Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:25:58 (4206)

1999-03-01 16:25:58# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta áburðarverksmiðjumál er kostulegt dæmi um framgöngu hæstv. ríkisstjórnar í einkavæðingarmálum. Nú eru hv. stjórnarliðar komnir í illindi út af sölu á Áburðarverksmiðjunni og skrautfjöður Framsfl. í umhverfismálum, sem átti að vera vetnismál hv. þm. Hjálmars Árnasonar, er allt í uppnámi og upplausn. Það sem átti að rétta af allar virkjanirnar og álverin, klæða Framsókn í pínulitla grænleita slikju ofan á álbræðslurnar, er allt í einu fokið út í hafsauga.

Hér liggur fyrir að selja eigi þessa verksmiðju. Þarna er augljóslega kastað til höndunum og virðist eiga að selja hana án allra kvaða eða markmiða um framhaldið. Menn láta sem þetta sé smámál og engu varði hvað um þessa starfsemi verður, hvað gert verður með þetta svæði o.s.frv. Er það gáfuleg ráðstöfun, frá sjónarhóli eigandans, að standa þannig að málum?

Lærdómurinn af þessu er augljós, herra forseti. Hann er aðeins einn. Það átti að láta Áburðarverksmiðjuna í friði. Þetta er það sem hefst upp úr krafsinu, þessi fíflagangur. Menn hefðu betur látið þetta í friði og ég segi það við stjórnarþingmenn, og sérstaklega úr Framsfl. sem koma hér vælandi: Ykkur var nær að sitja þegjandi undir þessu einkavæðingarbrölti. Þetta fenguð þið fyrir.