Ríkislögmaður

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:46:14 (4212)

1999-03-01 16:46:14# 123. lþ. 74.15 fundur 476. mál: #A ríkislögmaður# (yfirstjórn) frv. 7/1999, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:46]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 51/1985, um ríkislögmann, fyrir hönd allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti.

Í frumvarpinu er lagt til að yfirstjórn embættis ríkislögmanns verði flutt frá fjármálaráðherra til forsætisráðherra. Vistun embættisins hjá fjármálaráðuneyti á sér fyrst og fremst þær sögulegu skýringar að málarekstur æðstu stjórnar ríkisins í einkamálum var áður fyrr að stórum hluta í höndum sérstakra málflutningsmanna sem störfuðu innan fjármálaráðuneytis. Embættið er hins vegar í raun þjónustustofnun allra ráðuneytanna og því eðlilegt að það heyri undir forsætisráðherra og beri undir forsætisráðuneyti, sem fer með mál er varða Stjórnarráð Íslands í heild.

Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Allir nefndarmenn skrifa undir nefndarálitið.