Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:54:16 (4225)

1999-03-02 13:54:16# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Enginn vafi leikur á því að sú ákvörðun hæstv. félmrh. Páls Péturssonar að leggja niður félagslega húsnæðislánakerfið var óheillaspor. Í því fólst í raun og veru allsherjarmarkaðsvæðing húsnæðislánakerfisins á Íslandi. Það sést best á því að bankar og fjárfestar eru farnir að keppa um að bjóða fyrirgreiðslu á þessu sviði. Kerfið er algerlega markaðsvætt.

Afleiðingin af þessum breytingum hefur m.a. orðið sú sem við vöruðum við og spáðum, að ófremdarástand mundi skapast á leigumarkaði. Því getur enginn lengur á móti mælt. Það hefur gerst og er þó ekki allt komið fram enn í þeim efnum. Það er nokkuð víst að það ástand á eftir að versna.

Herra forseti. Í húsnæðismálum virðist ógæfu Íslands verða allt að vopni. Á þriggja til fimm ára fresti er skipt um kerfi, tekið upp nýtt og fínt kerfi. Í tengslum við þær kerfisbreytingar bregst ekki að einhverjir hópar klemmast á milli, lenda í biðröðum, fá á sig afföll eða verða fyrir hremmingum af öðrum toga. Reyndar er það ekki rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að slíkar hremmingar séu eingöngu bundnar við það að framsóknarráðherrar fari með völdin, þó þeim sé og hafi svo sannarlega verið mislagðar hendur. Ég minni á hvernig menn fóru út úr því er húsbréfin voru tekin upp og máttu sæta miklum afföllum og lenda í vandræðum. Ég vænti þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir geti rifjað upp hver var félmrh. um þær mundir.

Niðurstaðan, herra forseti, er sú að hér hefur skapast ófremdarástand í húsnæðismálum sem ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra Páll Pétursson bera auðvitað alla ábyrgð á. Það þýðir ekki að koma í ræðustólinn með skrumskælingar eins og hæstv. ráðherra gerði hér áðan. Það dugar hæstv. ráðherra ekki til málsvarnar. Niðurstaðan er sú að hæstv. félmrh. Páls Péturssonar mun fyrst og fremst minnst fyrir eitt, að vera félmrh. sem gekk af Byggingarsjóði verkamanna og félagslegu húsnæðislánakerfi dauðu.