Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:40:51 (4221)

1999-03-02 13:40:51# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir að opna umræðu um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ég þakka henni ekkert sérstaklega fyrir þessa framsöguræðu en það er önnur saga.

Starfsemi Íbúðalánasjóðs er komin yfir byrjunarörðugleika sem vissulega voru til staðar og þarf ekki að tíunda það. Alkunna er að það var vegna tæknilegra örðugleika og vandamála sem sköpuðust á fyrstu dögum í starfsemi sjóðsins. Það er búið að afgreiða í Íbúðalánasjóði 1.133 umsóknir frá áramótum og þar af voru 523 sem komu inn þessu ári. Þetta greiðslumat sem við búum við núna er miklu áreiðanlegra og raunhæfara en fyrra greiðslumat. Útreikningar miðast við greiðslugetu og miðast við að umsækjandi eigi eða geti átt fyrir afborgunum lána á hverjum mánuði eftir að frá hafa verið dregnir kostnaðarliðir. Mér er það ljóst að neysluviðmiðunin í þessu greiðslumati er mjög þröng en þó er það spor í rétta átt að taka neysluviðmiðun inn. Það er ekki verið að miða við ákveðna hlutfallstölu launa eins og áður var heldur er miðað við þá fjárhæð sem raunverulega er eftir þegar tekið hefur verið tillit til kostnaðar við brýnustu framfærslu fjölskyldunnar.

Eins og hv. þm. á að vita var við vinnu starfshóps um nýtt greiðslumat leitað til samstarfs við Félag fasteignasala, lánastofnanir og húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar og núverandi greiðslumat er byggt á niðurstöðum þessa starfshóps.

Það fylgir ávallt kostnaður skipulagsbreytingum. Kostnaður við stofnun Íbúðalánasjóðs felst fyrst og fremst í breytingum á hugbúnaði og tölvukerfi. Þróun nýja hugbúnaðarins er ekki að fullu lokið og því liggja tölur um kostnað ekki endanlega fyrir, en þess má geta að vélbúnaður Húsnæðisstofnunar ríkisins var orðinn úreltur og endurnýjunar hefði verið þörf hvort sem kerfið hefði tekið breytingum eða ekki. Auk þess er nokkur kostnaður vegna biðlauna starfsmanna sem ekki voru ráðnir til Íbúðalánasjóðs.

Það má gera ráð fyrir að fleiri umsækjendur falli undir skilyrði um viðbótarlán en þeir sem áttu áður rétt á félagslegri íbúð þar sem tekju- og eignarmörk eru talsvert rýmkuð, og þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir svokölluðu 100% láni til kaupa á félagslegri íbúð, þá má gera ráð fyrir því að þeir sem féllu undir þann rétt muni bætast við leigumarkaðinn. Á árinu 1998 voru þetta um 150 fjölskyldur. Þegar hefur verið úthlutað lánum að heildarfjárhæð 1.755 millj. til félagasamtaka og sveitarfélaga til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum og gert er ráð fyrir því að þessi fjárhæð dugi til byggingar á 452 leiguíbúðum. Enn er eftir að úthluta heimildum til 60 leiguíbúða. Þá verður samtals úthlutað um og yfir 500 leiguíbúðum á árinu.

Á árinu 1994, sem var síðasta árið sem hv. þm. hafði með þessi mál að gera, var úthlutað lánum til 153 leiguíbúða. Aukning á úthlutunum til leiguíbúða á þessu ári eru því 359 íbúðir og sé einnig tekið tillit til þeirra sem hugsanlega bætast við leigumarkaðinn vegna niðurfellingar á 100% lánunum, þá er nettóaukningin meiri. Gera má ráð fyrir að 150 umsækjendur bætist í hóp leigjenda vegna þess að ekki er hægt að fá 100% lán lengur. Og þegar er búið að úthluta heimildum til 896 íbúðalána, þ.e. tæplega 900 viðbótarlána sem koma í staðinn fyrir félagslegu íbúðirnar áður og ónýttar heimildir Íbúðalánasjóðs til viðbótarlána munu enn þá vera um 40 talsins. Af þessu má sjá að hér hefur orðið mikil breyting og hrakspár um hið félagslega kerfi og skort á leiguhúsnæði hafa ekki ræst. Það eru að vísu biðlistar eftir leiguhúsnæði en á þessu ári er orðið við öllum beiðnum sveitarfélaga nema tveggja um lán til leiguíbúða.