Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:19:08 (4203)

1999-03-01 16:19:08# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:19]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það eru engin ný tíðindi að úr ræðustól Alþingis sé haft á orði að eitt það versta við þessa ríkisstjórn sé hve erfitt hún á með allt samráð. En að samráðsleysið væri slíkt sem þetta mál ber vitni um, milli ríkisstjórnarinnar og hv. stjórnarþingmanna, hafði engan grunað, held ég, fyrr en það blasir við í dag. Hægri höndin virðist bókstaflega ekki vita hvað sú vinstri gerir.

Í síðustu viku var Ísland í heimspressunni vegna stofnunar félags sem ríkisstjórn Íslands á aðild að með nokkrum frægum erlendum stórfyrirtækjum. Því er ætlað að gera stóra hluti í tilraunum á notkun vetnis og var við þessa samningagerð m.a. reiknað með að vetnið fengist á hagkvæmum kjörum frá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, sem er eini íslenski aðilinn sem hefur tækjakost til þeirra framleiðslu nú.

Einhver frægasta fréttastofa erlendis tók svo djúpt í árinni að þetta væri með tíu merkustu fréttum vikunnar og mátti varla opna fjölmiðil hér á landi svo menn hreyktu sér ekki yfir þessum stórmerkjum. Loksins var Ísland komið á blað.

Meðan öllu þessu fór fram í heimspressunni sat einkavæðingarnefnd einhvers staðar í dimmu bakherbergi og áformaði að selja viðkomandi verksmiðju með öllum gögnum og gæðum, engar kvaðir um áframhaldandi vetnisframleiðslu. Hverju sætir þetta? Þetta er eitt það furðulegasta sem ég hef orðið vitni að í tíð þessarar ríkisstjórnar þó margt mætti þar telja til. Sambandsleysið virðist þvílíkt að ég sé ekki annað en það verði meðal tíu merkustu viðburða í heimspressunni í næstu viku. Þessar gerðir íslensku ríkisstjórnarinnar stefna vægast sagt í árekstur.