Vopnalög

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:54:00 (4216)

1999-03-01 16:54:00# 123. lþ. 74.19 fundur 562. mál: #A vopnalög# (íþróttaskotvopn) frv. 19/1999, SP
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:54]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd allshn. fyrir frv. til laga um breytingar á vopnalögum, nr. 16/1998.

Á síðasta þingi voru samþykkt vopnalög, heildarlög um öll tæki sem telja má til vopna.

Nú nýverið barst allshn. bréf frá Skotíþróttasambandi Íslands þar sem fram kemur að með umræddum lögum hefði innflutningur á hálfsjálfvirkum keppnisskammbyssum sem notaðar eru í ólympískri skotfimi verið gerður ólöglegur.

Í framhaldi af þessu voru fulltrúar Skotíþróttasambandsins boðaðir á fund nefndarinnar ásamt fulltrúum ÍSÍ, ríkislögreglustjórans og dóms- og kirkjumrn. og farið yfir málið. Þessir aðilar voru allir sammála um að ljóst væri að aldrei hefði staðið til að girða fyrir innflutning á þessum keppnisbyssum.

Nefndin telur ljóst að það var ekki ætlun löggjafans að girða fyrir að keppnisskammbyssur til notkunar í ólympískri íþróttagrein yrðu fluttar til landsins. Leggur nefndin því til að bætt verði inn í vopnalögin heimild til innflutnings slíkra sérhannaðra skotvopna sem sannanlega eru ætlaðuð til íþróttaiðkunar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til 2. umr.