Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:16:30 (4202)

1999-03-01 16:16:30# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ólafur Jóhannesson, fyrrv. forsrh., sagði einhvern tíma: ,,Það hefur enginn bannað mér að vera vitrari í dag en ég var í gær.`` Að taka afstöðu út frá nýjum forsendum er skylda stjórnmálamanna. Að reka fyrirtæki vel og einkavæða er gott en vandasamt verkefni.

Áburðarverksmiðjan er í dag frábærlega vel rekið fyrirtæki, framleiðir hreinan áburð, áburð án þungmálma. Fyrirtækið býr yfir góðu starfsfólki, þekkingu, búnaði og reynslu. Nú getum við náð forskoti á heimsmælikvarða, forskoti í rannsóknar- og þróunarstarfi, í vetnisframleiðslu og ekki síst framleiðslu vetnis sem brennsluefnis í skipum.

Vetnið er ljós í myrkrinu. Það er ný von sem við þurfum að huga verulega að. Þeir draumar eru sem betur fer að rætast. Bændur hafa staðið fast að þessari verksmiðju. Áburðarverksmiðjan var byggð fyrir Marshall-aðstoð. Reksturinn hefur fært ríkinu þetta fyrirtæki skuldlaust sem dýrmæta eign.

Ég óttast að sala nú kunni að minnka líkur á áframhaldandi rekstri í Gufunesi. Áburðurinn er vistvænn og góður, vetnið er nýtt tækifæri. Þriggja vikna samningur við stórfyrirtæki úti í heimi vitnar um það og segir: Staldrið við. Tryggið að ríkisvaldið eigi í þessu fyrirtæki til að nýta þau tæki og þá þekkingu sem þar eru. Við sölu verður að tryggja að við missum ekki tækifæri úr hendi okkar. Enginn bannar hæstv. ríkisstjórn að staldra við og grandskoða söluáformin miðað við þann ótta að áburðarframleiðslu sé hætt og vetnið sé út af borðinu. Þess vegna skora ég á hæstv. ríkisstjórn að fara yfir málið út frá þeim nýju forsendum. Ég dreg ekki í efa góðan vilja athafnamannsins en það verður að tryggja að ríkisvaldið eigi þarna aðild svo vetnisdraumurinn verði ekki draumur þess liðna. Það borgar sig í þessu máli, herra forseti, að fara um stund á hraða snigilsins.