Nefnd um kynhlutlaust starfsmat

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:15:17 (4174)

1999-03-01 15:15:17# 123. lþ. 74.1 fundur 303#B nefnd um kynhlutlaust starfsmat# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum segir í lið 3.4 frá tilraunaverkefni um kynhlutlægt starfsmat. Sagt er frá starfshópi sem vinnur í samráði við félmrn. að tilraunaverkefni um starfsmat. Niðurstöðu úr því verkefni sé að vænta vorið 1998 og félmrn. muni standa að kynningu á niðurstöðu verkefnisins og kynna sérstaklega þá starfsmatsaðferð sem þar hafi verið þróuð, m.a. með útgáfu kynningarbæklings.

Nú hafa þau tíðindi orðið að sá hópur sem átti að ljúka störfum fyrir ári hefur verið leystur frá störfum með bréfi ráðherra frá 11. febrúar án þess að ljúka skýrslu um starf sitt. Þetta eru alvarleg tíðindi í ljósi þess að almennt er viðurkennt að launamunur kynjanna sé alvarlegasta jafnréttisvandamál þjóðfélagsins og margir hafa bundið vonir við að starf ofannefnds starfshóps skilaði okkur fram á við í baráttunni gegn launamun kynjanna. Þrátt fyrir fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að draga úr kynbundnun launamun á kjörtímabilinu bendir því miður ekkert til að það muni takast, þvert á móti.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. félmrh.:

Hvaða rök lágu að baki því að leysa upp starfshópinn um kynhlutlaust starfsmat áður en hann lauk störfum?

Jafnréttisráð lagði til starfsmann starfshópsins og því vil ég spyrja: Hver er afstaða ráðsins til þess að hópurinn hefur verið leystur frá störfum og starfsmanni falið að ljúka skýrslu án aðkomu fulltrúa fjmrn., ASÍ og BSRB?

Fulltrúar ASÍ og BSRB hafa lýst því yfir að lokaskýrslan geti ekki verið á ábyrgð þeirra. Þess vegna vil ég spyrja: Hvernig hyggst ráðherra ljúka málinu? Má búast við því að skýrsla hæstv. ráðherra um starfsmatsverkefnið verði kynnt á Alþingi eða starfsmatsaðferðin verði kynnt á almennum vinnumarkaði?