búfræðsluráð, skipað fulltrúum stofnananna, menntamálaráðherra, landbúnaðarráðherra, búnaðarþings og búfræðikennara. Búfræðsluráðið hefur það meginhlutverk að marka heildarstefnu í búfræðslumálum og vera samræmingaraðili fyrir menntastofnanir landbúnaðarins í heild um ýmis atriði er varða búfræðslunámið. Jafnframt er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að við allar menntastofnanir landbúnaðarins verði stundaðar rannsóknir sem verði skipulagðar með öðrum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnýtingar í landinu.

Í frumvarpinu er einungis kveðið á um grundvallaratriði í stjórnskipulagi menntastofnana landbúnaðarins en gert er ráð fyrir að yfirstjórn hvers skóla taki nánari ákvarðanir um starfsemi stofnananna að öðru leyti, eftir atvikum með samþykki búfræðsluráðs og/eða landbúnaðarráðherra.

Ljóst þykir að núgildandi löggjöf um búnaðarfræðslu fellur heldur ekki lengur að nýrri og breyttri löggjöf um framhaldsskóla og háskóla en miklar breytingar hafa orðið á þeirri löggjöf síðan búnaðarfræðslulögin voru sett. Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og lögum nr. 136/1997, um háskóla. Hefur verið leitast við að aðlaga ákvæði frumvarpsins framangreindum lögum eins og frekast er unnt, þó með þeim áherslum sem leiðir af sérstöðu þeirra.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

1. Lagt er til að ákvæði laga um búnaðarnám og garðyrkjunám verði samræmd í einni löggjöf um búnaðarfræðslu er taki til menntastofnana landbúnaðarins.

2. Heildarstefna í búnaðarfræðslu verði mótuð af búfræðsluráði sem í eiga sæti fulltrúar menntastofnananna, landbúnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, búnaðarþings og búnaðarskólakennara.

3. Aukið er svigrúm skólanna til að bjóða upp á fjölbreyttara nám, námstíma o.fl.

4. Formlega verði stofnaður landbúnaðarháskóli með aðsetur á Hvanneyri og öllu stjórnskipulagi skólans breytt í samræmi við það.

5. Heimilt verði að stofna til kennslu eða náms á háskólastigi við Hólaskóla og Garðyrkjuskólann að Reykjum með samþykki landbúnaðarráðherra, liggi fyrir viðurkenning búfræðsluráðs um að starfsemin standist gæðakröfur sem gerðar eru í sambærilegu námi.

6. Landbúnaðarráðherra geti heimilað menntastofnunum landbúnaðarins að koma á fót og eiga aðild að sjálfstæðum rekstrareiningum til styrktar og eflingar meginviðfangsefnum þeirra.

7. Menntastofnanir landbúnaðarins skulu leggja áherslu á samstarf við aðra skóla og vísindastofnanir hér á landi og erlendis um menntun og rannsóknir og er heimilt að gera um það sérstaka samninga.

8. Við menntastofnanir landbúnaðarins verði stundaðar rannsóknir er skulu skipulagðar með öðrum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnýtingar í landinu.

9. Jarðirnar Hólar, Hvanneyri og Reykir eru með gögnum og gæðum lagðar undir tilheyrandi menntastofnanir til að þjóna þeim heildarmarkmiðum sem sett eru fyrir hverja stofnun fyrir sig.

Hér er um stofnanir að ræða sem eru dreifbýlinu mjög mikilvægar og þetta frv. er byggðavænt, herra forseti.

Ég geri það að tillögu minni að að lokinni umræðunni verði málið sent hv. landbn. til athugunar.