Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:23:38 (4205)

1999-03-01 16:23:38# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Í lögum sem sett voru á Alþingi árið 1994 er skýr heimild til ráðherra að selja hluta eða öll hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni. Allt frá árinu 1996 hefur verið unnið að því að selja þetta fyrirtæki. Nú liggja fyrir tilboð sem eru yfir þeirri lágmarksverðkröfu sem sett var. Í mínum huga er því hér um eðlilegan söluferil að ræða. Eins og fram hefur komið hefur verið óvissa um starfsemi Áburðarverksmiðjunnar um nokkurt skeið. Menn hafa sem betur fer náð betri tökum á rekstrinum undanfarið.

Ég vil leggja áherslu á að þótt ríkisfyrirtæki séu seld, þetta eða eitthvert annað, þá þýðir það ekki að viðkomandi starfsemi verði sjálfkrafa lögð af. Mér finnst hæpið að álykta sem svo. Mér finnst líka óeðlilegt að gera tilboð í svona fyrirtæki með það fyrir augum að leggja starfsemina niður.

Varðandi umræðuna um landið sem Áburðarverksmiðjan stendur á er ljóst að um leiguland er að ræða þannig að eigandi fyrirtækisins gæti ekki rifið fyrirtækið burt og selt síðan landið undir eitthvað annað án tilheyrandi breytinga á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á þessu hafnarsvæði.

Vetnismálið er merkilegt og ástæða til að vekja athygli á því. Áburðarverksmiðjan er hluthafi í Vistorku sem er vetnisfélagið sem stofnað var á dögunum. Hins vegar eru engar kröfur um að Áburðarverksmiðjan afhendi vetni til þess verkefnis sem eru í gangi. Þar er um að ræða mál sem viðkomandi fyrirtæki, Vistorka, þarf að leysa. Ég tel að í spilunum sé ekkert sem í sjálfu sér sýni að bæði áburðarframleiðsla og vetnisframleiðsla verði lögð af í Gufunesi þó annar aðili en íslenska ríkið eignist fyrirtækið þannig. Ég hvet til þess að menn fari ekki á taugum á þessu stigi. Grundvallaratriðið í þessu er að íslenskir bændur fái góðan áburð á sem lægstu verði.