Eftirlit með útlendingum

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:48:44 (4214)

1999-03-01 16:48:44# 123. lþ. 74.16 fundur 512. mál: #A eftirlit með útlendingum# (forstjóri Útlendingaeftirlits o.fl.) frv. 23/1999, BH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:48]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég held að hér sé í sjálfu sér verið að stíga eðlilegt skref. Þrátt fyrir að Útlendingaeftirlitið hafi allt frá upphafi verið sérstök stofnun þá hefur starfsemi þess verið samofin störfum lögreglunnar í Reykjavík. Hér er verið að leggja til breytingu á því sem í raun og veru á að tryggja að stofnunin verði sjálfstæðari í raun.

Ég er ein af þeim sem skrifa undir þetta nefndarálit og styð því að sjálfsögðu frv. eins og það liggur fyrir.

Ég vildi taka fram tvö atriði sem mér þótti rétt að vekja athygli á og komu reyndar aðeins til umræðu í hv. allshn. Það fyrra er að ég held að fyrir löngu sé kominn tími til þess að lögin um eftirlit með útlendingum taki breytingum í takt við tímans rás. Ég held að nafnið á lögunum, heiti laganna eitt og sér, segi heilmikið til um þá nálgun sem þar er. Þau heita ,,Lög um eftirlit með útlendingum`` rétt eins og að sérstök þörf sé á að fylgjast með útlendingum og gæta sérstakrar varúðar hvað þá varðar.

Hið sama má segja um nafnið, Útlendingaeftirlitið, sem mér þykir hafa mjög óaðlaðandi nálgun. Ég held að eðlilegra væri að þetta bæri heiti sem höfðaði meira til þjónustu, að þarna færi fram þjónusta við útlendinga. Af umræðum í nefndinni kom fram að þetta hefur þegar verið rætt í dómsmrn., þ.e. að gera breytingar í þessa veru, bæði hvað varðar heiti þessarar stofnunar og eins heiti og nálgun laganna að öðru leyti. Ég held að það sé löngu kominn tími til þess að það sé gert.

Þá vil ég líka vekja athygli á því að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að aðskilnaður Útlendingaeftirlitsins og ríkislögreglustjóra leiði til nýrra útgjalda sem ekki hefði komið til við frekara samstarf þessara stofnana. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun starfa við aðskilnað stofnananna. Síðan segir að aukinn launakostnaður vegna forstjóra sé áætlaður um 2 millj. kr. á ári, leiga skrifstofuhúsnæðis um 2,5 millj. kr. og aksturskostnaður um 0,7 millj. kr. þannig að viðbótarrekstrarkostnaður nemi alls rúmlega 5 millj. kr. á ári. Enn fremur er gert ráð fyrir um 2 millj. kr. stofnkostnaði til kaupa á tölvubúnaði.

Ég held að þarna sé mjög varlega áætlað og að þessi breyting muni hafa meiri kostnað í för með sér. Reyndar var það nánast staðfest af hálfu fulltrúa dómsmrn. sem kom fyrir nefndina að líklega mundi þessi breyting þýða meiri kostnað en þarna er áætlað.

Ég tel rétt að þetta komi fram í umræðunum hér.