Aflaheimildir dagróðrabáta

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:40:53 (4191)

1999-03-01 15:40:53# 123. lþ. 74.1 fundur 306#B aflaheimildir dagróðrabáta# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. minnti á, voru gerðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í byrjun þessa árs eftir rækilega og ítarlega umfjöllun á hinu háa Alþingi. Þar var málum þeirra báta sem hann spurðist fyrir um skipað á sérstakan hátt. Niðurstaðan í því máli var málamiðlun eins og menn rekur eflaust minni til. Ég geri ráð fyrir því að ýmsir hv. þm. hefðu getað hugsað sér að sjá þá niðurstöðu aðra. Sjálfur er ég í þeim hópi. En hér var um að ræða málamiðlun og niðurstöðu í því máli. Vegna fyrirspurnar hv. þm. get ég svarað því að innan ríkisstjórnarinnar hefur ekki farið fram umræða um að taka það mál upp.