Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:03:29 (4198)

1999-03-01 16:03:29# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að rifja upp söguna. Þegar ég kom í landbrn. fyrir nær fjórum árum var Áburðarverksmiðjan rekin með miklum halla. Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður töldu að hlutverki hennar sem áburðarverksmiðju væri lokið. Þeir höfðu lagt mikla vinnu í að leita að nýjum verkefnum fyrir verksmiðjuna þegar þeir gengu á minn fund til að tilkynna mér þau viðhorf sín. Í framhaldi af því var ákveðið að kanna hvort verksmiðjan væri markaðshæf til áframhaldandi áburðarframleiðslu eða hvort hætta ætti rekstri hennar. Það var það sem við stóðum frammi fyrir þá. Það var ekki spurning um að halda áfram rekstrinum, þeim hallarekstri sem þá hafði verið nokkur ár. Á seinni hluta árs 1996 og í ársbyrjum 1997 var ákveðið að undirbúa sölu og kanna möguleikana á hvort aðrir aðilar treystu sér til að reka verksmiðjuna. Þá komu í hana tvö tilboð eins og hv. þingmenn muna kannski. Annað upp 617 millj. kr. og hitt upp á 725 millj. Mat eigandans var hins vegar það að upplausnarverð verksmiðjunnar væri um 1 milljarður eða sama og hlutafé verksmiðjunnar, þannig að ákveðið var að hafna báðum þessum tilboðum sem of lágum. Það var ekki talið eðlilegt að selja verksmiðjuna undir upplausnarverðinu og óvissa um hvort þeir aðilar sem buðu ekki hærra verð en þetta hugsuðu sér að reka verksmiðjuna áfram.

Þá var spurningin sú hvort loka ætti verksmiðjunni eða reyna að bæta reksturinn og sjá hvort hægt væri að gera hana að seljanlegri verksmiðju en hún sannarlega var á þeim tíma. Má segja að sú tilraun sem ákveðið var að gera, þ.e. að reka hana áfram og kanna hvort hún gæti síðar orðið betri söluvara, eða hvort mögulegt yrði að reka hana áfram yfir höfuð hafi leitt í ljós að væntingar og möguleikar eru til þess ef við þurfum ekki að takast á við innflutning áburðar og þar með samkeppni sem yrði verksmiðjunni mjög erfið. Innflutningur áburðar er frjáls og gæti hann hafist hvenær sem er og óvissa því jafnmikil um framtíð verksmiðjunnar, þrátt fyrir að hún hafi nú verið rekin með hagnaði eða betri afkomu en var um tíma.

Í janúarmánuði sl. komu fram á sviðið aðilar sem lýstu áhuga sínum á að hefja viðræður við eigandann um kaup á Áburðarverksmiðjunni og reyndar er það svo að það voru þeir aðilar sameiginlega sem höfðu boðið í verksmiðjuna 1997. Ég taldi rétt og eðlilegt að skoða þetta mál til hlítar hvort hægt væri að ræða við þessa aðila en það var að sjálfsögðu ákvörðun bæði ríkisstjórnar og einkavæðingarnefndar að það yrði ekki gert öðruvísi en með nýju söluferli. Við yrðum að sjá hvort viðhorf og afstaða til verksmiðjunnar hefði breyst svo mikið að hún væri betri söluvara nú en áður. Atburðarásina þekkja menn síðan frá um miðjum janúar og fram í febrúarlok, að ný tilboð hafa komið í verksmiðjuna. Sjö aðilar sýndu áhuga á að skoða málið nánar, þrír aðilar ákváðu að reyna til þrautar og gera tilboð í verksmiðjuna og það hæsta er nú 1.257 millj. eins og þekkt er úr fréttum, eða 532 millj. kr. hærra en var fyrir einu og hálfu til tveimur árum síðan. Og þar að auki 257 millj. kr. hærra en lágmarksverðið sem sett var á verksmiðjuna, 1 milljarður kr. sem var það sama og matið var á henni í raun fyrir tveimur árum. Ég tel því að hér sé komið af stað ferli sem sé eðlilegt og verður ekki stöðvað. Einkavæðingarnefnd hefur lagt þá tillögu fyrir landbrh. að tilboðinu verði tekið og þá tillögu mun ég leggja fyrir ríkisstjórn á morgun áður en endanlega verður gengið frá málinu.

Varðandi óvissu um reksturinn þá heyrðist mér og fannst því miður á máli hv. málshefjanda að hann teldi að nú væri verið að taka ákvörðun um að hætta rekstri verksmiðjunnar. Það er auðvitað ekki. Það geta menn séð á yfirlýsingum þess sem hæst hefur boðið og líklegs nýs eiganda verksmiðjunnar. Hann hefur margsinnis lýst því yfir í fjölmiðlum, hann hefur lýst því yfir í einkasamtali við þann sem hér stendur að hann hafi hug á að kanna það til þrautar að Áburðarverksmiðjan verði áfram rekin sem slík, og hafi verið einhver óvissa í rekstrinum þá er hún ekki að gerast nú. Hún er búin að vera lengi uppi eins og ég hef rakið, því miður, og það var það sem ég stóð frammi fyrir.

Allra síðast, hæstv. forseti. Í kaupsamningnum sem væntanlegur kaupandi mun undirrita segir m.a.: ,,Kaupandi lýsir yfir þeirri stefnu og ætlun sinni að halda áfram framleiðslu, dreifingu og sölu áburðar.`` Hér er viljayfirlýsing hans því staðfest í kaupsamningi og auk þess er getið orkumálanna, vetnisframleiðslunnar og þessa samnings sem Áburðarverksmiðjan hefur gert í þessum kaupsamningi einnig, þannig að ekki er meiri óvissa um það nú en hefði verið hvort eð var.