Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:46:20 (4222)

1999-03-02 13:46:20# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Í lögum um hinn nýja Íbúðalánasjóð var verið að innleiða nýtt kerfi. Með nýja kerfinu fylgdi ný hugsun sem starfsfólk Íbúðalánasjóðs, sem áður vann hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, þarf að laga sig að. Bankarnir, fasteignasalarnir og viðskiptavinir kerfisins þurfa jafnframt að aðlagast hinu nýja kerfi. Allt þetta tekur nokkurn tíma og við verðum að gefa því þann tíma.

Sveitarfélögin og húsnæðisnefndir sveitarfélaga þurfa að læra á kerfið. Svo virðist sem húsnæðisnefndir sveitarfélaganna hafi ekki vaknað nægilega snemma til vitundar um sitt nýja hlutverk.

Verið er að innleiða nýjar reglur um greiðslumat og því fylgir einnig ný hugsun. Sú hugsun byggist á að fólki sé gert kleift að standa undir afborgunum af þeim lánum sem það tekur vegna íbúðarhúsnæðis. Þær reglur sem settar hafa verið byggja á tillögu starfshóps sem undirbjó nýtt greiðslumat vegna þess að rík þörf var talin á að breyta þeim reglum. Það er ekki einhlítt að það að miða við 18% afgang af tekjum til að borga af húsnæðislánum sé nákvæmlega sú viðmiðun sem dugar.

Því var mjög nauðsynlegt að fara yfir reglur um greiðslumat og búa til nýjar.